Sá hlær best er síðast hlær . . .

Sá hlær best er síðast hlær, ef Anthony Hamilton, föður Lewis Hamilton, var á annað orð hlátur í huga er sonurinn gerði þau furðulegu mistök að keyra á kyrrstæðan bíl Kimi Räikkönen í bílskúrareininni í Montreal.

Lewis skellihló nefnilega á blaðamannafundi í Montreal fyrir helgi er hann var spurður út í óhapp föðurins nokkrum dögum áður. Sá missti vald á Porsche Carrera GT sportbíl er hann gaf fullmikið inn á leið frá húsi sínu í Englandi. Flaug m.a. í gegnum limgerði er hann reyndi að ná aftur stjórn á bílnum kraftmikla og staðnæmdist loks inn á barnaleikvelli sem til allrar hamingju var mannlaus.

Garðyrkjumaður varð vitni að öllu saman og kjaftaði í slúðurblað. Því gat Hamilton eldri ekki falið sært stolt sitt fyrir öðrum. Öllu fleiri urðu vitni að ótrúlegum klaufaskap Hamiltons yngri í bílskúrareininni í Montreal. Stolt hans særðist líklega enn meira en föðurins. Með það situr hann uppi að hafa ekið aftan á kyrrstæðan bíl sem beið á rauðu ljósi.

Það eru kannski pínulitlar ýkjur, Hamilton gafst ekki ráðrúm til að stöðva sinn bíl er Räikkönen bremsaði vegna ljóssins. Tók enski ökuþórinn of seint eftir ljósinu og því að Räikkönen bremsaði. Ef til vill vegna þess að bílarnir keyra sjálfir bílskúrareinina og ökuþórarnir oft að huga að ýmsum stillingum öðrum meðan þeir bíða þess að bíllinn fari yfir línu þar sem þeir geta numið hraðastillinn úr sambandi.

Þetta er ekki sagt til að afsaka Hamilton en kemur upp í kollinum þegar þessu furðulega óhappi er velt fyrir sér. Hvernig getur svona gerst, spyr maður sjálfan sig aftur og aftur? Mér kæmi ekki á óvart þótt Hamilton fái öðru hverju martröð vegna þessa því það hlýtur að naga hugann öðru hverju. Að mínu mati óneitanlega mesta klúður á ferlinum í formúlu-1. Og það akkúrat ári eftir að hann vann, í Montreal, sinn fyrsta mótssigur í formúlu-1.

Atvikið eitt og sér er algjör martröð fyrir hann. Á augabragði breyttist gæfan og í stað hetju sat hann uppi sem skúrkur. Í stað þess að auka jafnvel enn við forystu sína í keppni ökuþóra með góðum árangri í Montreal – þar sem hann virtist stefna til sigurs – hefur hann tapað frumkvæðinu.

[Miðað við að hann féll úr leik er kannski útí hött hjá mér að segja að Hamilton hafi stefnt til sigurs þótt vissulega hafi verið svo fyrir þjónustustoppið. Þar sem Kimi var kominn fram úr mætti allt eins segja að sá hafi stefnt til sigurs, enda hungraður í toppsæti eftir ófarirnar í Mónakó. En þetta segi ég til að leggja áherslu á hversu gæfan hefur snúist við Hamilton í einni svipan.]

Og til að auka á niðurlæginguna hefur Hamiltonverið gerð refsing sem hann þarf að taka út í næsta kappakstri, þeim franska í Magny-Cours. Þar verður hann færður aftur um 10 sæti á rásmarki að loknum tímatökum. Vinni hann ráspólinn þar verður hann sem sagt að byrja kappaksturinn af 11. rásstað.

Þýski ökuþórinn Nico Rosberg hjá Williams hlaut sömu refsingu, fyrir að aka aftan á McLarenbíl Hamiltons rétt eftir að framangreindan árekstur. Gerðist líka sekur um að valda afstýranlegum árekstri.

Eðlilegt er að Hamilton og Rosberg þurfi að bíta úr nál vegna árekstranna og refsing þeirra er réttlát.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já Ágúst þetta gerir formúluna oft svo skemmtilega, óvænt atvik og mistök. Hamilton á eftir að ná sér af þessum vandræðagangi.

Ég hef hins vegar oft velt því fyrir mér hvort öryggisbíllinn sé til þess fallinn að auka öryggi í keppnum. Það væri gaman að vita hversu oft bílar hafa lent í samstuði og óhöppum sem beinlínis má rekja til þess að "öryggisbíllinn" hefur komið inná. Ef ég man rétt þá var það eftir enduræsingu öryggisbíls sem Kubica lenti skelfilegum árekstri í Kanada fyrir ári. Eins er ansi óljóst hvenær hann á að koma inn og hvenær ekki, t.d. tók það dómarana töluverðan tíma að ákvarða hvort öryggisbíls væri þörf nú um helgina. Fréttaþulir ITV voru ítrekað búnir að nefna hans væri ekki þröf þegar hann loksins birtist. Maður hefði haldið að það væri búið að mappa brautina upp með það fyrir augum að ákvarða hvort öryggisbíls væri þörf ef bíll stoppaði á tilteknum stað og ekki væri brak á brautinni. Annað sem ég get ekki skilið er þetta með opið og lokað þjónustusvæði meðan öryggisbíll er á brautinni. Einhver útskýrði þessa reglu með því að það væri verið að kom í veg fyrir örtröð og ökumenn þyrftu að bíða aftan við liðsfélaga í slíkum þjónustuhléum. Hvað gerðist svo um helgina, þegar þjónustusvæðið opnaði varð algjör örtröð og Massa og eflaust fleiri þurftu að bíða aftan við liðsfélagann. Ég held að þetta hafi verið betra eins þetta var áður, þ.e. að liðin fái algjörlega að ráða hvenær þau taka þjónustuhlé. Það er þá minni hætta á að bílar verði bensínlausir eða að ökumanni sé refsað fyrir að taka bensín samkvæmt áætlun, bara vegna þess að einhver annar ökumaður gerði mistök stuttu áður.

Svo er auðvitað hin hliðin á málinu, keppnirnar verða oft skemmtilegri þegar öryggisbíllinn og þessar furðulegu reglur hafa áhrif á gang mála.

Keppnin í Kanada var t.d. mjög skemmtileg, mörg góð tilþrif og frábært að fá nýja ökumenn í toppsætin.

Það væri gaman að heyra þína skoðun á þessu.

Mbk.

Haukur

Haukur Eiríksson (IP-tala skráð) 10.6.2008 kl. 00:15

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég er sammála því að öryggisbíllinn sé ofnotaður, en það er erfitt að meta þörfina á því hvort rétt sé að setja öryggisbílinn út, þetta er ákveðið á nokkrum sekúndum og það er náttúrulega auðvelt fyrir okkur fyrir framan sjónvarpið og jafnvel eftir á að gagnrýna þessar ákvarðanir.  Mér finnast þessar refsinga, sem Hamilton og Rosberg fengu, of harðar en að sjálfsögðu verða menn aldrei sammála um þetta atriði að sjálfsögðu áttu þeir að fá einhverja refsingu en persónuleg finnst mér sú refsing sem þeir fengu of hörð.

Jóhann Elíasson, 10.6.2008 kl. 09:07

3 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Nú er það einn og sami maðurinn sem ákveður alltaf hvort öryggisbíllinn skuli út í brautina, keppnisstjórinn Charlie Whiting. Að því leyti ætti að vera samfella í ákvörðunum hans - og væntanlega þá rökstudd ástæða fyrir því að hann sendir bílinn út. Allt fer það eftir aðstæðum hverju sinni og þær eru mismunandi í einstökum brautum. Ég hef oft spurt mig þeirrar spurningar hvort ástæða hafi verið til að kalla bílinn út. Maður er einfaldlega ekki dómbær á það, held ég.

Mér sýnist viðhorf okkar Jóhanns fara mjög vel saman, hann orðar þetta mjög vel. Þetta er ákvörðun sem taka verður fyrirvaralítið og mjög snöggt. 

Núverandi reglur um lokun þjónustusvæðisins finnast mér hins vegar alveg fáránlegar - illskiljanlegar og ekki til að auðvelda áhorfendum að átta sig á hlutunum. Með öðrum orðum ekki áhorfendavænar eða til framdráttar.

Þessar reglur voru settar til að tryggja að ökumenn botnkeyrðu ekki beint inn að bílskúr ef öryggisbíll fór út vegna slyss eða hættu. Það þótti FIA-herrunum ekki ábyrgt og vildu stuðla að því að skikkanleg ferð væri á bílum þegar þörf væri fyrir öryggisbíl í brautinni. Sem er sosum alveg skiljanlegt viðhorf og eflaust rétt.    

En ég er samt alveg sammála þér Haukur, um að gömlu reglurnar voru betri, skemmtilegri og skiljanlegri.

Nú á að prófa nýjungar varðandi öryggisbílinn á föstudeginn í Magny-Cours í næstu viku. Þar er beinlínis verið að tala um að hugbúnaður í vélstjórnarbúnaði taki yfir stjórn bílsins, þ.e. hraðann. Sá búnaður tekur yfir vélhraðann þegar keppnisstjórinn ýtir á takka á stjórnborði sínu um að öryggisbíll fari út. Ökumennirnir þurfa bara að sjá um að stýra gegnum beygjurnar. Pittinum verður ekki lokað og bílstjórarþeir mega fara inn í hann að vild meðan öryggisbíllinn er á ferðinni. 

Það er strax einföldun og til bóta. Og hraðastillirinn ætti að tryggja að ekki verði ekið of hratt í brautinni meðan hætta er á ferðum. Með því nær reglan tilgangi sínum og keppnin verður skiljanlegri fyrir okkur áhorfendurna.

Fróðlegt verður að sjá hvernig til tekst, en breytingin kemur ekki til framkvæmda í franska kappakstrinum nema tilraunin á föstudeginum gangi upp. Ellegar verður bara einhver viðbótarbið, meðan verið að gera hugbúnaðinn skotheldan.

Öryggisbíllinn getur lífgað upp á eftirleikinn, sérstaklega þegar stórt forskot verður að engu. Ég hefði ekki haft á móti því að Hamilton hefði ekki klesst á Räikkönen. Þá hefði líklega verið ennþá meira fjör í brautinni.  

Ágúst Ásgeirsson, 10.6.2008 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband