Segir Renault „au revoir“?

Verði Renault sakfellt fyrir njósnir gætu afleiðingarnar orðið afdrifaríkar Það er kannski full geyst farið að velta vöngum yfir því núna hverjar afleiðingar kunna hugsanlega að vera af ákvörðun sem tekin verður eftir hálfan mánuð eða svo. En mér segir svo hugur, að Renault kunni allt eins að hætta þátttöku í formúlu-1 verði liðið dæmt harkalega fyrir njósnir viku af desember.

McLaren hefur hert á sókninni gegn Renault með því að leka gögnum um rannsókn meintra njósna franska liðsins. Þær felast í því að verkfræðingur, Phil Mackereth, sem réði sig til Renault frá McLaren fyrir rösku ári, hafi haft með sér 11 diska fulla af teikningum og gögnum um keppnisbíla McLaren í ár og fyrra.

Í skjali sem lekið var til breskra fjölmiðla í gær segir að gögnin hafi verið flutt inn í tölvukerfi Renault í september í fyrra og 18 tæknimenn Renault, þar á meðal yfirhönnuðurinn Tim Densham, hafi viðurkennt að hafa unnið með gögnin í alls 11 tölvum í höfuð stöðvum liðsins. Reyndar segja lögmenn McLaren að vitnisburður starfsmanna Renault sé oft ófullnægjandi og villandi og beinlínis rangur í tilviki tæknistjórans Bob Bell.

Vert er að rifja upp, að Fernando Alonso sagði óvissu um framtíðarþátttöku Renault í formúlunni hafa orðið til þess á sínum tíma að hann réði sig í árslok 2005 til að keppa fyrir McLaren í ár. Forsvarsmenn franska bílafyrirtækisins hafa löngum sagt, að Renault yrði í formúlunni meðan það teldist skynsamlegt.

Því velti ég því mjög fyrir mér hver afleiðingin verður fari svo að íþróttaráð Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) sakfelli liðið. Nóg þykir skömmin orðin af þeirri uppljóstrun að illa fengin hugvitsgögn frá McLaren hafi fundist í tölvukerfum liðsins í Enstone í Englandi og verið brúkuð þar af helstu tæknimönnum og nokkrum æðstu mönnum liðsins.

Með tilliti til fordæmisins sem gefið var fyrir tveimur mánuðum með refsingu McLaren fyrir ámóta framferði - og þó jafnvel enn umfangsminna - má ætla að refsing Renault verði æði þung, verði liðið á annað borð sakfellt. Með allt að 100 milljóna dollara sekt á bakinu væri skynsemi þátttökunnar líklega rokin út í veður og vind og sneypan nóg til að forstjóri Renault, Carlos Ghosn, segi hingað og ekki lengra.

Alla vega spái ég því að Alonso skrifi ekki undir neina samninga við Renault fyrr en eftir 7. desember, ef hann þá fer til liðsins á ný.

Hafa ber í huga í þessu sambandi öllu, að af hálfu Renault er allri sekt neitað, en óneitanlega minna varnir þess á varnir McLaren varðandi njósnir hjá Ferrari. Af tilkynningu frá Renault eftir að því var stefnt fyrir brot á íþróttareglum FIA fyrir um hálfum mánuði má ætla að umfang málsins sé mun minna en McLaren vill vera láta.

Þar segir að gögnin hafi verið einungis keyrð inn í persónulega skrá Mackereth í tölvukerfi Renault. Það hafi verið gert í heimildarleysi og án vitneskju nokkurs manns í stjórnunarstöðu. Hann hafi jú sýnt þau  nokkrum tæknimönnum en gögnin, þeir hafi aðeins litið yfir þau en að engu leyti hafi þau verið notuð gagnvart keppnisbíl Renault. Af hálfu McLaren er því haldið fram að nánast hafi verið um að ræða allar teikningar sem varði keppnisbíl, öll kerfi hans og hvert einstakt mælimál. Af hálfu Renault segir að um hafi verið að ræða teikningar af aðeins fjórum hlutum bílsins; lögin eldsneytistanksins, gírasamstæðunni, stillanlegum massadempara og fjöðrunardempara.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óli Sveinbjörnss

Já það er úr vöndu að ráða fyrir FIA. Nýbúnir að klára McLaren/Ferrari málið. Reyndu meira að segja að fara hljótt með dóminn um hvort Hamilton yrði heimsmeistari með því tilkynna niðurstöður á seinnipart föstudags. En ef fer á versta veg fyrir Renault þá held ég að þú verðir sannspár og liðið hætti. Mér finnst það miður að missa eins litríkan mann og Briatore er úr Formúlunni. Vonandi eru Dennis og félagar á nornaveiðum.

Óli Sveinbjörnss, 23.11.2007 kl. 18:00

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Það væri ekki bara eftirsjá að Briatore; það yrði verulegt áfall ef Renault drægi sig út úr íþróttinni. Mig minnir nú að Briatore hafi sagt á blaðamannafundinum í Spa daginn eftir dóminn yfir McLaren að hann og hans lið myndi ekki geta kyngt slíkri refsingu - ekkert lið gæti það nema kannski Ferrari. Enda sagði FIA að refsingin hafi tekið mið af fjárhagslegum styrk McLaren og stöðu í stigakeppni bílsmiða [sem mér finnst skrítin röksemdafærsla en það er önnur saga]  Sektarupphæðin var að tillögu Bernie Ecclestone en til frádráttar skyldi koma sú fjárhæð sem McLaren myndi fá af sjónvarpstekjum með sigri í keppni bílsmiða.

Það verður fróðlegt að sjá hver niðurstaðan í þessu njósnamáli verður, en ég óttast hið versta.

Ágúst Ásgeirsson, 23.11.2007 kl. 18:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband