Ekki ein báran stök - nú þarf Briatore að svara til saka fyrir njósnir

Briatore (t.h.) þarf að svara til saka hjá íþróttaráðinu.  Í því situr m.a. viðskiptafélagi hans Ecclestone (t.v.)Það er ekki ein báran stök í hneykslismálum formúlu-1. Svonefndar njósnir hjá Ferrari að falla í gleymsku þegar önnur della af svipuðum toga sprettur fram og verður til þess að afrek á kappakstursbrautinni falla enn og aftur í skuggann - akkúrat þegar bílprófanir vetrarins eru að renna upp.

Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) hefur nú sakað Renault um nákvæmlega sama brot og það sakaði McLaren um í sumar - brot á keppnisreglum með því að hafa í fórum sínum með ólögmætum hætti hugbúnað keppinautar,

Renault mun vera með gögn frá McLaren en hönnuður þess síðarnefnda var með undir höndum gögn frá Ferrari sem kostaði McLaren á endanum útskúfun úr keppni bílsmiða og 100 milljóna dollara sekt.

Reynist íþróttaráð FIA samkvæmt sjálfu sér refsar það Renault með álíka hætti - hverjar svo sem viðbárur franska liðsins verða. Ljóst er að það hefur haft gögnin undir höndum. Samkvæmt dómnum yfir McLaren þarf ekkert að sanna að þau hafi ekki verið notuð, miðað við röksemdafærslu ráðsins í fyrra málinu mátti ætla að þau hafi verið notuð fyrst þau voru í fórum liðsmanna.   

Gögnin sem Renault er með eru búin að vera í fórum liðsins frá í september í fyrra þar til í október í ár, er könnun FIA á málinu lauk. Því hafði það mun meiri möguleika á að nýta sér þau en McLaren þar sem hönnuður McLaren var með nær öll gögn sem hann fékk frá Ferrari í höndum í aðeins rúman mánuð.

Í anda allrar sanngirni skal Renault þó teljast saklaust þar til annað hefur sannast, en forsvarsmenn liðsins þurfa að svara til saka frammi fyrir íþróttaráði FIA eftir fjórar vikur í Mónakó.

Athyglisvert er að mál Renault kom upp við innanhússrannsókn McLaren eftir að í ljós kom að aðalhönnuður liðsins, Mike Coughlan, hafði undir höndum hugverk og tæknigögn um 2007-bíl  Ferrari. Leiddi grannskoðun á tölvukerfum McLaren í ljós að fyrrverandi starfsmaður liðsins hafði hlaðið niður og tekið með sér nokkra tölvudiska fulla af tæknigögnum er hann réðist til Renault í fyrra.

Þar á meðal hafi verið nákvæmar teikningar og mæligögn fyrir eldsneytiskerfi bílsins, gírkassa, olíukælikerfi, stýribúnað vökvakerfis bílsins og sérlegan fjöðrunarbúnað sem notaður hafi verið í bílum McLaren 2006 og 2007.

Renaultstjórinn Flavio Briatore gekk einna harðast fram á sínum tíma og þótti McLaren sleppa létt með að vera ekki rekið úr keppni í ár og næsta ári vegna njósnamálsins. Einnig taldi hann liðið hafa sloppið vel þar sem ökuþórarnir voru ekki sviptir stigum.

Þetta gæti átt eftir að hitta Ítalann dómharða illa fyrir. Hann var vitaskuld ekkert nema sakleysið uppmálað þegar út spurðist í haust að lið hans byggi e.t.v. einnig yfir ólöglega fengnum gögnum eins og McLaren. Lýsti hann því yfir við ítalska íþróttadagblaðið Gazzetta dello Sport að hann væri bjartsýnn á að Renaultliðið teldist ekki hafa gert neitt rangt.

Briatore sagðist þá ekki skilja atganginn út af málinu og sakaði Ron Dennis liðsstjóra McLaren um grjótkast úr glerhúsi. Fróðlegt verður að sjá hvort fleiri búi í glerköstulum.

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband