Laugardagur, 16. júní 2007
Sápuópera fjölmiðla sem sögð er eiga sér stað hjá McLaren
Sápuóperan sem í gangi hefur verið kringum McLarenliðið - alla vega á síðum breskra og spænskra fjölmiðla - hefur verið nokkuð áhugaverð. Þar hefur verið farið verulega út úr þrælstífum farvegi sem lengi hefur einkennt almannatengsl McLaren. Og Lewis Hamilton er eiginlega aðal sökudólgurinn!
Hví segi ég það? Jú, breskir blaðamenn fengu hann á eitthvert flug í Mónakó. Þeir hafa líklega verið þangað sendir til að dokumentera ætlað jómfrúarsigur nýliðans þar. Allavega var breska pressan búin að spinna upp sögur þess efnis að þar myndi breska undrið sigra.
Og Hamilton missti út úr sér eftir kappaksturinn að honum hafi verið sagt að halda stöðu sinni - öðru sæti - eftir þjónustustoppinn og reyna ekki að taka fram úr Alonso. Sagðist heldur ekki vera ökumaður númer eitt innan liðsins, eins og númerið á bílnum hans segði til um, númer 2. Þvíværi sér líklega ætlað að víkja fyrir Alonso ef svo bæri undir.
Liðsstjórinn Ron Dennis staðfesti að ökuþórunum hefði verið gert í ljósi yfirburða sinna að slaka á í lokin og koma bílunum í höfn í fyrsta og öðru sæti. Væri það viðtekin venja við kringumstæður sem þær sem voru í kappakstrinum, einkum og sér í lagi í Mónakó.
Þar með taldi breska pressan sig komin með afburða fóður í fréttir um að bruggað hafi verið samsæri gegn ensku hetjunni í enska liðinu. Umfjöllun þeirra leiddi til rannsóknar á því hvort úrslitum kappakstursins hafi verið hagrætt, eins og fjölmiðlar í Bretlandi héldu bókstaflega fram. Til að gera langa sögu stutta var McLaren hreinsað af slíku og sagt hafa staðið að öllu leyti faglega og eðlilega að þátttöku sinni í Mónakó.
Dennis sagði síðar, að Hamilton hafi hlaupið á sig með ummælum sínum í Mónakó. Og svo sem skiljanlegt af ungum manni sem lentur væri í skolti grimmúðugra fjölmiðlamanna.
Nýliðanum hafði orðið á í messunni, látið tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur og McLaren sá sig tilneytt til að takmarka aðgang fjölmiðla að þeim Alonso. Öldur virtist vera að lægja er Alonso sagði við spænska útvarpsstöð að sér liði ekki enn nægilega vel hjá McLaren og fyndist sem Hamilton nyti þar meiri hjálpar, enda enskur ökumaður og liðið enskt.
Það taldi Alonso sosum alveg skiljanlegt og bætti við að breskir og spænskir fjölmiðlar myndu, allt eftir efninu, alltaf hafa eitthvað til að spinna upp úr öllu veldi. Ef sér gengi illa myndu spænskir fjölmiðlar leggja það út á verri veg en efni stæði til og breskir þegar á móti blesi hjá Hamilton.
Allt er þetta nú frekar lítilfjörlegt, finnst mér, og óþarfi að fara algjörlega af hjörum, eins og kollegar mínir víða virðast gera. Og verðum við ekki bara að trúa ökuþórunum báðum og forsvarsmönnum McLaren, að þar sé engin spenna, engin hjaðningavíg í gangi, heldur fyrirtaks samstarf allra aðila, þar á meðal ökuþóranna, og andrúmsloft eins og best gerist. Sem lýsi sér best í þeirri drottnun sem liðið hefur sýnt í undanförnum mótum og virðist ekki vera að ljúka.
Ómögulegt er að segja til um eða spá um framhaldið, og ekki ætla ég mér þá ósvinnu. En ætli megi ekki segja um þessi mál og hárgreiðslustólinn, sem þrætt hefur verið um í fjögur ár í Kópavogi, að sjaldan hafi jafn lítil mál stækkað jafn mikið í smæð sinni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.