Dennis nýtur óskoraðs trausts

Þá liggur það fyrir. Ron Dennis situr sem fastast á stóli æðsta stjórnanda McLaren. Með óskoruðum stuðningi hluthafa í eigendafélaginu. Og skyldi engan undra. Frétt spænska íþróttadagblaðsins Marca um að verið væri að bola honum úr starfi reynist því bull.

Af reynslu síðasta árs tók ég frétt Marca um innanbúðarmál McLaren með vænum fyrirvara. Það var næstum ævintýralegt að fylgjast með því hvernig samskiptaörðugleikar innan McLaren og innbyrðis væringar ökuþóranna í fyrra snerist upp í styrjöld spænskra og enskra fjölmiðla.

Hámarki fannst mér það ná er ég var viðstaddur blaðamannafund í mótorheimili McLaren í Spa eftir tímatökurnar á laugardeginum. Það leyndi sér ekki hatrið í spurningum nokkurra enskra blaðamanna sem baunað var að Fernando Alonso. Og ekki var hlutlægninni fyrir að fara, heldur spurt spurninga sem hlaðnar voru af hlutdrægni.

Spænska fréttin um Dennis var angi af þessu. Framkvæmdastjóri McLaren, Martin Whitmarsh, segir engan þrýsting á Ron Dennis að víkja. Og yrðu einhverjar breytingar myndu þær verða að frumkvæði Dennis. Whitmarsh segir að hann verði við stjórnvölinn þegar vertíðin hefst í Melbourne eftir hálfan mánuð.

„Ron nýtur fulls stuðnings hluthafanna, allrar yfirstjórnar liðsins og allra sem vinna hjá liðinu og fyrirtækinu. Hann gegnir þremur hlutverkum: er stjórnarformaður  McLaren Group, aðalforstjóri  McLaren Group og liðsstjóri McLaren liðsins,“ sagði Whitmarsh í dag.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: gudni.is

Gott mál. Mig grunaði eins og þér Ágúst að þessar spænsku fréttir væru ekki á rökum reistar.
Að sjálfsögðu er það ljóst að Ron Dennis mun á einhverjum tímapunkti stíga úr liðstjórastólnum en mér þykir mjög ólíklegt að slíkt gerist í leiðindum eins og þetta átti að hljóma. Hann er miklu meira en lítið virtur í fagi sínu og er nú að fara að hefja sitt 28. keppnistímabil í röð sem liðstjóri McLaren! Geri aðrir betur!
Ég er nokkuð viss um það að þegar hann hættir þá undirbýr hann það ferli og eftirmála að hluta til sjálfur vandlega ásamt öðrum stjórnendum McLaren í sátt og samlyndi.

gudni.is, 28.2.2008 kl. 21:21

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Alveg sammála þér Guðni, Dennis mun undirbúa það sjálfur að standa upp úr stól sínum. Maðurinn hefur stýrt liðinu til um 125 mótssigra af 156, rúmlega 100 ráspóla af 133, sjö heimsmeistaratitla bílsmiða af átta, níu heimsmeistara ökuþóra af 10. Enginn kemst með tærnar þar sem hann hefur hælana í þessum efnum, svo einfalt er það. Nema Frank Williams sem hefur níu sinnum stýrt liði sínu til sigurs í keppni bílsmiða og sjö sinnum í keppni ökuþóra. 

Ágúst Ásgeirsson, 29.2.2008 kl. 09:28

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Hvaða lið sem hefur Ron Dennis getur sagt að það hafi fengið þann "stóra".  Ég er alveg á sama máli og Guðni, hann hættir einhvern tíman en ekki nærri strax.  Spanjólarnir eru bara ekki sáttir við það að Alonso þurfti að lúta í gras fyrir honum.

Jóhann Elíasson, 29.2.2008 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband