Laugardagur, 25. mars 2006
Vinnur Fisichella annað árið í röð í Melbourne?
Þriðja ballið á nýhafinni stuðvertíð er framundan; eftir viku í Albertsgarði í Melbourne í Ástralíu. Þarf ekki að rífa mig eins snemma upp og menn heima á klakanum því klukkunni verður flýtt um helgina hér í Frakklandi og seinkað í Melbourne eftir viku. Sem sagt kappaksturinn hefst klukkan sex að morgni að frönskum tíma en ekki rúmlega miðja nótt eins og á Raufarhöfn.
Í ljósi yfirburða Renault í Malasíu spyr maður sig hvort Giancarlo Fisichella endurtaki afrekið frá í fyrra og vinni aftur í Melbourne í ár? Mest hætta er honum sjálfsagt búin af liðsfélaga sínum Fernando Alonso. En svo segjast McLarenmenn munu taka stórtækum framförum í Albertesgarði og gefa til kynna að þeir muni í það minnsta velgja Renault verulega undir uggum.
Fisichella ók frábærlega í Sepang en Alonso neyddist til að beita annarri taktík vegna mistaka við bensínáfyllingu. Standi þeir jafnar að vígi hvað uppleggið varðar í Melbourne verður fróðlegt hvort Ítalinn geti lagt hinn spænska liðsfélaga sinn að velli. Sýni hann þolinmæði og þrautsegju sé ég ekki hvers vegna hann ætti ekki að geta það!
Víst er að mann hlakkar til mótsins.
Athugasemdir
Algjörlega sammála þér, enda er fyrirtæki hans umboðsaðili Alonso. Hann er honum líklega enn argur fyrir að semja við McLaren á bak við sig og því stendur hann með landa sínum nú. Og Briatore hefur örugglega ekki á móti að hann vinni titilinn í ár svo Renault geti áfram verið með bílinn sem ber númer 1 á trjónunni næsta ár líka.
Ágúst Ásgeirsson, 28.3.2006 kl. 21:09
Einhvern veginn finnst mér samt að Briatore þurfi hreinlega að vinna skemmdarverk á eigin bíl til að stöðva Alonso. Mér finnst Alonso einfaldlega vera í öðrum flokki en Fisichella. Miklu nær mönnum eins og Raikkönen og M. Schumacher. Fisichella er aftur nær mönnum eins og Montoya.
Hans J. Gunnarsson, 3.4.2006 kl. 10:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.