Föstudagur, 18. júlí 2008
Aldrei eins jöfn keppni um titil ökuþóra
Staðan í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra í formúlu 1 hefur aldrei verið eins jöfn og eftir síðasta kappakstur. Þrír ökuþórar hafa hlotið jafnmörg stig, 48 hver, og sá fjórði er aðeins tveimur stigum á eftir með 46. Því er kappakstur helgarinnar í Hockenheim þeim öllum einkar mikilvægur. Hann markar upphaf seinni helmings keppnistíðarinnar í ár.
Lewis Hamilton hjá McLaren telst efstur og til marks um jafnan leik reið þar baggamun tíunda sætið í franska kappakstrinum í MagnyCours, eða fimmti besti mótsárangur hans í ár. Þeir Felipe Massa hjá Ferrari hafa hvor um sig unnið þrjú mót í ár, orðið einu sinni hvor í öðru sæti og einu sinni í því þriðja. Báðir hafa jafnframt einu sinni hvor lokið keppni í fimmta sæti. Því varð að kafa enn dýpra í árangur þeirra til að sjá hvor teldist framar. Hafði Hamilton þá betur því fimmti besti árangur Massa í ár var þrettánda og síðasta sætið í síðasta móti, í Silverstone.
Kimi Räikkönen hjá Ferrari telst þriðji þar sem hann hefur unnið einu móti færra en keppinautarnir, eða tvö. Hann hefur þó verið jafnoft og þeir á verðlaunapalli, tvisvar fyrir annað sætið og einu sinni fyrir það þriðja.
Robert Kubica hjá BMW er tveimur stigum á eftir þessum þremur en hann hefur setið um stund í efsta sæti stigakeppninnar á vertíðinni.
Verði sigurvegari helgarinnar úr hópi þeirra þriggja fyrst töldu nær hann ekki aðeins stigaforystu, heldur mikilvægu sálrænu taki í keppninni. Hamilton vann síðasta kappakstur með miklum glans og mætir sigurstranglegur til Hockenheim. Annar aðaleigandi McLaren-liðsins er þýski bílsmiðurinn Mercedes-Benz . Lítur liðið því á mótið sem sinn heimakappakstur. Og þann annan í röð þar sem sá breski telst það einnig vegna heimilisfestu og róta liðsins í Englandi. Gott gengi í Hockenheim er McLaren einkar mikilvægt ætli liðið ekki að missa af Ferrari og BMW í keppni bílsmiða.
Hamilton segir það markmið sitt að fara með sigur af hólmi á sunnudag og hrista þannig ökuþóra Ferrari aðeins af sér. Ítalska liðið mætir þó til leiks staðráðið í að komast út úr þeirri ólánsöldu sem elt hefur það í undanförnum mótum. Räikkönen og Massa verða Hamilton sem öðrum að öllum líkindum erfiðir viðureignar. Herðir það þá, að síðast þegar keppt var í Hockenheim, 2006, átti Ferrari tvo fyrstu bíla í mark. Var Michael Schumacher fyrstur og Massa annar.
Vinni Kubica öðru sinni á vertíðinni yrði hann jafn einhverjum hinna þriggja að stigum verði einhver þeirra í öðru sæti. Hann næði því aðeins forystu í keppninni að Räikkönen yrði annar. Með sama stigafjölda teldist Kubica ofar heimsmeistaranum út á það að hann hefur tvisvar orðið fjórði í keppni en Räikkönen einu sinni! Og eins og McLaren telur BMW mót helgarinnar sinn heimakappakstur þar sem hann fer fram í Þýskalandi. Því verða margir sem leggja allt í sölurnar um helgina. Heimamaðurinn Nick Heidfeld hjá BMW varð annar í síðasta móti. Tók þar hvað eftir annað fram úr keppinautunum, ók með öllu hnökralaust og segist ekki hafa getað fengið betri undirbúning fyrir Hockenheim.
Undanfarið hefur verið mikill skriður á Toyota, Red Bull og Renault. Aðeins eitt stig skilur þau tvö fyrstnefndu að og segja stjórar Toyota takmarkið að treysta sig í sessi í fjórða sætinu í keppni bílsmiða. Til þessa sama sætis lítur Renault, markmið liðsins er að ná því í ár. Sem stendur er franska liðið í sjöunda sæti, 10 stigum á eftir Toyota.
Athugasemdir
Eins og þú segir... Æsispennandi, og vertíðin hálfnuð. Þetta er (að mínu mati) miklu skemmtilegra, heldur en þegar Schumacher bara *átti* sæti á pallinum, hvað... 2 ár í röð? Þá var maður bara geispandi, þetta var svo fyrirsjáanlegt þá.
Núna? Getur allt gerst.
Einar Indriðason, 18.7.2008 kl. 19:41
Svei mér þá, þetta getur varla verið betra. Því miður virðast vera einhver vandræði hjá BMW, en rosalega kemur Alonso sterkur inn núna og Vettel er til alls líklegur það verður gaman að fylgjast með honum hjá Red Bull á næsta ári. Það er allt útlit fyrir frábæra keppni á morgun ég held að "herfræðin" hjá liðunum komi mikið til með að ráða úrslitunum á morgun.
Jóhann Elíasson, 19.7.2008 kl. 18:33
Sammála þér, Jóhann. Vettel er stórskemmtilegur ökumaður. Þeir eru fimm Þjóðverjarnir en hann sá eini þeirra sem naut heimavallarins út í æsar í dag. Hér í Frakklandi erum við ánægðir með framgang Renault, þó Piquet hafi verið of slakur nú.
Ég hef líka þá trú að keppnin verði fjörleg og það er stórt spurningarmerki yfir keppnisáætlununum. Sérstaklega verður fróðlegt að sjá hvort herfræði skýri stöðu Kimi á rásmarki.
Já, skrítin staða líka hjá BMW. En ætli Heidfeld fylli ekki tankinn til að komast sem lengst fyrir fyrsta hlé og framúr sem flestum í leiðinni.
Ágúst Ásgeirsson, 19.7.2008 kl. 21:00
Gleymdi að kvitta fyrir innlegg Einars. Auðvitað er titilkeppnin meira spennandi en í nokkur tímabil fyrr á þessum áratug þegar Schumi stakk fljótt alla aðra af í stigakeppninni. Hann var afburðamaður í ódrepandi bíl. Nú hefur stjörnusveitin hjá Ferrari mikið til dregið sig til hlés og liðið ekki jafn ósigrandi. Þetta ganga allir í gegnum en ég hef þó fulla trú á að keppnin verði áfram jöfn og spennandi vertíðina út í gegn.
Ágúst Ásgeirsson, 19.7.2008 kl. 21:07
Eftir að öryggisbíllinn kom út gjörbreyttist keppni, áður hafði hún bara verið frekar "flöt" og fyrirsjáanleg en eftir öryggisbílinn hljóp aftur líf í hana og spenna, það besta var að sjálfsögðu að Glock "slapp" ótrúlega vel úr þessu óhappi en maður keppninnar var tvímælalaust Piquet en það var sko sannarlega kominn tími til að hlutirnir færu að "spila" með honum. Hamilton var náttúrulega alveg í sérflokki en einhverra hluta vegna gekk allt á afturfótunum hjá Ferrarí en BMW skilaði betri árangri en búist var við miðað við stöðu þeirra á ráslínu.
Jóhann Elíasson, 20.7.2008 kl. 18:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.