FIA kærir ógildingu FIA á banni FIA til dómstóls FIA!

Vart er hægt að vera meira sammála Renaultstjóranum Flavio Briatore sem risið hefur hvað eftir annað upp gegn pólitíkinni í formúlunni og hvatt menn frekar til að reyna auka skemmtanagildi hennar fyrir áhorfendur og unnendur íþróttarinnar í stað þess að þrátta endalaust um einhver tæknileg atriði og búnað keppnisbíla. Hætta sjálfhverfunni og hugsa fremur um unnendur íþróttarinnar og áhorfendur en einhverja eiginhagsmuni sem enga varðar um.

Enn ein hringavitleysan á vettvangi Alþjóðaakstursíþróttasambandsins (FIA) fór af stað í dag er sambandið (FIA) ákvað að kæra úrskurð eigin dómara (FIA) til dómstóls FIA! Della á dellu ofan og er von að fólk missi áhuga á íþróttinni meðan FIA er jafn upptekið af sjálfu sér og raun ber vitni í stað þess að bæta keppnina.

Forsaga málsins er sú að FIA hafði leyft Renault að nota framúrstsefnulegan fjöðrunarbúnað sem verið hefur í bílum liðsins frá í september í fyrra. Og sex önnur lið hafa hermt eftir Renault, eins go gerist og gengur í formúlunni, og sett samskonar fjöðrun í sína bíla. Efetir franska kappaksturinn sneri FIA við blaði og bannaði búnaðinn.

Renault kættist ekki beint við þetta og prófaði að láta reyna á lögmæti búnaðarins með því að hafa hann í varabíl liðsins sem sendur var í hefðbundna skoðun í gær hjá eftirlitsmönnum FIA í þýska kappakstrinum í gær. Niðurstaða þeirra var að bíllinn mætti ekki keppa vegna búnaðarins, sem FIA hafði bannað, en samkvæmt venju kemur slík niðurstaða til kasta dómnefndar (FIA) kappakstursins. Niðurstaða hennar - rökstudd í afar löngu máli - var að bann FIA hefði tekið ranga ákvörðun og búnaðurinn stangaðist í engu á við tæknireglur formúlunnar.

Maður hefði nú haldið að FIA hefði látið staðar numið þegar hér var komið sögu. Nei, aldeilis ekki. Sambandið ákvað að ganga gegn eigin fulltrúum og halda þófinu áfram. Tæknifulltrúinn sem leyfði bæði búnaðinn og bannaði ákvað að árfýja niðurstöðu dómaranna til dómstóls FIA svo málið verður áfram í lausu lofti. Óvíst er að niðurstaða verði fengin fyrir ungverska kappaksturinn sem fram fer eftir rúma viku.

En nú tekur sem sagt við að ógildingu FIA á úrskurði FIA hefur FIA kært til dómstóls FIA. Mér fyrirgefst vonandi þótt ég segi að bjánalegra geti málið ekki verið. Hef ég langa reynslu af dómgæslu og öðrum störfum í íslenskri íþróttahreyfingu og alþjóðlegri. Svona lagað gæti ekki komið upp á þeim vettvangi, fullyrði ég. Málum er þar háttað þann veg að svona dellumakerí getur ekki átt sér stað.

Sennilega er við engan annan en FIA að sakast yfir þessari dæmalausu dellu. Sambandið þyrfti líklega bara að vanda betur texta og innihald tæknireglna formúlunnar sem breytt hefur verið árlega mörg undanfarin ár. Aðalhöfundur þeirra er maðurinn sem leyfir og bannar hluti á grundvelli þeirra, tæknifulltrúinn.

Í ljósi þessa þarf engan að undra þótt liðin sem mynda samtök bílaframleiðenda í formúlunni hafi um árabil reynt að knýja fram breytingar á ákvarðanaferlinu innan FIA og laga-og reglusetningu. Hafði þeim fundist FIA-sjórinn alltof gruggur og ítök Ferrari þar fullmikil. Vildu heldur sigla á tæru vatni þar sem allt væri gegnsætt og skýrt.

Útaf fyrir sig er mér nákvæmlega sama hver niðurstaðan af þessari nýjustu dellu verður. Hins vegar finnst mér löngu nóg komið og tel löngu tímabært að reyna að gera formúluna skemmilegri. Kannski ég labbi bara inn á FIA-kontórinn í París með mótmælaspjald á næstunni, þangað er stutt héðan sem ég bý í Frakklandi!!! Það er tími til kominn að einhver taki af skarið, berji í borðið og segi hingað og ekki lengra. Það þarf nýja stjóra á það rekald sem manni finnst FIA vera. Menn sem gera réttu hlutina en ekki hlutina rétt. <br><br>

Það finnst mér allavega, en kannski er enginn mér sammála? Þá verð ég í vondum málum! 



 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er nú ekki í aðstöðu til að koma með þér í mótmælagöngu hjá FIA en ég er algerlega sammála.

Eggert (IP-tala skráð) 29.7.2006 kl. 08:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband