Mánudagur, 18. febrúar 2008
Sagði Super Aguri stefna að sigri 2008
Super Aguri liðið verður ekki sakað um að eiga sér ekki takmark í formúlu-1. Hafði satt að segja gleymt málinu, en þegar ég fletti í gömlum fréttum á formúluvef mbl.is rakst ég á eina þar sem framkvæmdastjórinn Daniele Audetto var ekkert að skafa af hlutunum. Sagði beinlínis að liðið ætli sér sigur 2008, á vertíðinni sem er að renna upp.
Fréttin birtist í desember 2006, rétt eftir jómfrúarvertíð Super Aguri. Það vann sér það til frægðar að vinna ekki eitt einasta stig á vertíðinni og varð því neðst keppnisliðanna ellefu.
Audetto sagði þessum tímapunkti, að Super Aguri yrði væntanlega í stakk búið til að keppa um sigur í mótum á keppnistíðinni árið 2008. Við ætlum að sýna fram á að við erum engir undirmálsmenn.
Núna erum við með undirstöður liðsins í lagi, vélvirkjana og verkfræðingana og því viljum við virkilega sýna fram á og sanna að við getum barist fyrir betri sætum.
Verðum við eins góð og við vorum með gamla bílinn í ár getum við kannski hugsanlega unnið eins og einn kappakstur 2008, sagði Audetto. Ég vona að væntingar hennar rætist.
Ári fyrir þessi fleygu orð ríkti mikil óvissa um þátttöku Super Aguri í formúlunni. Liðið átti engan bíl og var eiginlega með lítið annað en beinagrind af nauðsynlegum mannafla. Því til viðbótar hafði Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) ekki talið það með á lista yfir keppnisliðin 2006 þar sem liðið hafði ekki lagt fram 48 milljóna punda þátttökutryggingu.
Það var reyndar stórafrek að liðinu tókst að komast í keppnina 2006. Keppnisbílar þess voru umbreyttir fjögurra ára gamlir Arrowsbílar sem liðseigandinn Suzuki Aguri keypti næstum á síðustu stundu af Minardistjóranum Paul Stoddart.
Í fyrsta mótinu var Sato nærri sex sekúndum lengur í tímatökunum en fremsti maður. Bilið í ráspólshafa hafði lækkað niður í 2,5 sekúndur í lokamóti ársins í Brasilíu. Í því móti hafnaði Sato í tíunda sæti og átti sjöunda hraðasta hringinn.
Með Anthony Davidson og Takuma Sato sem ökuþóra og á nýjum bíl stóð liðið sig betur 2007. Vann fjögur stig en ótrúleg óheppni Davidsons í kappakstrinum í Montreal kom í veg fyrir að stigin yrðu mun fleiri. Hann var í þriðja sæti seint í kappakstrinum, á eftir öryggisbíl, er bjór flæktist inn á brautina, en af þeim er mikið í nágrenni St. Lawrenceárinnar sem brautin stendur við.
Davidson komst ekki hjá því að aka á bjórinn, framvængur laskaðist svo hann varð að fara inn á þjónustusvæðið og fá nýjan væng. Það er leitt með bjórinn, hann lagði mig að velli. Ég sá hann ekki í tæka tíð og skildi ekki hvers vegna framhjólin læstust, sagði Davidson hinn svekktasti.
Sato var heppnari og ók á mark í sjötta sæti sem var besti árangur Super Aguri-liðsins frá upphafi. Í kaupbæti tók hann fram úr heimsmeistaranum þáverandi, Fernando Alonso hjá McLaren, á síðustu hringjunum.
Ekki veit ég hvort Audetto hafi lækkað markið í ár frá yfirlýsingunni djörfu í desember 2006. Það er ekki hægt annað en að dást að stórhuga fólki og ég óska Super Aguri góðs gengis í ár.
Athugasemdir
Óskum þeim góðs gengis, og megi sem flestir vinna mót í sumar.
Um að gera að hafa marga um hitunina.
Zsapper Fákur
Steinþór Ásgeirsson, 19.2.2008 kl. 09:35
Vonandi gengur þeim vel en í mínum huga tók Super Aguri-liðið við "fánanum" af Minardi-liðinu.
Jóhann Elíasson, 20.2.2008 kl. 17:11
Það er nokkuð til í þeim orðum þínum Jóhann. Reyndar er Torro Rosso liðið "gamla" ítalska Minardi keppnisliðið. En ég tek orð þín frekar eins og að Super Aguri séu eiginlega nú áskrifendur af síðustu 2 sætunum eins og oft var raunin með Minardi.
gudni.is, 20.2.2008 kl. 17:42
Ég hef kannski ekki náð að orða nógu og vel það sem ég hugsaði, en ég sé að Guðni hefur náð því.
Jóhann Elíasson, 20.2.2008 kl. 20:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.