Sunnudagur, 1. júní 2008
Mosley er búinn að vera
Á þriðjudag, 3. júní, verða greidd um það atkvæði hvort Max Mosley heldur starfi sem forseti Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA). Verður þá gert upp hvort aðildarfélög FIA telji Mosley geta komið fram fyrir hönd samtakanna og verið áfram andlit þeirra í kjölfar umfjöllunar um kaup hans á kynlífsþjónustu hjá gleðikonum í London.
FIA eru regnhlífarsamtök landsamtaka bifreiðaeigendafélaga auk þess að vera æðsta yfirvald akstursíþrótta. Bílaklúbbar um heim allan, sem koma fram fyrir hönd hundruð milljóna bíleigenda, hafa lagt að Mosley að draga sig í hlé vegna kynlífshneykslisins. Nokkrir helstu bílaframleiðendur heims, sem eiga aðild að formúlu-1, hafa sagt að ekki væri stætt á öðru en hann hætti sem FIA-forseti.
Allt hefur komið fyrir ekki; Mosley harðneitar og segir umfjöllun um kynsvall hans vera aðför að sér og nornaveiðar. Hann neitar ekki að svallið hafi átt sér stað en segir það einkamál sitt. Undir það síðastnefnda má taka en eftir að málið er komið í fjölmiðla er það ekki lengur einkamál hans og til þess fallið að skaða FIA meðan hann situr sem fastast.
Síðastliðinn miðvikudag gerðu 24 bíleigendafélög í 22 löndum aðra tilraun til að telja Mosley á að biðjast lausnar þegar í stað. Þar á meðal voru landssamtök í Bandaríkjunum, Kanada, Þýskalandi, Frakkilandi, Japan, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku. Rússnesku landssamtökin lýstu stuðningi við bréfið daginn eftir.
Í bréfi til Mosley sagði að FIA væri í viðsjárverðri stöðu og gæti beðið óbætanlegt tjón og glatað trúnaði segði Mosley ekki af sér. Með hverjum degi sem liði ykist skaðinn. Mikil hætta hefur verið talin á að alþjóðleg stórfyrirtæki muni segja skilið við formúlu-1 streitist við og haldi velli í kosningu, sem óvíst er enn hvort verður leynileg eða framkvæmd með handauppréttingu.
Enginn hefur viljað tala við Mosley undanfarna mánuði eða veita honum áheyrn. Hvorki ríkisstjórnir né þjóðhöfðingjar.
Óskað var eftir því að stjórnvöldum í Barein að hann léti ekki sjá sig þar í landi vegna keppni í formúlu-1 í byrjun apríl.
Hið sama gerðist á formúluhelginni á Spáni, þangað var Mosley beðinn að mæta ekki.
Formúluliðin mörg hver hafa sagt hann ófæran um að gegna starfi og hafa lagt að honum að hætta. Er hann birtist í Mónakó og vildi ræða framtíðar reglumál við fulltrúa liða báðust þau undan því að hitta hann. Mönnum virtist standa stuggur af nærveru hans því hermt er að furstafjölskyldan, yfirmenn fjölþjóðlegra fyrirtækja og önnur fyrirmenni hafi gert út fólk af örkinni til að fylgjast með ferðum hans svo komast mætti hjá því að Mosley yrði á vegi þeirra.
Uppi varð fótur og fit er út spurðist að FIA-forsetinn ætlaði að sækja hátíðarkvöldverð að keppni lokinni. Samband þykir á milli þess og þess að Albert prins, sigurvegarinn Lewis Hamilton og lið hans, McLaren, mætti ekki til veislunnar.
Einkamál Mosley varða mig ekkert um en ég botna þó ekkert í því hvers vegna hann sér engan flöt á því að umfjöllunin um þau geti gert honum erfitt fyrir eða jafnvel ófært að gegna starfi forseta FIA. Eins og fjölmörg dæmi sanna nú þegar! Ástæðan er auðvitað ekkert annað en blindni manns í fílabeinsturni. Ekkert virðist hagga honum, ekki heldur það að einkavinur hans og náinn samstarfsmaður í rúm 40 ár, Bernie Ecclestone, hefur snúist gegn honum og beðið hann lengstra orða að draga sig í hlé til að þurfa ekki að verða fyrir þeirri niðurlægingu að tapa atkvæðagreiðslunni.
Allt frá því málið kom fram í dagsljósið hef ég legið undir ógurlegum þrýstingi frá fólki sem fjárfestir í formúlu-1, styrktarfyrirtækjum og bílaframleiðendum. Það bendir á að við sömu kringumstæður hefði [Mosley] sem æðsti yfirmaður stórfyrirtækis verið settur samdægurs frá störfum. Þeir skilja ekki hvers vegna Max brást ekki þannig við, sagði Ecclestone um helgina.
Að mínu mati beit Mosley eiginlega höfuðið af skömminni er hann sendi öllum aðildarfélögum FIA bréf um miðjan maí þar sem hann staðhæfði að sú hætta blasti við að FIA tapaði öllum yfirráðum yfir formúlu-1 ef hann yrði felldur í atkvæðagreiðslunni. Enginn væri fær um að taka við hlutverki hans og verja samtökin í samningum við handhafa sjónvarps- og viðskiptaréttinda formúlunnar.
Ótrúleg bífræfni í raun og veru og aldeilis talað niður til aðildarfélaganna. Ecclestone og CVC-félagið brugðust hart við, sögðu hann fara með blekkingar og kváðust engan áhuga hafa á íþróttalegum yfirráðum yfir formúlunni.
Hvað sem þessu öllu líður er niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar á þriðjudag beðið um heim allan. Útilokað er að spá nokkru þótt flestir á vettvangi akstursíþróttanna vilji að Mosley víki.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.