Tímamót hjá mörgum í Búdapest

Ellefti kappakstur ársins fer fram í Búdapest í Ungverjalandi um helgina. Þar hafa orðið tímamót á ferli margra núverandi ökumanna.

Lewis Hamilton fór með sigur af hólmi í fyrra eftir umdeilt atvik við bílskúra McLarenliðsins. Fernando Alonso vann ráspólinn en var færður aftur eftir rásmarkinu fyrir meinta hindrun gegn félaga sínum, Hamilton, í tímatökunum.

Í hitteðfyrra, 2006, vann Jenson Button hjá Honda kappaksturinn. Var það jómfrúarsigur hans og sá eini til þessa á níu keppnistíðum. Hóf hann keppni í 14. sæti í rigningu en það varð honum m.a. til láns, að Alonso féll úr leik í forystu vegna útafaksturs og Michael Schumacher varð að hætta keppni þremur hringjum frá endamarki af 70.

Mótið var jafnframt fyrsti kappakstur Roberts Kubica hins pólska fyrir BMW eftir að Jacques Villeneuve var leystur undan samningi. Fór þó ekki betur en svo að Kubica var dæmdur úr leik.

Árið 2005 blés Räikkönen í glæður titilvona sinna með sigri þar sem Alonso varð aðeins ellefti í mark eftir samstuð í fyrstu beygju. Alonso var þó áfram með 26 stiga forystu.

Segja má að kappaksturinn í Búdapest árið 2004 marki þáttaskil á ferli Schumacher. Hrósaði þar sigri tólfta sinni á árinu og innsiglaði sigur í keppni ökuþóra; vann þar sinn síðasta titil af sjö og sjötta titil Ferrari í röð í keppni bílsmiða. Rubens Barrichello varð annar og var það sjöunda tvenna Ferrari á árinu.

Loks minnist Alonso kappakstursins í Búdapest 2003 með hlýju því það var fyrsti mótssigur hans í formúlu 1. Var hann yngsti ökuþór sögunnar til að vinna mót í formúlu 1, 22 ára og 27 daga gamall. Það gerði sigurinn meiri að hann varð rúmum hring á undan Schumacher í mark.

Hungaroring-brautin er ein sú hægasta á árinu. Tímatökur skipta þar ekki minna máli en í Mónakó vegna lítilla möguleika til framúraksturs. McLaren hefur hrósað sigri fjórum sinnum í Búdapest síðustu 10 árin, hafið keppni af ráspól fjórum sinnum og jafnoft sett hraðasta hring. Ferrari hefur einnig unnið fjögur mót af 10 síðustu í Hungaroring, síðast 2004.

Þótt annáluð sé fyrir að vera erfið til framúraksturs hafa einungis sex af síðustu 10 mótum unnist af ráspól. Aðeins þrisvar sinnum frá 1998 hefur sigurvegari í Búdapest orðið heimsmeistari ökuþóra sama ár; Häkkinen 1999 á McLaren og Schumacher 2001 og 2004.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það var rosalega gaman að sjá Damon Hill í Topp Gear um daginn, en þar fór hann hring á "hagkvæma bílnum" og það sást að engu hafði hann gleymt.  Fleiri góðir hafa komið þarna og má þar nefna: Jackie Stewart, Jenson Button, Lewis Hamilton og fleiri.  Það er meira lagt upp úr skemmtanagildinu í þessum þáttum en engu að síður eru þeir hin besta skemmtun og reyni ég alltaf að sjá þá.

Ég óska ykkur góðrar skemmtunar í tímatökunum á morgun og kappakstrinum á sunnudaginn.

Jóhann Elíasson, 1.8.2008 kl. 17:23

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Sæll Ómar, gaman að heyra frá þér. Jú, það hefði mátt minnast á þetta dæmi - mundi ekki eftir því við skrifin en þegar þú nefnir það verður aksturinn ljóslifandi fyrir hugskotssjónum.

Heyrðu, það var skemmra eftir, vökvakerfið bilaði á næstsíðasta hring, þannig að hann hafði ekki nema einn eða tvo gíra til afnota. Og Villeneuve skaust framúr á lokahringnum á Williamsinum.

Og mannstu, í kappakstrinum tók hann á Arrowsinum fram úr engum ómerkari ökumanni en Michael Schumacher á Ferrari. Þar vann hann beygju af honum á bremsusvæði og komst fram úr - þessari braut sem á að vera svo erfið til framúraksturs.

Óskandi væri að Hill hefði unnið, hann var alltaf minn maður. En ég held eiginlega samt, að þessi kappakstur sé eftirminnilegri vegna þess hvernig fór.

Einhvers staðar hef ég lesið eftir Villieneuve síðar meir, að honum hafi eiginlega þótt bölvanleg að þurfa að fá sigurinn í Búdapest með þeim hætti sem hann fékkst. Hann sagðist hafa fundið til með vini sínum.

Ágúst Ásgeirsson, 1.8.2008 kl. 17:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband