Sunnudagur, 7. október 2007
Þríhliða úrslitarimma eins og 1986
Mér varð að ósk minni, eða öllu heldur púkanum í mér. Uppgjörið um heimsmeistaratitil ökuþóra dregst fram í lokamót ársins. Er hægt að biðja um meira, að þrír skuli eiga möguleika þegar eitt mót af 17 eru eftir? Það held ég ekki. Dramatík í Sjanghæ, annað verður ekki sagt, en hvar var jafnræðið hjá McLaren?
Ekki að undra að Fernando Alonso reiddist því eftir tímatökurnar. Þar var hann miklu hægari en Lewis Hamilton og varð fjórum sætum aftar á rásmarki. Og í ljós kom að enski ökuþórinn var með allt aðra keppnisáætlun og var líklega tryggður ráspóllinn með mun bensínléttari bíl í tímtökunum.
Liðsstjórinn Ron Dennis hefur sagt að svo langt væri gengið í jafnræði meðal ökuþóranna að þeir fengju báðir sama skammt af bensíni og sömu keppnisáætlun. Alonso gaf í skyn í gær að hann hefði ekki verið hafður með í ráðum er herfræðin var ráðin, sem kemur mjög á óvart, ef rétt er. Það læddist altjent að mér sá grunur í morgun, er þjónustustoppin byrjuðu, að stjórar McLaren hafi gengið til leiks í Kína á þeirri forsendu að Hamilton skyldi taka titilinn þar.
Mansell, Prost og Piquet 1986
Nú er þetta bara kenning og annað hef ég ekki fyrir mér en ummæli Alonso og svo það að Hamilton stoppaði einum fimm hringjum fyrr í morgun. En hvað um það, dveljum ekki við hið liðna, heldur skal horft fram á við.
Í fyrsta sinn í tuttugu ár, eða frá 1986, eiga þrír ökuþórar eins og nú ennþá möguleika á heimsmeistaratitlinum þegar lokamót vertíðarinnar rennur upp. Nú bítast Hamilton, Alonso og Kimi Räikkönen hjá Ferrari um titilinn. Hamilton með 107 stig, Alonso 103 og Räikkönen 100.
Árið 1986 var Nigel Mansell hjá Williams með forystu fyrir lokamótið í Adeleide í Ástralíu, hafði 68 stig en Alain Prost hjá McLaren og Nelson Piquet hjá Williams 63 stig hvor. Þá giltu aðeins stig úr 11 mótum af 16 í heimsmeistarakeppninni.
Mansell vann keppnina um ráspólinn og stóð vel að vígi. Lánið lék þó ekki við hann því dekk sprakk í kappakstrinum, þar sem hann var í öðru sæti, svo hann féll úr leik. Liðsfélagi hans Piquet tók þjónustustopp í öryggisskyni sem varð til þess að Prost náði forystu, sigraði og varð heimsmeistari með 72 stigum gegn 70 stigum Mansells og 69 stigum Piquet.
Hamilton, Alonso og Räikkönen 2007
Gerist álíka spennandi hlutir í kappakstrinum í Sao Paulo í Brasilíu eftir hálfan mánuð mega unnendur formúlunnar vel við una.
En hvað þurfa titilkandidatarnir nú að gera til að hreppa titilinn í Interlagosbrautinni í Brasilíu?
Fari Lewis Hamilton með sigur af hólmi eða verði annar í Sao Paulo þá verður hann meistari, engu skiptir hvaða sætum Alonso og Räikkönen ná. Með því yrði Hamilton yngsti meistari formúlusögunnar, lækkar tveggja ára gamalt met Alonso um rúmlega tvö aldursár.
Standi hins vegar Alonso á efsta þrepi verðlaunapallsins í Interlagos þá verður hann að gera sér vonir um að Hamilton verði í besta falli í þriðja sæti. Við þeim úrslitum yrði Alonso meistari þriðja árið í röð.
Alonso gæti tölfræðilega orðið meistari með því að hafna í fyrsta sæti, en þá að því tilskyldu að því tilskyldu að Hamilton hljóti ekki stig. En slík úrslit gætu hins vegar orðið til þess að Räikkönen verði meistari.
Með sigri í Sao Paulo yrði Räikkönen meistari ef Hamilton verður í sjöunda sæti eða aftar og Alonso í þriðja sæti eða aftar. Einu önnur úrslitin sem fært gætu Räikkönen titilinn væru að hann yrði annar, Hamilton áttundi og Alonso yrði ekki framar en í fjórða sæti.
Liðsfélagi Räikkönen, Felipe Massa, verður á heimavelli og framlag hans og liðssinni gæti reynst finnska þórnum afar mikilvægt.
Hvað sem öllu líður stendur Hamilton langbest að vígi í hinni spennandi og tilþrifasömu titilkeppni. Hann mun eflaust leggja allt í sölurnar í Sao Paulo. Og Räikköne og Alonso líka.
Athugasemdir
Sæll Ágúst og þakka þér upplýsandi skrif um formúluna, nú sem fyrr. Ekki veitir okkur af í öllu því bulli sem vellur upp úr íslenskum bloggurum á þessum vettvangi. Já - ég tek undir með þér varðandi Alonso. Það læddist að manni grunur eftir tímatökurnar að eitthvað væri í gangi og hann myndi ekki taka þessu þegjandi. Sannarlega er gaman að hafa spennuna áfram allt til loka móts, þótt ég geti vel unt Hamilton titilsins í lokin. Hann hefur unnið fyrir honum, ekki spurning.
Halldór (IP-tala skráð) 7.10.2007 kl. 16:59
Ég tók útsendingu RÚV upp, og horfði á í morgunsárið. Alveg með ólíkindum að sjá Hamilton koma svona í þjónustuhléið, og festa bílinn í síðustu malargryfjunni fyrir pittinn. Já, púkinn í mér glotti líka. Það er gaman að hafa þetta svona algjörlega opið ennþá. Þeir eru jú 3 sem hafa möguleikann á titli. Mismikinn möguleika, en möguleiki ennþá. Þetta er miklu skemmtilegra heldur en fyrir nokkrum árum þegar Ferrari bara einfaldlega *átti* titilinn frá fyrsta móti. Maður var eiginlega geispandi, þar sem samkeppnin var engin.
Gott mál.
Einar Indriðason, 7.10.2007 kl. 17:00
Þakka þér vinsamleg ummæli Halldór, þau eru uppörvandi. Tek undir með þér varðandi Hamilton, hann væri vel að titili kominn. En það væru Alonso og Räikkönen líka, finnst mér. Fróðlegt verður að sjá hvaða máli reynslan skiptir í lokamótinu í Sao Paulo og hvort þeir tveir síðarnefndu njóti hennar umfram Hamilton á ögurstundu.
Það er einkennilegt ef mönnum verður aldrei á mistök Einar, ég hélt slíka fullkomnun ekki vera til. Hamilton gerði þarna sín fyrstu mistök í keppni og þá finnst manni næsta kómískt hvers eðlis þau eru! Það mun hafa verið raki í bílskúrareininni og því dugði striginn ekkert þegar hann ætlaði að hægja á sér.
Ágúst Ásgeirsson, 7.10.2007 kl. 19:21
Alveg sammála því að Reikonen og Alonso væru ekki síður verðugir meistarar. Af þessum þremur sem eiga möguleika hef ég reyndar mestar taugar til Alonso en síst til Hamilton. Renault eru annars mínir menn. En frekar leiðinlegt til lengdar hvað margir viðast ekki geta tjáð sig um formúluna án þess að bölsótast út í einhvern, og þá helst Alonso. Er það ekki hreinlega rannsóknarefni út af fyrir sig, Ágúst, hvað mörgum virðist vera illa við hann? A.m.k. ef draga má einhverjar ályktanir af þeim sem tjá sig um formúluna hér á blogginu. Mér finnst Alonso nefnilega alla jafna frekar yfirvegaður og sanngjarn í ummælum sínum og koma þannig fram að það sé formúlunni til framdráttar, hvað sem hver segir. Þá á ég við þegar maður heyrir í honum sjálfur, t.d. eftir keppnir og tímatökur, og enginn milliliður (blaðamaður) er að setja sína túlkun á fréttina. En hann er sjálfsagt heilmikil "prímadonna" og fljótur að láta menn heyra ef honum mislíkar, sbr. þegar þeir Massa áttust við í sumar.
Halldór (IP-tala skráð) 7.10.2007 kl. 22:43
Ég er ekki sammála þér Halldór að Alonso dásami aðra keppendur nema þegar honum gengur allt í haginn. Mér finnst einmitt að þegar á móti blæs hjá honum sé hann snöggur að koma með ótrúlega leiðinlegar athugasemdir um keppinauta sína sem gæti verið ein skýringin á óvinsældum hans. Mér er það í fersku minni í síðustu mótunum fyrra þegar ljóst væri að Schumacher væri að hætta og flestir voru að draga fram það jákvæða um hans feril. Þá var barátta þeirra Alonso í algleymingi og lét hafa það eftir sér að það væri engin eftirsjá af Schumacher úr formúlunni sem er mikil óvirðing við slíkan meistara sem hann var (hvort sem menn héldu með honum eða ekki). Honum tókst líka að drulla yfir Hamilton í sumar og varð uppvís að svindli í hans garð sem honum var svo refsað fyrir. Hann er því einn af fáum sem hefur verið refsað fyrir tilraun til að svindla síðari ár. Ég ætla ekki einu sinni að tala um þátt hans í því hvernig njósnamálið komst upp á yfirborðið. Mér sýnist aðferðir hans ekki alltaf bera mikinn geislabaug yfir sér frekar en fyrrum margfaldan meistara Schumacher.
Steinn Hafliðason, 8.10.2007 kl. 00:21
Að Alonso dásami aðra keppendur kannast ég ekki við að hafa sagt. Man reyndar ekki sérstaklega eftir þessum ummælum í garð Schumacher en lái honum svo sem ekkert að bíða með lofræðurnar þar til baráttan milli þeirra tveggja var yfirstaðin. Varðandi svindlið í garð Hamiltons þá ertu væntanlega að vísa í tímatökurnar í Ungverjalandi. Ég ætla í sjálfu sér ekki að verja þá uppákomu en eftir kappasturinn kom reyndar í ljós hver ástæðan fyrir þessu rugli var. Nefnilega að Hamilton upp á sitt einsdæmi breytti frá þeirri áætlun sem lagt var upp með og setti allt liðið í uppnám. Sá sig líka knúinn til að biðjast afsökunar á því eftirá. Hvað varðar drullumall á milli þeirra liðsfélaga í sumar þá hefur mér það nú ekki síður fundist það koma úr herbúðum Bretans. Hann hefur verið ansi duglegur að koma með alls konar skítaskot og ég er löngu hættur að falla fyrir súkkulaðibrosinu. T.d. um daginn þegar hann nánast "korteri fyrir kappaksturinn" lýsti því yfir aðhann vildi gjarnan losna við Alonso sem liðsfélaga. Annars væri það að æra óstöðugan að eltast við allt sem sagt er og alla jafna held ég að lítið mark sé takandi á öllum þessum bullfréttum sem birtast á netinu. Þær eru auðvitað meira og minna settar fram til að búa til hasar, halda umræðunni um formúlusirkusinn gangandi og fá "rugludalla" eins og okkur til að hjálpa sér við það.
Halldór (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 09:20
Sæll Ágúst.
Þetta er mjög áhugaverð og góð grein hjá þér. Mig langaði bara til að hæla þér fyrir skrif þín um formúluna, þau eru alltaf góð.
Þessi staða sem nú er komin upp í slagnum um titilinn er náttúrulega bara alveg frábær og æðisleg fyrir sportið. Ég held að menn eins og Bernie Ecclestone brosi hringinn núna út af ofur vinsældum og umfjöllun um formúluna.
Allir þessir þrír ökumenn eru jú mjög verðugir heimsmeistarar, það er ekki hægt að segja annað. Ég er samt minnst hrifinn af því að Alonso nái titlinum eins og ég hef sagt frá á minni bloggsíðu bara sökum framkomu hans upp á síðkastið. Ég held og vona að Hamilton klári málið, það yrði áhugaverðast fyrir formúluna svona sögulega séð.
gudni.is, 8.10.2007 kl. 11:02
Þakka ykkur, Guðni og hinn Gústinn. Og öllum hinum, hér er margt fróðlegt lagt til málanna. Það er með mig eins og ykkur eflaust, ég bíð spenntur eftir lokamótinu. Þrír verðugir bítast um titilinn. Sögulegar hefðir eru með Alonso en á slíkt er aldrei að treysta. Vonandi verður keppnin tvísýn og þrælfjörug.
Ágúst Ásgeirsson, 10.10.2007 kl. 07:36
Ég get vart beðið eftir því að fylgjast með lokamótinu um aðra helgi.
Annað mál, hvað finnst þér Ágúst um þá staðreynd að 365 Miðlar verði með Formúlu 1 útsendingarnar á næsta ári nú eftir 12 ár hjá RÚV ?? Heldurðu að þeir muni sinna umfjölluninni eins vel og RÚV?
Ég er pínulítið efins um slíkt og ég óttast einnig að ef formúlan verði t.d. send út í læstri dagskrá á SÝN þá muni áhorf og áhugi hinns almenna borgara á F-1 stórminnka?
Mér þætti gaman að heyra þitt sjónarmið á þessu máli? Ég hef ekki orðið mikið var um umfjöllun um þetta síðustu misseri?
Kær kveðja // Guðni
gudni.is, 11.10.2007 kl. 19:32
Formúlan er bisness og ástæðan fyrir því að RÚV missir sýningarréttinn er væntanlega bara sú að 365-miðlar hafa boðið Bernie Ecclestone meira fé.
Þeir vilja áreiðanlega ekki verða eftirbátar RÚV og ég hef í sjálfu sér engar áhyggjur af þessu. Verður ekki að gefa þeim sjens og mælingar munu væntanlega sýna hvort hrakspár um þverrandi áhorf nái fram að ganga. Auglýsendur borga væntanlega ekki mikið ef enginn horfir á þættina og verður þá ekki sjálfhætt fyrir þá?
Þeir eru og væntanlega skuldbundnir til að sýna í opinni dagskrá. Ef þeir senda út í læstri dagskrá og hafa samið um það við Ecclestone þá hlýtur RÚV að vera í lófa lagið að semja við hann um að sýna líka frá mótunum og þá í opinni dagskrá.
Þannig er þetta hér í Frakklandi, franska Eurosport sendir frá formúlunni en kaupa verður aðgang að henni sérstakelga. Hins vegar sýnir einkastöðin TF1, stærsta stöð landsins, frá mótinu beint. En þá bara kappaksturinn á sunnudeginum, engar æfingar og tímatökur og heldur ekki sjónvarpssamtalið við fyrstu þrjá ökuþórana.
Ég hef ekki pælt mikið í þessum breytingum á útsendingaraðila. Ekki minnkaði áhugi í Bretlandi, nema síst væri, þegar BBC missti útsendingarréttinn til aðal keppinautarins ITV. Verða menn ekki bara að gefa þeim séns og kaupa sér gervihnattadisk ef þetta verður vonlaust? Þá mæli ég með diski sem nær RTL-stöðinni þýsku, ég horfi mest á hana því umfjöllun hennar er mikil og vægast sagt frábær.
Annars hlýtur þetta að standa og falla með því hverjir sjá um útsendingarnar á nýjum miðli og hvernig þeim tekst upp. Veit nokkur hver eða hverjir það verða? Það hlýtur að vera frágengið því einhver undirbúningur hlýtur að þurfa fara fram því ekki eru nema fimm mánuðir í að vertíð næsta árs hefst? Flytji núverandi umsjónarmenn sig yfir líka þá þurfa þeir kannski ekki sama undirbúning en þó einhverja aðlögun að nýjum vinnustað?
Veistu nokkuð um það? Ég hef spurt en fékk afar loðið svar!
Ágúst Ásgeirsson, 12.10.2007 kl. 07:56
Jú þetta er rétt hjá þér Ágúst, formúlan er auðvitað í raun enn meiri bissness frekar en íþrótt í augum manna eins og Bernie Ecclestone. Það var jú víst þannig að 365 Miðlar buðu hærri tölu í útsendingarréttinn heldur en RÚV. Ef svo að það sé skilyrði að þeir sendi þetta út í opinni dagskrá þá hef ég ekki stórar áhyggjur af þessu, þá verður væntanlega bara um að ræða kannski smá útfærslubreytingar þar sem þetta verður jafnvel í höndum nýrra manna að hluta?
Ég veit nei ekki fyrir víst hver eða hverjir eiga að sjá um útsendingarnar hjá 365, ég hef aðeins heyrt loðnar getgátur um það sem ég veit ekkert hvort fótur sé fyrir.
Ég persónulega yrði mjög sáttur bara ef Gulli Rögg héldi amk áfram með þetta þarna uppfrá, en auðvitað eru til fleiri ágætir menn líka í þetta. Aðalatriðið er að það verði amk menn með haldgóða PRO þekkingu á formúlunni en ekki einhverjir "almennir" íþróttafréttamenn.
Ég hef séð F1 útsendingar á RTL stöðinni þýsku og þær eru vægast sagt frábærar. Eins og þú veist þá þegar Bernie Ecclestone selur einhverjum sýningarrétt á F1 þá er hægt að velja úr mjög mörgum mismunandi dýrum útsendingarpökkum sem eru jú mjög misjafnlega flottir. RÚV hefur nú á seinni árum splæst í örlítið dýrari pakka en áður og fengið inn meiri díteil upplýsingar og grafík í útsendingarnar sýnar. Ef þú kaupir ódýrann pakka þá færðu lítið sem ekkert "in-car-camera" o.s.frv.
Jæja nóg að sinni, það verður gaman að sjá og heyra hvað gerist í þessum málum, það hlýtur að opinberast fljótlega?
gudni.is, 12.10.2007 kl. 10:38
Ágúst, Þú mátt alveg endilega senda mér netfangið þitt á mitt sem er gudni@udni.is Þ.e. samt bara ef það er OK þín vegna. Mér gæti dottið í hug að senda þér einhverja prívæt mola? Ég finn a.m.k. ekki netfang hér á síðunni þinni?
Kv, Guðni
gudni.is, 12.10.2007 kl. 15:01
Sæll Guðni
Netfangið er ekki leyndarmál og birtist t.d. oft í Morgunblaðinu, síðast í viðskiptablaði þess í gær og bílablaðinu í dag. Það er agas@mbl.is Það er í góðu lagi að meila.
Með kveðju
Ágúst Ásgeirsson, 12.10.2007 kl. 16:57
Gleymdi því, Guðni, að ég setti þetta hér því ég fékk meldingu um að meilið sem þú gefur upp virki ekki. Kannski vantar staf í það, eða svo grunar mig, svona eftir á að hyggja.
Ágúst Ásgeirsson, 12.10.2007 kl. 16:59
Jú rétt hjá þér, ég sló það inn vitlaust hér að ofan og það vantaði einn staf, á auðvitað að vera gudni@gudni.is
Bestu þakkir
gudni.is, 12.10.2007 kl. 18:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.