Miðvikudagur, 6. febrúar 2008
Strikar Ecclestone breska kappaksturinn út?
Stundum pirrar Bernie Ecclestone mig ferlega mikið en þrátt fyrir það er karlinn í miklu uppáhaldi hjá mér. Það er honum að verulegu leyti að þakka hversu voldug formúlan er og ekki skal gert lítið úr því. En þá gömlu speki, að mikið vilji meira (með öðrum orðum græðgi), virðist mega heimfæra á hann.
Nú hefur hann í hótunum við Silverstonemenn og heimtar af þeim stórhækkun þóknunar fyrir að fá framlengingu á samningi um keppni frá og með árinu 2010. Greiði þeir ekki "markaðsverð" fer breski kappaksturinn fram í síðasta sinn á næsta ári, 2009, segir hann. Og bætir við að mótshaldarar í Silverstone segi núverandi þóknun alltof háa. Svo útlitið er ekki gott.
Það væri saga til næsta bæjar ef hann strikar út Silverstone, vettvang fyrsta mótsins í formúlu-1. Þá ætti hann ekkert eftir nema hætta líka mótshaldi í Monza - þá væri íþróttin líklega dauð.
Mér finnst Ecclestone full einstrengingslegur, meini hann það sem hann segir.
Í fyrsta lagi er ólíku saman að jafna þegar um annars vegar einkaaðila er að ræða og hins vegar ríkisstjórnir í þriðja heims löndum, eða héraðsyfirvöld. Hinir fyrrnefndu hafa ekki aðgang að skattfé almennings. Hann á auðvelt með að kreista fé úr stjórnvöldum í Kína, Malasíu, Singapúr, Barein, Tyrklandi og þar fram eftir götunum. Og héraðsstjórninni í Valencia. Þar skipta 10 milljónir dollara til og frá ekki svo miklu máli.
Annað á við um Silverstone, Magny-Cours, Indianapolis og Hockenheim. Þar þurfa menn að láta sér duga aðgangseyrir og auglýsingatekjur, sem fyrirtæki Ecclestone tekur reyndar líka sinn skerf af. Og þar er stærsti kostnaðarliðurinn þóknanir til Ecclestone.
Vegna óbilgirni hans hefur keppni nú verið hætt í Bandaríkjunum. Í Þýskalandi hafa Nürburgring og Hockenheim sameinast um eitt mót í stað þess að halda tvö vegna tapreksturs á heildardæminu.
Allt stefndi í það í fyrra að þá færi franski kappaksturinn fram í síðasta sinn vegna taps undanfarin ár. Það breyttist eftir forsetakosningarnar sl. vor og enginn veit hvað nákvæmlega gerðist því hagur mótshaldara í Magny-Cours hafði ekki batnað. Mótið heldur áfram þar, alla vega í ár og líkast til það næsta. En nú er það eitt helsta kosningamálið í sveitarstjórnarkosningum í Versölum að fá formúlukappaksturinn þangað 2010. Kannski það hafi verið agnið sem dugði á Ecclestone sem viljað hefur fá mótið til Parísar þótt þar sé engin kappakstursbraut.
Svo skil ég ekki alveg samhengið í því að krefja mótshaldara um síhækkandi þóknun fyrst keyra á niður útgjöld formúluliðanna. Miðað við hugmyndir Max Mosley myndu þau lækka úr mörg hundruð milljónum dollara á ári á lið í 150-200 milljónir dollara. Það ætti að minnka þörf Ecclestone fyrir hærri þóknun, þó svo hún renni ekki til liðanna.
Þau fá fyrst og fremst skerf af sjónvarpsréttartekjunum. Og þá erum við komin að öðru máli þar sem formúlan er á góðu tempói inn í vítahring. Með því að leggja áherslu á og flytja mótshaldið í auknu mæli til Asíu og fækka þeim hlutfallslega í Evrópu eins og raunin hefur verið hefur áhugi evrópskra sjónvarpsstöðva á formúlunni dvínað. Þ.e. keppnin fer fram á óhentugum áhorfstíma og verðgildi útsendingarréttar því minna í augum stöðvanna, sem eru helstu mjólkurkýr Ecclestone.
Við því hefur hann brugðist með því að gera kröfu til þess að mótin í fjarlægum heimshlutum fari fram á tíma sem henti evrópskum sjónvarpsstöðvum, en ekki endilega heimamönnum. Byrjað verður í Singapúr í ár og önnur Asíumót eru næst á dagskrá. Útlit er hins vegar fyrir að mótshaldi ljúki senn í Melbourne í Ástralíu því þar er lítill áhugi á kvöldkappakstri.
Það er eflaust akkur að því að keppa sem víðast um heim í formúlu-1. Ljóst má þó vera að gæðin eru takmörkuð þar sem liðin þola að hámarki 20 mót á ári. Rætur íþróttarinnar eru í Evrópu og þar á hún miklu meiri vinsældum að fagna en í öðrum álfum. Uppselt hefur t.d. löngum verið í Silverstone en mótin í Sjanghæ, Barein og Kúala Lúmpúr hafa farið fram fyrir hálftómum stúkum. Í bresku brautinni gömlu er ætíð óborganleg stemmning, það hef ég upplifað sjálfur.
Vel má vera að Ecclestone verði að krefja mótshaldara í Silverstone um hærri þóknun til að gæta jafnræðis gagnvart öðrum mótshöldurum. Startgjaldið sem nýjustu mótshaldarar borga honum fyrir hvert mót mun vera um 22 milljónir dollara en síðan hækkar greiðslan lítillega eftir því sem á samningstíma líður.
Til samanburðar mun Silverstone hafa borgað honum 15,7 milljónir dollara í fyrra. Sú upphæð verður eitthvað hærri í ár og svo aftur það næsta, en núverandi samningur um mótshald í brautinni rennur út með mótinu á næsta ári, 2009.
Fróðlegt verður að fylgjast með framvindunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.