Jötnar slást í Suzuka

Fyrir þá sem vilja spennu og dramatík í keppni um íþróttasigur getur staðan vart verið betri í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra í formúlu-1. Þegar aðeins tvö mót eru eftir af 18 eru Michael Schumacher hjá Ferrari og Fernando Alonso hjá Renault jafnir að stigum. Búast má við jötnaslag þeirra í millum í Suzuka um helgina.

 Schumacher gæti var látið sig dreyma um betri úrslit í Suzuka en að hið sama gerðist og í ítalska kappakstrinum í Monza fyrir mánuði. Þar fór hann með sigur af hólmi en Alonso féll úr leik vegna mótorbilunar sem var nýmæli í annars endingartraustum Renaultinum.  

Draumaúrslit Schumacher væru jafnframt martröð Alonso því slík endurtekning þýddi að Schumacher yrði í raun orðinn heimsmeistari áttunda sinni á sunnudagskvöld. Tæki aftur til sín titilinn sem Alonso vann í fyrra yngstur ökuþóra sögunnar. Með 10 stiga forystu fyrir lokamótið gæti hann sleppt að keppa þar sem hann hreppti titilinn út á einum sigrinum fleira en Alonso yrðu þeir jafnir þegar upp verður staðið í vertíðarlok. 

Titilkandídatarnir hafa hlotið 116 stig hvor en þar skilur í sundur að Schumacher hefur unnið einu móti fleira, 7 gegn 6, þegar mótin í Suzuka um helgina og Sao Paulo í Brasilíu eftir hálfan mánuð eru eftir. Keppnin á lokametrum vertíðarinnar hefur vart verið jafnari um árabil.

Sams konar staða var uppi 1998, þá voru Schumacher og Mika Häkkinen hjá McLaren jafnir að stigum er tvö mót voru eftir. Í þeim hafði Häkkinen betur og vann sinn fyrsta titil. Hann vann og aftur árið eftir og Schumacher varð að bíða til þúsaldarársins til að vinna sinn fyrsta titil sem ökuþór Ferrari. Vann hann titilinn síðan fimm sinnum í röð eða þar til Alonso ók til sigurs í fyrra.    

Báðir ökuþórarnir hafa allt að vinna í Suzuka. Og þeir vita að með einum mistökum eða lítilvægri  bilun gæti í einu vetfangi allt það sem þeir hafa á sig lagt frá vertíðarbyrjun í mars til að vinna titilinn verið unnið fyrir gíg.  

Þótt flestir telji að titilbaráttan ráðist ekki fyrr en í Sao Paulo 22. október þykir alveg ljóst að um risaslag verði að ræða í Suzuka; keppni jötna undanfarinna ára í formúlu-1. Fer vel á því að Suzuka-brautin verði kvödd með tilþrifum en frá og með næsta ári fer japanski kappaksturinn fram í Fuji-brautinni. 

"Ég held fólk hafi viljað fá spennandi keppni um titilinn í ár og það er það sem því er nú boðið upp á,” segir heimsmeistarinn Alonso í forspjalli Renaultliðsins fyrir Suzuka. “Geta bíla beggja er mjög áþekk og því munu dekkin ráða úrslitum í lokamótunum tveimur. Michelin hefur staðið sig frábærlega vel í Suzuka nokkur undanfarin ár og ég hef góða tilfinningu fyrir helgina. Við erum fullir sjálfstraust hjá Renault og hið sama á við um þá hjá Ferrari. Við skulum því bíða og sjá hvað gerist,” bætir Alonso við.  

Schumacher hefur hrósað sigri oftar en nokkur annar ökuþór í Suzuka. Fyrsta sigurinn vann hann á Renault-knúnum Benettonbíl árið 1995 og fimm sinnum hefur hann komið fyrstur á mark þar á Ferraribíl. 

Alonso hefur best náð þriðja sæti í Japan, en í því varð hann í fyrra. Hann segir afrekaskrá Schumacher í Suzuka ekki hrella sig neitt og vísar til þess að í fyrra tók hann tvisvar fram úr honum í keppninni þar sem var ein sú tilþrifamesta á vertíðinni.

 Báðir segja Suzuka-brautina með þeim skemmtilegustu. "Hún krefst mikils af ökuþórnum, líkamlega og tæknilega. Þetta er eitt af þeim mótum sem sérhver ökuþór vill vinna – það hef ég ekki enn gert, " segir Alonso. 

“Hvað aksturstækni varðar þá elska ég Suzuka. Brautin er frábær," sagði Schumacher í aðdraganda mótsins. "Bíllinn okkar hefur verið góður undanfarið og við verðum að sjá hvort okkur tekst að nýta dekkin eins vel og á öðrum brautum," bætti hann við.  

Þótt einvígi Schumacher og Alonso sé það sem allra augu beinist að fyrir mót helgarinnar er öðrum ökuþórum áfram um að komast á verðlaunapall og jafnvel ryðja þeim úr vegi. Ferrari og Renault hafa sín á milli unnið öll mót ársins nema ungverska kappaksturinn sem Jenson Button á Honda vann. Hefur Ferrari unnið sex af síðustu sjö mótum árins.  

Button og liðsfélagi hans Rubens Barrichello gætu reynst skeinuhættir í Suzuka en þar munu þeir leggja allt í sölurnar því var gætu þeir fært liði sínu betri árangur en sigur þar, í brautinni sem  Hondaverksmiðjurnar eiga. Mæta þeir til leiks með nýja og mun öflugri útgáfu af mótor í bílum sínum.

  Kimi Räikkönen hjá McLaren vann stórgóðan sigur í fyrra. Hóf keppni í 17. sæti en klifraði jafnt og þétt upp röðina uns hann komst fram úr Giancarlo Fisichella hjá Renault á síðasta hring. Fisichella má heldur ekki afskrifa um helgina eftir annað sætið í síðasta móti, í Sjanghæ fyrir viku. 

Räikkönen tekur við sæti Schumacher hjá Ferrari á næsta ári en sæti hans hjá McLaren fyllir Alonso. McLarenþórinn stendur frammi fyrir líklega sínum besta möguleika á mótssigri á árinu, en á efsta sæti verðlaunapalls hefur hann ekki staðið frá í Suzuka fyrir ári. Með sigri myndi hann og koma í veg fyrir að McLaren fari sigurlaust frá keppnistíð í formúlunni í fyrsta sinn frá árinu 1996. Mun hann njóta stuðnings McLaren sem vill bæði losna út úr sigurþurrð en jafnframt að Alonso komi sem heimsmeistari til sín á næsta ári. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband