Miðvikudagur, 5. mars 2008
Tekur Jón Ásgeir við af Frank Williams?
Er Williams á góðri leið með að verða lið Baugs í formúlu-1? Sú spurning leitar á hugann við fregnir um að fyrirtæki í eigu Baugs Group gangi til liðs við Williams og styrki það svo um munar. Jón Ásgeir Jóhannesson yrði flottur á stjórnborði á kappakstursmótum.
Williams hefur frá 2004 þegið aðstoð hinna dugmiklu íslensku fjárfesta gegnum stærstu leikfangaverslunar heims, sem Baugur á að hluta. Í ár styrkja tvö fyrirtæki félagsins til viðbótar kappakstursliðið.
Og það sem meira er, stjórnandi þess, Frank Williams, segir að aðkoma Baugs að liðinu eigi enn eftir að aukast. Hann neitar því í samtali í dag, að svara því hvort það endi með því að Baugur fjárfesti hreinlega í liðinu.
Það yrði óneitanlega skemmtilegt ef Íslendingar ættu allt í einu eitt af betri kappakstursliðum formúlu-1. Eina einkaliðið í keppninni sem kveður að.
Segja má, að þetta sé ekta fjárfestingarkostur fyrir Jón Ásgeir. Kaup eru líklega hagstæð nú og geta orðið ábatasöm. Williamsliðið er ekki eins verðmætt nú og fyrir nokkrum árum er betur gekk hjá því en undanfarin ár.
Verðmæti liðsins er áætlað um 100 milljónir punda í dag, rúmlega 13 milljarðar króna, og hefur lækkað úr um 150 milljónum punda fyrir nokkrum árum. Svo erfiðlega gekk með reksturinn samhliða slöku gengi, að Frank Williams seldi einkaþotu sína til að fjármagna rekstur og uppbyggingu. Alvöru maður, Sir Frank, og trúr sinni hugsjón.
Með betra gengi og ráðningu nokkurra toppmanna til þess að gera það betur í stakk búið að takast á við topplið formúlunnar mætti auka verðmæti Williamsliðsins og selja það með vænum gróða eftir einhver ár. Afkoma þess er tiltölulega trygg og þá stefnir í að liðin fái frá og með næsta ári aukinn skerf af þeim miklu tekjum sem falla til í formúlunni.
Loks eru eigendurnir Frank Williams og Patrick Head teknir að reskjast, eru á miðjum sjötugsaldri, og hafa áreiðanlega ekkert á móti að setjast í helgan stein hvað úr hverju eftir að vera á kafi í formúlunni síðustu 30 árin og í öðrum kappakstri áður. Þeir hafa skilað góðu dagsverki og geta verið stoltir af. Tekur Jón Ásgeir við kyndlinum af þeim? Það væri óneitanlega skemmtilegt.
Athugasemdir
Full bjartur ertu Ásgeir færðu meira rauðvín þarna í Frakklandi?En Össur okkar hérna megin Veistu eitthvað um Viktor Jensen?Við fáum engar fréttir hjá íslensku vefmiðlunum,og RÚV er strax búin að gleyma F1
Hørður Thorsteinsson (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 20:25
Þetta var nú skrifað á léttu nótunum en ég er ánægður með þetta útspil Jóns Ásgeirs og félaga og el þá von í brjósti að þeir kaupi Williams, eða eitthvað annað lið.
Hér er nóg af rauðvíninu og það er ekki lengur bundinn í þá átthagafjötra að borga margfalt meira fyrir pytluna á klakanum en hér! Hóf er best með öllu og því gengur venjulega hægt á birgðirnar hjá mér.
Ég var nýlega í sambandi við pakka Viktors Þórs. Þá var verið að smala saman tæknimannskap fyrir hann hjá góðu liði í alþjóðaflokki hinnar bresku formúlu-3. Liðið sem hann var búinn að binda sig hjá fækkaði bílum sínum niður í einn og sat Viktor Þór því allt í einu uppi án sætis. Frá þessu sagði ég í frétt á formúluvefnum.
Mál hans eru þó enn ekki komin á hreint og fer nú hver að verða síðastur því keppnin hefst eftir 10 daga eða svo. Vonandi verður hann samt með.
Ágúst Ásgeirsson, 12.3.2008 kl. 08:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.