Sælt í sveitinni

Þá er komið að franska kappakstrinum sem fram fer við aðrar aðstæður en undanfarin mót. Fjarri skarkala stórborga og glysi og glaumi fræga fólksins fer hann fram í franskri sveit. Ósköp heimilislegt umhverfi þar sem beljur eru á beit svo að segja við brautarjaðarinn.

Engan ökuþór veit ég um sem ekki hefur dásamað andrúmsloftið í Magny-Cours. Þar hafa þeir notið rólegheita og afslöppunar eftir partílífið í Mónakó og Montreal. Á fyrrnefnda staðnum snýst mótshelgin venjulega um flest annað en formúluna - aðallega um innantómt glamúr. Sem ég gef ekki fimm aura fyrir og lái mér hver sem vill.

Ég er fyrst og síðast íþróttaunnandi og kann því ekki að meta þegar kvikmyndastjörnur stela kastljósinu frá ökuþórum og kappakstursbílum á mótshelgum eins og í Mónakó. Og í aðal atriðum vildi ég að keppni væri hætt í Mónakó því úrslitin eru eiginlega ráðin með tímatökunum - nema hann hellirigni sem er sjaldan að hafa.  

Því er ekki hægt annað en taka undir með Mario Theissen liðsstjóra BMW sem fagnar því að nú sé komið að franska kappakstrinum. Hann á það sameiginlegt með mörgum liðsmanninum og ökumönnum að kunna vel við sig í Magny-Cours.

„Persónulega kann ég afskaplega vel að meta sveitasæluna í umhverfi Circuit de Nevers því þar snýst allt bara um íþróttina. Andrúmsloftið á vettvangi er sjarmerandi á sinn hátt, segir Theissen í aðdraganda mótsins.

Í svipaðan streng tekur aðalhönnuður Toyotaliðsins, Frakkinn Pasqual Vasselon. Nefna mætti fjölda forsvarsmanna liða og ökuþóra sem lýsa sig sæla í sveitinni.

Eini maðurinn sem vill ekki vera í nágrenni Nevers er Bernie Ecclestone. Í hans huga skiptir meira máli lúxus og glæsileiki hvers konar fyrir fína fólkið og fyrirmenni en góð braut og fín skemmtan fyrir áhorfendur. Hann fyrirlítur Magny-Cours og lýsir því árlega yfir að viðkomandi mót sé hið síðasta þar.

Hann vill frekar keppa í París sem er góðra gjalda vert en á þeim slóðum fékk hann fyrst jákvæðar undirtektir við hugmyndir sínar í fyrra. Og það tekur lengur að undirbúa mótshald þar en svo að hægt  verði að keppa þar á næsta ári, 2009. 

Því geri ég ráð fyrir að hann gleypi orðin sín - enda nokkuð vanur því - og að keppt verði í Magny-Cours á næsta ári. Já, ef ekki mörg þau næstu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Magny-Cours brautin er ein sú skemmtilegasta í mótaröðinni og það yrði hoggið stórt skarð í "formúluna" ef hún yrði ekki með.  Við erum örugglega margir sem værm á móti því, það væri svona svipað og ef tennis yrði ekki lengur á Wimbelton.

Jóhann Elíasson, 19.6.2008 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband