Honda á eftir Alonso með ávísanaheftið galopið

Frétt þá sem hér fer á eftir skrifaði ég um hádegisbil 23. júlí sl. en ákvað að birta hana ekki, enda fannst mér þetta vera orðin gömul tugga og marg endurtekin. Auðvitað skiptir máli hvað Alonso gerir - rétt eins og í ljós kom í fyrra. Þá hélt hann ökuþóramarkaðinum í spennu mánuðum saman og hið sama er að gerast nú. Og þar sem mál hans eru nú að dúkka upp eina ferðina enn, 10 dögum eftir að ég skrifaði eftirfarandi texta - með fyrirsögninni hér að ofan, læti ég hann fylgja hér:

"Hondaliðið hefur sett aukinn slagkraft í tilraunir sínar til að laða Fernando Alonso til sín. Vill það ráða hann sem ökuþór, ekki bara á næsta ári, heldur þeim næstu. Og peningar eru sagðir engin fyrirstaða - ávísanaheftið standi galopið.

Þessu heldur  breska dagblaðið The Daily Telegraph fram í vikunni. Þar kemur fram að stjórnendur Honda, Ross Brawn og Nick Fry, vilji ekki gera eins árs samning við Alonso, heldur til lengri tíma. Telji þeir hann besta hugsanlega liðsfélaga Jenson Button í tilraunum sínum til að koma Honda framar í keppni í formúlu-1.

„Það á ekkert við Fernando einan og sér, en ég er þeirrar skoðunar að eitt ár sé of skammur tími til að aðlaga ökuþór að liði til að hægt sé að  uppskera sem mest af færni hans,“ sagði Fry í Hockenheim er hann var spurður út í orðróm þess efnis að Alonso yrði hugsanlega ökumaður hjá Honda, en aðeins á næsta ári, 2009.

Blaðið segir að Fry og Brawn hafi boðið Alonso sjálfum að leggja fram tillögu að upphæð sem honum bæri fyrir samning til lengri tíma en eins árs.

Brawn svaraði því til í Hockenheim í síðustu viku, að núverandi ökuþórar, Button og Rubens Barrichello, yrðu báðir í starfi hjá Honda 2009. Daginn eftir dró hann í land og sagði „ekkert frágengið“ varðandi liðsskipanina á næsta ári.

Hondaliðið er sagt hafa yfir tæknilegri færni og aðstæður til jafns við toppliðin McLaren og Ferrari. Hefur þaðnú í raun hætt þróun 2008-bílsins í þeirri von að njóta sem mestra ávaxta af breytingum sem koma til framkvæmda á næsta ári, að sögn Fry."

Við þetta er því að bæta, að enn er það Honda sem á í hlut. Sagt er að liðið sé reiðubúið að bjóða Alonso eins árs samning. 2009-bíllinn sé að öllu hugarsmíð Ross Brawn og hann er sagður áfram um að fá Alonso til lisins til að freista þess að fá sem mest út úr bílþróuninni á næsta ári. Og veðja á að bíllinn reynist það góður að Alonso freistist til að dvelja lengur hjá Honda frekar en reyna komast að hjá Ferrari 2010.

Alonso er sem sagt sagður ekki vilja binda sig lengur en eitt ár í einu til að eiga þess kost á að ráða sig til Ferrari 2010 ef sá möguleiki býðst.

Ég spáði því fyrr í sumar að hann verði áfram hjá Renault á næsta ári - og ætla að halda mig við það!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég er alveg sammála þér, ég held að Alonso hafi "brennt" sig á McLaren-árinu, hann virðist þrífast vel hjá Renault og ekki nema eðlilegt að hann sé ekkert "ginkeyptur" fyrir því að færa sig um set.  Það hafa orðið miklar framfarir á Renault-bílnum og ég er á því að þær eigi eftir að verða mun meiri.  Ég hef alltaf verið á því að Alonso sé mjög góður ökumaður en mannlegu samskiptin eru ekki alveg hans deild og hann má bara virkilega athuga sinn gang svo hann endi ekki í Nascar-kappakstrinum eins og hinn fýlupokinn, munurinn er bara sá að Alonso kemst upp með meira vegna þess að hann er einfaldlega mun betri en Montoya.

Jóhann Elíasson, 5.8.2008 kl. 09:40

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Rétt hjá þér, Jóhann, þó Montoya hafi verið skemmtilegur á brautinni þá þótti hann ekkert sérstakur við þróunarstarfið. Það er það sem liðin eru tilbúin að gefa svo mikið fyrir, að ökuþór geti unnið skilvirkt með tæknimönnunum við að bæta bílinn. Schumacher var t.d. mjög góður í því. Þess vegna vilja menn eins og Brawn fá Alonso - og það vilja hann fleiri. Ætli eini staðurinn sem hann er ekki velkominn á í bráð sé McLaren.

Það kann kannski að breytast fyrr en varir því Ron Dennis mun yfirgefa skipið að vertíð lokinni, spái ég, og Mercedes líklega taka meira við stjórn McLarenliðsins.

Ágúst Ásgeirsson, 5.8.2008 kl. 12:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband