Button ekki lengur næstumþvímaður!

Einhverri lengstu eyðimerkurgöngu ökuþórs í formúlu-1 lauk í Búdapest í gær er Jenson Button hjá Honda vann þar frækinn sigur í ótrúlega sviptingasömum kappakstri þar sem gæfa ökuþóra sveiflaðist til og frá eins og pendúll.  Líklega þeim eftirminnilegasta á þessari vertíð. Nú þarf ekki lengur að efast um að hann hafi það til að bera að vinna kappakstur en þetta var 113. tilraunin hans.

Afar fátítt er að ökuþórar hjá liðum sem eru meira en miðlungs þurfi að bíða jafn lengi eftir sigri og Button. Aðeins Jarno Trulli og Rubens  Barrichello, liðsfélagi Buttons, hafa þurft að bíða lengur eftir sigri. Sigurstund Trulli kom í 117. móti og Barrichello í því 124.

Nú er spurningin hvort Button verður fyrsti Bretinn til að vinna heimsmeistaratitil ökuþóra frá því Damon Hill varð meistari 1996? Eins og Button vann Hill einmitt sinn fyrsta mótssigur í Búdapest, árið 1993. Og árið áður – 1992 – tryggði annar Breti, Nigel Mansell, sér ökuþóratitilinn þar.

Þremur árum eftir jómfrúarsigur sinn varð Hill meistari svo Button hefur fram til 2009 til að jafna afrek Hill! Eini munurinn á þessum snjöllu ökuþórum er að Hill vann sinn fyrsta mótssigur í 13. kappakstri en Button 113. [Þá tel ég ekki með mót þar sem Hill komst ekki gegnum tímatökur á  handónýtum Brabham/Judd-bíl sem hann ók á fyrsta ári sínu en þá komst hann aðeins tvisvar inn í keppnina í átta mótum].

Button vann hins vegar hundrað mótum lengur að vinna jómfrúarsigur sinn og það á sjöunda keppnisári. Alltjent er 13 þó happatala beggja, ef svo mætti segja. Og nú þarf hann ekki lengur að svara endalausum tölfræðilegum spurningum um hvort og hvenær og af hverju ekki ennþá o.s.frv.

Nú ber hann heldur ekki lengur þann kross sem blaðamenn hafa stöðugt minnt hann á; að hann væri ekki búinn að vinna sinn fyrsta sigur! Honum var hampað gífurlega er hann var árið 2000 yngsti ökuþór sögunnar til að keppa í formúlu-1. Miklar væntingar voru strax gerðar til hans en hann hefur ekki staðið undir þeim – fyrr en loks nú.

Með því fyrsta sem Button sagði einmitt eftir sigurinn í gær var að hið góða við hann væri það, að nú yrði sú leiðinlega spurning um að hann hefði ekki unnið svo og svo mörg mót ekki spurð lengur! „Oki er af mér létt því ég les þessi viðtöl við og við,“ sagði hann.

Á fyrsta ári Buttons í formúlunni, þúsaldarárið, átti ég þess kost að setjast að spjalli við  hann ásamt nokkrum breskum blaðamönnum í mótorheimili Williams við Monzabrautina á Ítalíu. (Sjá meðfylgjandi mynd). Ekki vantaði hann sjálfstraustið, enda nýbúinn að vinna sinn besta árangur í tímatökum í næsta móti á undan, Belgíu þar sem hann lagði af stað þriðji og lauk keppni í fimmta sæti. Og stuttu áður varð hann fjórði í þýska kappakstrinum. Hann var gallharður á því að sigur væri handan hornsins en þrjú mót voru eftir vertíðar. Við vitum jú að þær væntingar hans sjálfs gengu ekki upp þá og ekki fyrr en næstum sjö árum seinna.

Ég velti því fyrir mér hvort sjálfstraust manna sem þurfa bíða svo lengi eftir sigri þverri aldrei. Hvort stolt þeirra særist ekki því stanslaust þurfa þeir að þykjast vissir um eigið ágæti svona út á við. Þó ekki nema í þágu liða sinna og styrktaraðila. En meðan menn missa aldrei vonina þá er von. Eins og hjá Button.

Og ég er á því að sigur hans hafi verið með því besta sem gerst hefur fyrir formúluna í ár. Hún hefur átt í andstreymi fyrir að vera of upptekin af eigin nafla í stað þess að sinna áhorfendum og bjóða upp á meiri keppni. Kappakstur helgarinnar var spor í rétta átt þrátt fyrir allt og ekki vantaði dramatíkina í keppni þeirra Fernando Alonso og Michaels Schumacher um heimsmeistaratitil ökuþóra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Elvar Jakobsson

Ég vil byrja á að fagna þessum merka áfanga Buttons sem vissulega var orðinn tímabær, svo ekki sé meira sagt. Hins vegar á ég ekki von á því að sjá hann reglulega í toppbaráttunni í nánustu framtíð. Bíllinn er vissulega góður og staffið batnar með hverju móti. Hins vegar er Button frekar seinþroska og mikill gasprari. Heppnisstimill er á sigri hans núna þar sem flestallir sigurstranglegustu keppinautar hans féllu úr leik. Það er auðvelt að sýna grimmd gagnvart keppinautunum þegar leikurinn er ójafn sbr. áberandi verri Brigdestone millidekk. Þegar leikurinn er jafnari sést betur að Button er annars flokks ökumaður. Ég hef ekkert á móti Button, síður en svo. Hann verður aftur kominn á sinn stall þegar keppnin í Istanbul hefst.

Hafsteinn Elvar Jakobsson, 7.8.2006 kl. 17:50

2 identicon

Hepnisstimpill, ekki sammála. Það sem gerði þennan sigur Buttons var rétt dekkjaval hjá aðstormannio hans og að sjálfsögðu stapíll og örrugur akstur. Þetta er í rauninni fyrsta sinn sem hjá Button sem bíll, dekk og aðstoð gengur upp. Button er fyrsta flokks ökumaður og sannar það hve stormasamt hefur verið í kringum samninga hans undanfarinn ár. Enda vita þeir sem sitja hinum megin við borðið hvers megnugur hann er.

Irvine (IP-tala skráð) 16.8.2006 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband