Laugardagur, 26. júlí 2008
Leynivopn McLaren á stýrinu
Snöggar og miklar framfarir silfurörva McLaren-liðsins hafa vakið athygli en Lewis Hamilton hefur verið í sérflokki í síðustu tveimur mótum. Í franska kappakstrinum fyrir mánuði áttu þeir Heikki Kovalainen í miklum erfiðleikum með að reyna að hanga í bílum Ferrari. Í næstu tveimur mótum, Silverstone og Hockenheim, drottnaði McLaren hins vegar og Ferrari átti engan möguleika.
Hamilton var 68 sekúndum á undan næsta manni í Silverstone og hefði sömuleiðis orðið óralangt á undan í Hockenheim hefði ekki öryggisbíll verið í brautinni í drjúgan tíma vegna óhapps. Og þar sýndi hann einstaka yfirburði með því að aka úr fimmta sæti í það fyrsta á nokkrum hringjum eftir þjónustuhlé í kappakstrinum.
Áberandi hefur þótt hversu mikilli hröðun Hamilton hefur náð án þess að spóla neitt. Og eins hefur ræsingin þótt afar skilvirk í síðustu mótum.
Margir munu hafa klórað sér í höfðinu yfir yfirburðum Hamiltons. McLaren-menn hafa varist fregna og ekki viljað ljóstra upp um bílþróun sína. Fróðir þykjast hins vegar hafa fundið skýringuna. Og segja hana fremur einfalda. Liggur hún í stýri bílsins eða raunar á því.
Stýrishjól McLaren-bílanna er frábrugðið að því leyti að þar er að finna fjórar litlar blöðkur í stað tveggja. Tvær þær efri eru til að skipta um gíra eins og hefðbundið er en aukablöðkurnar eru til að stilla vélartorkið eða tog mótorsins og laga það að notkun gíra svo það nýtist sem best til hröðunar. Tilgangurinn er að lágmarka spól í hægum beygjum og halda ferð í hraðari beygjum.
Tæknireglur kveða á um að ökumaður megi ekki stilla gír og tork í einni aðgerð. Til að komast í kringum regluna verður því að nota aukablöðkur. Ökumanni leyfist sem sagt að nota tvo putta í stað eins og fellur bíllinn eftir sem áður innan regla.
Í ljósi þessara skýringa þykir aðeins spurning hvenær önnur lið taka þessa tækni upp hjá sér. Eða hvenær Alþjóðaakstursíþróttasambandið (FIA) bannar hana. Séu stýrisblöðkurnar lykillinn að uppsveiflu McLaren þykir mega veðja á að Ferrari-fákarnir verði ekki lengi að draga silfurörvar McLaren aftur uppi.
Athugasemdir
Sé þetta rétt, sem ég efast ekki um, þá er alveg einsýnt að það er ekki nóg að tæknin sé til staðar heldur þurfa menn að ná tökum á að nota hana. Þetta virðist Hamilton þá hafa framyfir Kovailinen því Kovailinen hefur ekki haft neina yfirburði í fyrrgreindum mótum.
Jóhann Elíasson, 26.7.2008 kl. 09:19
Gott innlegg þetta. Enn eitt dæmið um muninn á mönnum sem aka á nákvæmlega eins bílum.
Ágúst Ásgeirsson, 26.7.2008 kl. 10:53
Ég er nokkurnvegin viss um að Kovailinen á eftir að kosta McLaren titil bílasmiða jafnvel þó að Hamilton vinni titil ökumanna. Ferrari ökumennirnir eru báðir stigasafnarar, þeir landa oftast báðir slatta af stigum fyrir liðið þó að þeir vinni ekki. Hjá McLaren er hins vegar bara einn maður að safna fyrir liðið.
Einar Steinsson, 28.7.2008 kl. 08:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.