Föstudagur, 15. ágúst 2008
Fótboltalið á 300 km hraða
Um næstkomandi mánaðamót hefst ný kappakstursmótaröð þar sem sameinast tvær ólíkar íþróttir; knattspyrna og kappakstur. Hefur íþróttin fengið heitið ofurformúlan en þar er skírskotað til þess að á bak við keppnisbílana standa mörg fræknustu fótboltafélög heims.
Fyrsti kappakstur fótboltabílanna fer fram í Donington Park-brautinni í Englandi 30. og 31. ágúst nk. Keppnisbílunum svipar mjög til bíla í formúlu-1. Þeir verða allir nákvæmlega eins og búnir 750 hestafla V12-mótor. Því munu liðin standa tæknilega jafnfætis og árangurinn ræðst eingöngu af færni og getu ökumanna.
Alls er reiknað með að 20 bílar verði á ráslínunni en 17 lið hafa þegar skuldbundið sig til þátttöku. Í dag bættist enska úrvalsdeildarliðið Liverpool í hópinn, en fyrir skömmu gekk annað lið úr þeirri deild til liðs við formúluna Tottenham Hotspur. Bílarnir verða að útliti í einkennislitum liðanna á bak við þá.
Auk Liverpool og Tottenham hafa skuldbundið sig til þátttöku Sevilla á Spáni, Glasgow Rangers í Skotlandi, PSV Eindhoven í Hollandi, Olympiakos í Grikklandi, Galatasaray í Tyrklandi, Flamengo og Corinthians í Brasilíu, Porto í Portúgal, Basel í Sviss, Borussa Dortmund í Þýskalandi, Guoan FC frá Peking í Kína, AC Milan og AS Roma á Ítalíu, Anderlecht í Belgíu og Al-Ain í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Lagt er upp með að kappaksturshelgin verði fjölskylduhátíð þar sem boðið verður upp á alls kyns skemmtan auk kappaksturs. Sömuleiðis verður mótshaldið afslappaðra en í formúlu-1. Brautargestir allir munu t.d. geta sprangað um athafnasvæði liðanna, virt fyrir sér bílana í návígi og rætt við ökumenn og starfsmenn og leikmenn viðkomandi fótboltaliða.
Fyrirkomulag mótanna verður þannig, að tímatökur fara fram á laugardegi og keppt er síðan tvisvar á sunnudeginum, 50 mínútur í senn. Hvorki má skipta um dekk né taka bensín í tímatökum og keppni. Í fyrri kappakstrinum ræðst rásröð af niðurstöðu tímatöku. Í hinum seinni verður rásröðinni hins vegar snúið alveg við og hægasti bíllinn hefur keppni fremstur.
Keppt verður um verðlaunafé, á aðra milljón evra í hverju móti. Dreifist það í samræmi við árangur keppenda, en gefin verða stig frá fyrsta til síðasta sætis. Það lið telst síðan sigurvegari í heildarkeppninni sem flest stig hefur við vertíðarlok.
Sex mót verða haldin í ár en þeim fjölgar í níu á því næsta, í 12 árið 2010, 15 árið 2011 og 17 árið 2012. Mótin í ár verða einungis í Evrópu. Hið fyrsta utan álfunnar fer fram á næsta ári og síðan fjölgar þeim um eitt árlega til 2012 er fjögur fara fram í öðrum álfum.
Fyrsta mótið fer fram í Donington sem áður segir. Þremur vikum seinna liggur leiðin til Nürburgring í Þýskalandi. Í byrjun október fer þriðja mótshelgin fram í Zolder í Hollandi og þaðan heldur hersingin til Estoril í Portúgal til keppni þriðju helgi í október.
Tvær síðustu mótshelgarnar fara fram í nóvember, í Vallelunga á Ítalíu og Jerez á Spáni.
Eftir er að fullskipa raðir ökuþóra, en fyrir liggur að Hollendingurinn Robert Doornbos sem keppt hefur í formúlu-1 og ChampCar í Bandaríkjunum keppir fyrir AC Milan. Er hann einna frægastur þeirra ökumanna sem þegar hafa verið ráðnir.
Fyrir ítalska liðið AS Roma mun keppa fyrrverandi reynsluþór úr formúlu-1, Enrico Toccacelo og loku er ekki fyrir það skotið að Giancarlo Fisichella keppi einnig fyrir liðið þegar vertíðinni í formúlu-1 er lokið. Tottenham mun frumsýna bíl sinn og skýra á sunnudag frá því hver keppir fyrir liðið en það verður enskur ökuþór.
Nánar er hægt að fræðast um íþróttina á vefsetri hennar á slóðinni http://superleagueformula.com/
Athugasemdir
Það verður spennandi að fylgjast með þessu, sem Púllari er ég að sjálfsögðu búinn að velja mér lið en það verður gaman að sjá hver keppir fyrir liðið.
Jóhann Elíasson, 15.8.2008 kl. 20:46
Áhugavert.... Veistu hvort það verði eitthvað fjallað um þetta í íslenskum fjölmiðlum?
Einar Indriðason, 15.8.2008 kl. 22:19
Það besta við þetta er að allir bílarnir eru eins, þannig að ökumaðurinn skiptir miklu máli. Ég er fúll yfir því að ekkert franskt lið hefur tengst þessari grein, eins og kappakstur hvers konar er nú vinsæll hér í landi. Og sem gamall fylgismaður Manchester United, sem er heldur ekki þarna á meðal, er fýlan tvöföld. Tek því ofan fyrir Liverpool, Jóhann.
Velti því fyrir mér hvort þetta verði til þess að fólk sem sér bara fótbolta en lítt annað fari að fylgjast með kappakstri. Það er ég ekkert svo viss um, en verður bara að koma í ljós.
Einar, þessari spurningu get ég ekki svarað. Veit t.a.m. ekki hvort sjónvarpsstöðvarnar hafi einhver áform um að taka þetta til sýninga. Ég held að bílablað Morgunblaðsins og formúluvefur mbl.is sé einu íslensku fjölmiðillarnir sem fjallað hafa um þessa grein.
Ágúst Ásgeirsson, 16.8.2008 kl. 06:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.