Formúluvertíðin kostar 250 milljarða

Keppnisbíll kostar 160 milljónir krónaLáta mun nærri að 290 milljónir manns fylgist með útsendingum frá móti í Formúlu-1 en vertíðinni í ár lýkur um helgina í Interlagos-brautinni í Sao Paulo í Brasilíu. Langt er síðan jafn mikillar eftirvæntingar hefur gætt en í fyrsta sinn í tvo áratugi eiga þrír keppendur möguleika á æðstu verðlaunum íþróttarinnar; heimsmeistaratitli ökuþóra.

Í engri akstursíþrótt eru keppnisbílarnir jafn tæknilega fullkomnir og í Formúlu-1. Enda lítið til sparað og íþróttin liðunum því kostnaðarsöm. Segja má að peningarnir brenni hraðar upp en bensínið á keppnisbílunum sem þó eru allt annað en sparneytnir.

Þegar upp verður staðið í Sao Paulo á sunnudag mun nærri láta, að liðin, styrktarfyrirtækin, keppnisbrautirnar og réttindahafar hafi eytt um tveimur milljörðum sterlingspunda, tæplega 250 milljörðum króna, frá því vertíðin hófst. Hefur kostnaður þó dregist saman milli ára, ef eitthvað er.

Ekert er ódýrt í formúlunni. Árleg útgjöld liða eru um 25 milljarðar króna að jafnaði, sumra minna annarra miklu meiri. Einna kostnaðarsömust er þróun og smíði keppnismótoranna eða sem nemur fjórðungi heildarútgjaldanna. Enda verkfræðileg afreksverk þar sem þeir starfa á allt að 19.000 snúningum á mínútu og framleiða um 1.000 hestöfl.

Mótorinn er af þessum sökum dýrasti hluti keppnisbíls sem er að verðmæti um 160 milljónir króna þegar tekið er tillit til kostnaðarverðs allra íhluta bílsins, botns, grindar og yfirbyggingar. Stýrið eitt mun t.d. kosta um 1,6 milljónir króna.

Hverri krónu ráðstafað af nákvæmni

Keppnisbíll er afurð mörg hundruð klukkustunda þróunar og prófunar í vindgöngum og keppnisbrautum en kostnaður við það eitt nemur um þremur milljörðum króna á lið að jafnaði.

A þessari upptalningu mætti ætla að keppnisliðin syndi í peningum en svo er ekki og hverri krónu ráðstafað af sömu nákvæmni og lagt er í smíði bílanna. Undanfarin ár - að nokkru leyti fyrir frumkvæði liða sem eru eign bílafyrirtækja eða hafa þau að bakhjarli - hefur verið gripið til margvíslegra ráðstafana til að hemja tilkostnaðinn.

Samkvæmt samkomulagi hafa keppnisliðin notið um 23% af arði formúlunnar en afgangurinn hafnað hjá aflandsfyrirtækjum í óljósri eigu. Hópur bílafyrirtækja hótaði að kljúfa sig út úr formúlunni ef gegnsæi viðskiptaþáttarins ykist ekki og kökusneið liðanna stækkaði ekki.

Breytt eignarhald - stærri skerfur af kökunni til liðanna

Þau náðu sínu fram og alráðurinn Bernie Ecclestone féllst á að stórauka skerf þeirra frá og með 2008. Hið eina sem þau höfðu fengið af viðskiptatekjum Formúlunnar voru 47% af rúmlega 23 milljarða sjónvarpsréttartekjum.

Með nýja samningnum fá þau 50% af öllum arði, þar á meðal af 8,6 milljarða tekjum af leigu á aðstöðu og þjónustu vegna móttöku fyrirtækja á mótum, af 11 milljarða tekjum af auglýsingum við brautir, og af 18 milljarða þóknun sem mótshaldarar borga Ecclestone ár hvert fyrir réttinn til að halda kappakstur.

Breytt eignarhald á Formúlunni varð til þess að flýta fyrir þessum samningum. Til að tryggja afkomu íþróttarinnar og standa undir skuldbindingum CVC-félagsins vegna kaupa á öllum eignarfélögum Ecclestone á Formúlan ekki annarra kosta völ en hasla sér víðar völl en verið hefur og fjölga mótum.

Til að auka tekjurnar er sókn hafin inn á nýja markaði. Snemma árs samdi Ecclestone um mótshald í Abu Dhabi við Persaflóa frá og með 2009, en fyrir það fær CVC 1,8 milljarða í þóknun árlega. Suður-Kórea verður vettvangur mótshalds frá og með 2010 og þess er að vænta að fyrr en varir verði einnig keppt í Formúlu-1 í Singapúr, Indlandi, Suður-Afríku, Rússlandi og Grikklandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Upplýsandi skrif hjá þér eins og jafnan áður. Maður gleymir nefnilega stundum, í öllum hamaganginum og "showinu" í kringum formúluna, þeim tæknilegu afrekum sem unnin eru í tengslum við þróun bílana. Þeir eru hrein undur út af fyrir sig. Sviptingarnar á viðskiptasviðinu,  sem þú fjallar einnig um, eru einhvern vegn ekki eins viðkunnalegar, finnst mér. Svo maður tali nú ekki um allt reglugerðaverkið og dómarabullið. Það ásamt "gulu pressunni" sem endalaust spinnur upp nýjar kjaftasögur er leiðinlegi hlutinn. Eða er það þegar öllu er á botnin hvolft "gula pressan" sem á hvað stærstan þátt  í þessum gríðarlega áhuga á formúlinni, dregur með því að fjármuni til að halda viðskiptaþættinum gangandi og gerir þannig mögulegt að þróa bílana? Maður spyr sig.

Halldór (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 22:06

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Sammála þér um slúðrið sem venjulega er í gangi og hefur það verið sýnu verra í ár en lengi. Aðallega hafa þar breskir fjölmiðlar og spænskir keppst um að hampa Hamilton eða Alonso og flytja samsæriskenningar og alls konar bull, oft að því er manni virðist til að niðurlægja þá. 

Annars er þessi athugasemd þín með að gula pressan auki þrátt fyrir allt áhugann á formúlunni er athyglisverður.

Ágúst Ásgeirsson, 20.10.2007 kl. 14:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband