Hungaroring mjúkhentur á mótorana

Ungverski kappaksturinn er framundan. Brautin í Búdapest,  Hungaroring, er frábrugðin flestum öðrum og er heilmikil áskorun, bæði fyrir ökumenn sem tæknimenn liðanna. Þar er engum hröðum beygjum fyrir að fara og fyrir vikið er mesta mögulega vængpressa notuð – til að tryggja sem bestan hraða í beygjum og veggrip og ennfremur hámarka skilvirkni hemla. Mikil áhersla er lögð á skilvirka mótorkælingu vegna mikils lofthita og lítils bílhraða.

Fyrir ökumenn er kappaksturinn hin mesta raun. Lofthiti er jafnan mikill á mótstíma í Búdapest og bugðótt 14 beygju brautin er þannig úr garði gerð, að ökumenn fá nánast enga hvíld á hringnum, en 70 slíkir eru eknir í kappakstrinum. Í raun þykir aðeins einn staður mögulegur til framúraksturs, en það er fyrsta beygja hringsins í lok 700 metra langs beins kafla.

Að beina kaflanum frátöldum er hringurinn samsettur úr nokkrum röðum hraðalítilla beygja eða meðalhröðum. Bremsukaflar fyrir þær eru stuttir og framúrakstur á þeim í besta falli illmögulegur. Sjaldgæft er að bílar nái 300 km/klst hraða á beina upphafs- og lokakaflanum.

Vélræn rásfesta er mikilvæg í hinum hægu beygjum í Búdapest og því er fjöðrunarbúnaður hafður mýkri en í öðrum brautum, að Mónakó frátalinni. Ökumenn vilja snarpan bíl í hægu köflum brautarinnar með góðu veggripi út úr beygjum. Því er venjulega mætt með því að hafa framfjöðrunina eilítið stífari en afturfjöðrunina. Áhrif hefur á þær stillingar að lokum hvernig bílarnir slíta dekkjum á föstudagsæfingunum.

Hungaroring reynir minna á vélar bílanna en flestar brautir. Lengsti kaflinn sem ekinn er í botni tekur aðeins um 10 sekúndur. Og í heildina er aðeins 56% hringsins ekinn með bensínfetilinn í botni, sem er miklu lægra hlutfall en í flestum brautum öðrum.

Af 14 beygjum hringsins eru fimm eknar í öðrum gír á um 100 km/klst. hraða. Minnsti beygjuhraði er 90 km. Ökumenn hafa þörf fyrir gott tork út úr svo mörgum hægum beygjum sem er að finna í Búdapest. Mestan hringinn er hraðasviðið tiltölulega lítið eða á bilinu 100 - 250 km/klst. Gírkassi er því settur þannig upp að stutt er í gírum til að tryggja sem skilvirkust afköst á hraðabilinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það er nokkuð ljóst að keppnin þarna á eftir að verða hörð og þjónustuhléin eiga eftir að spila einna stærsta hlutverkið í kappakstrinum um helgina.  Tímatakan á laugardaginn held ég að eigi eftir að skipta sköpum.

Jóhann Elíasson, 30.7.2008 kl. 21:47

2 Smámynd: Óli Sveinbjörnss

Mikið er ég ánægður með bloggið þitt Ágúst. Maður kemst bara í stuð og getur varla beðið eftir helgini eftir lesninguna hjá þér. Sammála Stýrimanninum með að tímatökurnar skipta sköpum og þjónustuhléin. Einnig held ég að reynslumestu ökuþórarnir fari slysalaust í gegnum keppnina og ef einhver gerir mistök þá verður það einhver nýliðin. Annars er ég búin að fara á nokkur mót og Ungverjaland er næst á dagskrá með gúllassúpa og alles. Takk fyrir gott blogg.

Óli Sveinbjörnss, 31.7.2008 kl. 23:48

3 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Þakka þér Óli vinsamleg ummæli. Ánægja þín gleður mig. Tek undir með ykkur Jóhanni um Búdapest og tímatökurnar. Vonandi verður keppnin skemmtileg og eitthvað um óvæntar niðurstöður.

Ágúst Ásgeirsson, 1.8.2008 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband