Batnandi manni best að lifa

Það er athyglisvert að lesa um iðrun Michaels Schumacher vegna atviksins í Jerez 1997 er hann freistaði þess að verða heimsmeistari ökuþóra í formúlunni með bíræfnum bellibrögðum. Hingað til hefur hann þóst sakleysið uppmálað og sagt að um akstursóhapp hafi verið að ræða.

Batnandi mönnum er best að lifa, var það fyrsta sem mér datt í hug við lesturinn. Og bíð nú eftir að meistarinn mikli játi annað samskonar atvik fjórum árum fyrr í Adeleide í Ástralíu. Frá því slapp hann reyndar án refsingar og hampaði titlinum í það skiptið, í fyrsta sinn á ferlinum.

Fæstum þótti það gerlegt á sínum tíma að ökuþórar reyndu að keyra náungann út úr brautinni með þeim hætti sem átti sér stað í Adeleide. Meðal annars vegna þess að tveir ökuþórar höfðu látið lífið á einni mótshelgi hálfu ári áður og formúlan hálflömuð ennþá vegna þess.

Í ljósi atburða síðar meir hvarflar vart annað að málsmetandi mönnum en að atvikið í Adeleide hafi verið eitthvað annað en óviljaverk. Með sama hætti og hann hefur alltaf - þar til nú - neitað sök varðandi Jerez hefur hann aldrei ljáð máls á öðru en atvikið í lokamótinu 1994 hafi verið óviðráðandi óhapp.

Schumacher er óumdeilanlega afburða ökuþór og einstakur afreksmaður. Og það alveg burtséð frá tveimur umræddum atvikum. Og ef eitthvað er finnst mér hann maður að meiri og jafnvel aukast í áliti með játningu sinni nú. Sá sem ekki iðrast ósæmilegar gjörðir er ekki við bjargandi. Schumacher fellur ekki í þann flokk, alla vega ekki lengur, að mínu mati.

Eftir að hafa marglesið og skoðað upptökur af atvikinu í Adeleide á árum áður og líka eftir bellilbrögð hans í Mónakó síðastliðið vor fer ég ekkert ofan af þeirri skoðun að hann hafi unnið einvígið um titilinn 1994 við Damon Hill með brögðum.  Titilslagur þeirra það ár var harður og skemmtilegur, sama hvor þeir vann. Ekkert síðri rimma en keppni Alonso og Schumacher í ár - og jafnvel meira spennandi.  

Schumacher segist nú engu sjá jafn mikið eftir og er hann freistaði þess að keyra Jacques Villeneuve hjá Williams út úr brautinni í Evrópukappakstrinum 1997 í Jerez á Spáni. Atvikið átti sér stað frammi fyrir urmul sjónvarpsmyndavéla og sást greinilega frá öllum vinklum hvernig hann reif í stýri sitt og lagði inn í bíl Villeneuve rétt fyrir beygju nokkra. Freistaði hann þess að keyra báða úr leik. Við það hefði hann hlotið heimsmeistaratitilinn þriðja sinni.

Tilraunin mistókst hins vegar og ólíkt því sem var í Adeleide voru myndavélarnar of margar sem sýndu og sönnuðu illan ásetning meistarans. Framferðið þótti það bíræfin að Schumacher var sviptur öðru sætinu í keppninni um heimsmeistaratitilinn og árangur hans á árinu öllu strikaður út. Fróðlegt verður að sjá hvort frekari játningar eigi sér stað á næstunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Sæll Jóhannes

Hill þótti þetta með ólíkindum undarlegt atvik strax í upphafi en sá stálheiðarlegi drengskaparmaður var í byrjun  algjörlega grunlaus um að brögð hafi verið í tafli og tók þær skýringar trúanlegar að um óviljaverk hafi verið að ræða. Á hann runnu síðar meir tvær grímur og eftir atvikið í Jerez sá hann atburðina í Adeleide öðrum augum. Hann hefur lítið verið að velta sér upp úr þessu og hvarf eiginlega nánast með öllu af vettvangi formúlunnar í tæpan áratug, sneri sér algjörlega að öðrum hugðarefnum.

Ég líki ekki átökum og brögðum Senna og Prost við brögð Schumacher. Þeir voru svarnir andstæðingar og hikuðu ekki við að segja fyrirfram að þeir myndu klekkja hvor á hinum ef því var að skipta. Þóttust aldrei sakleysið uppmálað! Og voru ekkert að kveina og kvarta eftir atvikið í Suzuka!

Ágúst Ásgeirsson, 28.11.2006 kl. 19:03

2 identicon

Michael Schumacher er keppnismaður í húð og hár. Í svona hraðri keppni þarf ökumaður að taka ákvörðun á sekúndubroti og sú ákvörðun þarf ekki endilega að vera sú rétta en getur skilið milli sigurs og taps. Þeir ökumenn sem teygja sig langt eftir sigri, smáum sem stórum, eru venjulega þeir sem sigra oftast. Stundum er tekin áhætta sem skilar sér og stundum ekki. Stundum er teygt sig of langt. Það er auðvelt að meta aðstæður þegar maður situr heima í stofu en þarf ekki að taka ákvörðun á sekúndubroti. Þetta sjáum við víðar í íþróttaheiminum t.d. í fótbolta. Gróft brot getur verið sambland af fljótfærni leikmanns og leikaraskap andstæðings. Venjulega fylgir svo dómur á eftir. Schumacher hefur fengið sinn skerf af dómum eins og t.d. í Mónaco. Samt sem áður sýndi hann meistaratakta með því að ná 5. sæti (held ég). Hverjum finnst ekki gaman að sjá svona akstur. Mér kæmi ekki á óvart að honum hafi leiðst gríðarlegir yfirburðir Ferrari bílanna tvö ár í röð sem reyndi nánast ekkert á færni hans og klæki. Ég segi því; ef hann hefur slæma samvisku þá er það næg refsing. Það sem hann hefur boðið okkur áhorfendum upp á er skemmtun og spenna, stundum á gráu svæði en maður var samt límdur við skjáinn. Fagnið góðum kappa og kveðjið á viðeigandi hátt með því að meta það góða frá honum. Enginn veit hvað haft hefur fyrr en hvatt hefur!

Hafsteinn Elvar Jakobsson (IP-tala skráð) 29.11.2006 kl. 21:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband