Föstudagur, 2. nóvember 2007
Missir McLaren mikill
Örugglega er að finna rök fyrir því að samstarfsslit Fernando Alonso og McLaren séu af hinu góða fyrir báða aðila. Nóg hefur gengið á í ár á milli ökuþórsins og Ron Dennis liðsstjóra. En ég fer ekki ofan af því að það er alvarlegt áfall fyrir topplið eins og McLaren að missa frá sér einn besta ef ekki besta ökumann formúlunnar. Kastar það ekki rýrð á stjórnun Dennis?
Alonso segir í dag, að hann hafi aldrei samlagast McLarenliðinu sem skyldi, hafi aldrei liðið sem hann ætti þar heima. Vitað er að hann ætlaðist til þess að fá að njóta þess að koma til liðsins sem tvöfaldur heimsmeistari. Þó ekki væri nema þann veg að Lewis Hamilton hefði ekki aðgang að öllum mögulegum tæknigögnum um bíl sinn og akstur.
Það stangaðist á viðteknar venjur hjá McLaren og Dennis vildi aldrei víkja útaf gamalli venju í þeim efnum. Formið breyttist sem sagt ekki þótt veruleikinn sé stöðugt að breytast. Og svo langt gekk jöfnunaráráttan að ökuþórinn sjálfur fékk ekkert að koma nærri ákvarðanatöku varðandi keppnisáætlun sína, allavega ekki undir lok vertíðar. Er ekki með því verið að gengisfella hæfileika ökuþórsins?
Sem gamall íþróttamaður botna ég nú bara ekkert í slíku, og lái mér hver sem vill.
Alonso var í ár á fyrsta samningsári af þremur en kýs að koma sér í burtu. Segir það ekki eitthvað um stjórnunarfærni Dennis að missa hann frá sér með þessum hætti? Þeirri spurningu svara ég nú eiginlega í upphafi. Þrátt fyrir allt jöfnuðartalið verður ekki framhjá því litið að margir af fyrrverandi ökuþórum McLaren bera vitni um annað.
Hafa þeir haldið því fram að Dennis hafi ætíð tekið einn umfram annan. Ayrton Senna fram yfir Alain Prost, Mika Häkkinen fram yfir David Coulthard, Kimi Räikkönen fram yfir Juan Pablo Montoya og nú síðast Hamilton fram yfir Alonso, svo nokkur dæmi séu nefnd.
Þó ég hafi lengi haft mikið álit á Dennis og talið hann trúverðugan þá er eitthvað sem jafnvel fælir menn frá svo miklu liði sem McLaren. Þannig hefur Michael Schumacher sagt að ástæðan fyrir því að hann hafi ekki ráðið sig til liðsins vera Ron Dennis.
Ég man hreinlega ekki í stöðunni eftir álíka uppákomu; að topp ökuþór hafi viljað koma sér sem hraðast í burtu frá liði sínu. Og það engu aukvisaliði, heldur toppliði.
Það er ekki einungis að skarð sé komið í múr McLaren sem enginn getur fyllt almennilega þar sem engin toppmaður er á lausu. Skaði Hamiltons er líka talsverður. Hann missir af verðugum keppinaut er knúið hefur hann til topp árangurs. Hann mátti aldrei slaka á en fær ekki lengur þá pressu sem hann fengi frá manni á borð við Alonso.
Þess vegna læðist að mér sú hugsun, að McLaren verði mun vanmáttugra á næsta ári en í ár - og mátti liðið þó síst við því þar sem búast má við að Räikkönen og Felipe Massa hjá Ferrari verði ekki léttari viðureignar á næsta ári.
Og hvaða lið sem fær Alonso verður fengur að honum. Manninum sem skapaði öðrum fremur meistaralið Renault. Þar á bæ standa honum allar dyr opnar og þar þekkir hann vel til mála svo ekki kæmi mér á óvart að þeir Flavio Briatore eigi eftir að fallast í faðma á ný.
En hvað um þetta, allt kemur það í ljós með tímanum hvort þessar vangaveltur reynist réttar eða rangar. Þessi frétt í dag um samstarfsslitin var kannski fyrirséð en hún toppar að sumu leyti ótrúlega viðburðaríkt og dramatískt formúluár.
Athugasemdir
Þakka þér fyrir, nafni, jákvæð ummæli og hvetjandi. Gaman líka að vita að maður er ekki eintrjáningur í skoðunum, að einhverjir eru sammála.
Ég var líka nokkuð hissa á að de la Rosa héldi starfi sínu, því það er eiginlega hann sem fyrstur dreifir upplýsingunum frá Ferrari.
Dennis þarf á því að halda að hafa alla vega hann vegna spænskra styrktaraðila McLaren. Þeir komu þó frekar til liðsins vegna Alonso og fylgja líklega í hans kjölfar um síðir, ef ekki strax.
Með kveðju
Ágúst Ásgeirsson, 17.11.2007 kl. 14:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.