Brautin í Mónakó sérstök áskorun

Mónakóbrautin er engri annarri formúlubraut lík þegar kemur að uppsetningu keppnisbílanna. Mæðir mjög á verk- og vélfræðingum liðanna að fínstilla þá til að ná fram hámarksgetu á götum furstadæmisins. Vængpressa skiptir meiru en skilvirkt loftflæði, brautin fyrirgefur ekki mistök og uppsetningar eru með öðrum hætti en í öðrum brautum.

Vegna óslétts og ójafns yfirborðs gatna í Mónakó er haft hálfum til heilum sentímetra hærra undir botn á bílunum en á hefðbundnum keppnisbrautum.

Við fyrstu sýn mætti ætla að ekki reyndi mikið á mótor keppnisbílanna í Mónakó þar sem þeim er ekið í botni minna þar en annars staðar, eða 46,6% hringsins. Það segir ekki alla söguna þar sem mjög er hætt við yfirsnúningi þegar bílarnir lyfta dekkjum í afar ósléttri brautinni. Við því bregðast liðin með því að reyna að stilla vélbúnað þann veg að mótorsnúningur fari ekki upp fyrir hámarkið.

Til að hámarka rásfestu á annars griplítilli og ósléttri braut er fjöðrun kappakstursbílanna höfð mýkri en alla jafna, en miðað við fólksbíla er hún þrátt fyrir það mjög stíf.

Sömuleiðis er jafnvægisstöngin losuð upp svo einstök hjól geti tekið ójöfnur án þess að viðspyrna annarra hjóla fari úr skorðum.

Kælingin vandamál

Kæling mótorsins er vandasöm í Mónakó þar sem ferð bílanna er hlutfallslega lítil og loftstraumur um mótorinn því máttlítill. Það eykur á þann vanda, að styttra er í gírum en í öðrum brautum til að hröðun verði sem ákjósanlegust við þær brautaraðstæður sem eru í Mónakó. Fyrir bragðið er snúningshraði mótorsins yfirleitt mikill þótt ferðin sé hæg. Við því er m.a. brugðist með því að opna yfirbygginguna meira til að auka loftflæði í vélarhúsinu og koma í veg fyrir að mótorhiti fari upp fyrir mörk.

Viðbragðsgóður mótor með gott upptak á lágum snúningi er gulls ígildi í Mónakó. Mikið mæðir á gírkassa bílanna því skipt er um gír um 53 sinnum á hring, eða rúmlega 4.150 sinnum í kappakstrinum öllum.

Vængpressa bíla er meiri í Mónakó en nokkru öðru móti ársins. Ekki til að halda rásfestu í beygjum sem eru svo hægar, að vélrænt grip skiptir þar meiru. Heldur til að halda bílnum stöðugum á bremsusvæðum og tryggja góða spyrnu á hröðunarköflum út úr beygjum.

Hvergi eru beygjur krappari en í Mónakó, en á hringnum eru 12 vinstri beygjur og sjö hægri. Krappasta beygja ársins er hárnálarbeygjan í brekkunni undir Grand-hótelinu. Rascasse-beygjan undir lok hringsins gefur henni lítt eftir. Eru þessar beygjur allt að tvöfalt krappari en t.d. nokkur beygja í Barcelonabrautinni.

Brottnám hjálparbúnaðar mun segja til sín

Undanfarinn áratug notuðu ökuþórarnir bensíngjöfina til að auðvelda sér beygjuna. Höfðu í því efni sér til fulltingis spyrnustýringu, mismunadrif og mótorbremsu sem hægt var að stilla sérstaklega svo inngjöfin komi að tilætluðu gagni og allt gengi snurðulaust gegnum beygjur.

Nú er öldin önnur, hjálparbúnaður þessi hefur verið numinn úr bílunum og hvers kyns rafeindastýringar á spyrnu, drifi og mótor óheimilar. Ökumaður getur því ekki lengur stigið gjöfina í botn vitandi að hjálparbúnaðurinn sæi um að bíllinn skilaði sér eðlilega um aksturslínuna. Hann verður þvert á móti að fótleika bensínfetilinn fínlega sem væri hann að stíga ballett; pinnann verður að meðhöndla af mýkt og nákvæmni en nokkurri festu þó.

Sem sagt, færni ökumannsins getur notið sín í Mónakó umfram aðrar brautir og á grundvelli hennar getur skilið milli feigs og ófeigs. Verður því kappaksturinn áhugaverðari en lengi sakir þess að hjálparbúnaðurinn sem tók ómakið af ökumanninum er ekki lengur fyrir hendi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þarna komu fram upplýsingar um brautina og bílana sem ég hafði ekki glóru um, vissi bara að þessi braut er óvenju erfið og flókin.  Þakka þér fyrir.

Jóhann Elíasson, 24.5.2008 kl. 13:27

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Sæll Jóhann, mín er ánægjan ef svona samantekt getur orðið einhverjum til fróðleiks og ánægju. 

Hef nú  verið þeirrar skoðunar að ökumennirnir myndu eiga í miklu basli þarna þar sem þeir njóta ekki lengur allskonar hjálparbúnaðar. Taldi að það myndi segja mjög til sín. Kappaksturinn er að sjálfsögðu eftir og vera má að stressið verði þá meira og þeim fatist hugsanlega frekar þá flugið. En mér hefur fundist þeir hafa sloppið einstaklega vel, aðeins þrjú til fjögur nudd utan í vegrið með smá afleiðingum fyrir utan óhapp Coulthard.

Reyndar hafði það líklega ekkert með hjálparbúnaðinn að gera. Mér sýndist hann frekar missa bíllinn lausan frá brautinni öðru megin á misfellu með því að koma hálf skakkt inn á bremsusvæðið. 

Ágúst Ásgeirsson, 24.5.2008 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband