Ástæðulaust að óttast hraða Räikkönen

Margir standa agndofa af undrun yfir miklum hraða Kimi Räikkönen við bílprófanir í Barein í síðustu viku. Táknar þetta að Ferrari valti yfir önnur lið í ár, spyrja sumir og óttast jafnvel óspennandi ár. Það tel ég alveg ástæðulaust því þegar betur er að gáð er akstur Räikkönen ekki svo ógnvekjandi og virðast kann við fyrstu sýn.

Á fyrsta degi ók Räikkönen á betri tíma en ráspólstíma síðasta árs. Daginn eftir bætti hann um betur með því að aka hringinn á tveimur sekúndum betri tíma þegar hann æfði tímatökur kappaksturs. Hann var mun fljótari í förum flesta daga en liðsfélaginn Felipe Massa og fyrstu dagana langt á undan Toyutunum tveimur.

Er hér um marktækan árangur að ræða? Vísbendingar um yfirvofandi yfirburði Räikkönens í keppni? Og hvað gerist svo þegar Ferrari uppfærir yfirbyggingu og vængi til að gera bílinn enn hraðskreiðari, eins og liðið hefur boðað?

Fátt er vandasamara en að reyna ráða í árangur og form manna af vetraræfingum. Aðstæður geta verið afar ólíkar frá einni æfingu til annarrar og einni braut til annarrar. Brautar- og lofthiti er allt annar nú en hann verður í mótinu í Barein í apríl. Og ætla að meta getu í keppni út frá æfingu getur verið afar varasamt.

Vissulega var Räikkönen ógnvekjandi hraðskreiður í Barein. Og yfir því gleðjast unnendur hans og Ferrari. En í kappakstrinum í Barein í apríl í fyrra voru ökuþórar ekki eins hraðskreiðir og á æfingum í brautinni í febrúar sama ár. Og á þeim æfingum óku nokkrir ökuþórar hraðar en Räikkönen gerði í síðustu viku. Til að flækja samanburðinn var loft- og brautarhiti á æfingunum í febrúar og mars í fyrra hærri en í síðustu viku.

Að þessu sögðu tel ég ástæðulaust að fella stóra dóma á þessari stundu um samkeppnisfærni Räikkönen í ár. Ljóst má þó vera að Ferraribíllinn er einkar fljótur í förum. Og vonandi fáum við að sjá þá í samanburði við McLaren, Renault, BMW og fleiri bíla við æfingarakstur á næstu tveimur vikum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinþór Ásgeirsson

Heyr hey

Vonandi verður þetta bara Spennandi mót í ár og menn skiptist að vera stigahæstir fram í síðustu kpni ársins

Megi sá besti vinna samt.

Steinþór Ásgeirsson, 13.2.2008 kl. 09:57

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Alveg er ég sammála þér þarna.  Höfum það hugfast að keppni er ekki það sama og æfing, þótt vissulega gefi æfingin viss fyrirheit um keppnina.  Þar sem ég er Ferrari-maður er ég ánægður með árangurinn en ég vil ekki sjá algjöra yfirburði og mér finnst nú árangur annarra liða lofa góðu fyrir næstu vertíð.

Jóhann Elíasson, 14.2.2008 kl. 14:45

3 Smámynd: gudni.is

Þetta er alveg rétt hjá þér Ágúst að það er held ég ekki ástæða til að óttast þessa æfingatíma sem Raikkonen náði. Ég tel mjög litlar líkur vera á því að við séum að fara að horfa upp á einhverskonar einokun Raikkonen og Ferrari á komandi tímabili þó vissulega sé margt sem lofi góðu frá þeim og Raikkonen er frábær ökuþór.

Það erótrúlega margt sem spilar inn í svona æfingatíma. Mismunur á brautarhita og lofthita gerir samanburð við fyrri tíma ómarktæka. Og svo er auðvitað verið að testa alskonar nýjungar í þróunarvinnu liðana, því nóg er víst af leyndarmálunum í formúlu 1

gudni.is, 18.2.2008 kl. 14:17

4 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Þakka ykkur fyrir, Steinþór, Jóhann og Guðni. Eftir því sem nær dregur fyrsta móti má búast við að betri mynd fáist á stöðu mála. Í þessari viku og næstu fara miklar prófanir fram í Barcelona. Þær ættu að gefa einhverjar vísbendingar. Enn sem komið er fáum við þó frekar takmarkaðar upplýsingar um hvernig bílunum vegnar, m.a. með tilliti til hvernig dekkin endast, hvort meðalhraðinn detti fljótt niður á nýjum dekkjum eða ekki.

Svo sá ég í dag ummæli Marc Gene hjá Ferrari þess efnis að þar á bæ - eða alla vega hann sjálfur - er talið að Renault sé í einhverjum feluleik. Alonso aki með þyngingar í bílnum til að villa um fyrir keppinautunum. Það hlýtur að fara að koma í ljós hvort eitthvað sé til í þessu eða ekki.

Sem sagt spennan fer vaxandi og dögunum í fyrsta mót fækkar, eru bara 26 sem stendur!

Ágúst Ásgeirsson, 18.2.2008 kl. 21:00

5 identicon

Ég held að það sem er eftirtektarvert við þessar æfingar í Barein er að Raikkonen er í talsvert betri stöðu en Massa núna heldur en hann var í fyrra.  Hann er með stöðugt með betri tíma en Massa á æfingum og verður örugglega bílstjóri númer eitt frá byrjun hjá Ferrari.

Guðmundur Hallgrímsson (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 16:52

6 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Flott viðbót frá þér Guðmundur og alveg rétt, Kimi hefur yfirleitt verið fljótari en Massa á æfingum vetrarins. Og titillinn skiptir líka öllu máli - ég hef enga trú á öðru en að Ferrari púkki meira undir Kimi. Þar á bæ hafa menn vit á að setja orkuna í að hámarka möguleika á titli. Klúðra þeim ekki með einhverju jafnræðiskjaftæði.

Ágúst Ásgeirsson, 19.2.2008 kl. 17:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband