Hvaða ráð gefur Schumacher?

Schumacher gefur ráð í MontrealHvaða ráð gefur Michael Schumacher Ferrari? Veit einhver það? Í þessu nýja hlutverki sínu - sérlegur ráðgjafi liðsstjórans Jean Todt - hefur hann verið viðstaddur þrjú mót í röð og haft sig í frammi í bílskúrnum og stjórnborðinu. Það þarf ekki að hafa langt mál um það, að þetta eru með ömurlegustu mótum Ferrari lengi, að eigin sögn.

Því skal þó haldið til haga að Felipe Massa vann fyrsta kappaksturinn sem ráðgjafi Schumacher var við störf, í Barcelona. (Því er reyndar hvíslað að Schumacher sé einkaþjálfari Massa og láti Kimi Räikkönen eiga sig).

 Síðan tóku við Mónakó og Montreal nú um helgina. Mót til að gleyma, við verðum betri í næsta móti, sögðu Ferrarimenn eftir þau bæði.

Þeir töluðu um hörmungar í Mónakó en vísuðu til einstakra sérkenna brautarinnr og að bíll Ferrari væri lengri en annarra, þ.e. bilið milli fram- og afturöxla, sem væri vont í Mónakó. McLaren drottnaði á götum furstadæmisins og silfurörvarnar unnu aftur örugglega í gær, í Montreal, og Ferrarifákarnir voru aldrei í tæri við toppsætið í báðum.

Todt viðurkennir að McLaren sé búið að velta Ferrari úr toppsætinu en huggar sig við að langt er eftir vertíðar, 11 mót. Segir það nægan tíma til að laga stöðuna og komast aftur á toppinn í titilslagnum, meðan menn hafi trú á því að þeir geti það, eins og hann segir ekki skorta hjá Ferrari. Segir sem fyrr að næsta mót muni ganga betur en hið síðasta, aðstæður í Indianapolis henti keppnisfákunum betur en brautirnar í Mónakó og Montreal.

Það kemur auðvitað allt í ljós hvað úr hverju - en á sama tíma velti ég fyrir mér hvort Schumacher eigi eftir að ráða úrslitum? Hvað tillag hans dugar langt? Eða er það út í hött að segja - í ljósi reynslunnar - að hann ætti bara að njóta þess að vera hættur og láta liðið í friði?

Hvað segja menn um það?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óli Sveinbjörnss

Það er bara staðreynd að Ferrari er ekki með þá ökuþóra sem þeir þyrftu að hafa til að eiga möguleika í Mclaren þetta árið. Schumager er topp ökuþór vegna að hann getur miðlað upplýsingum til tæknimanna. Hvorki Massa né Raikonen hafa þennan  eiginleika. Massa er allt of blóðheitur og Raikonen er bara hraður. Las viðtal við ökuþór sem keppti með Raikonen í neðri deildum og hann sagði að Kimi hefði alltaf verið svona ökumaður, bíllinn hékk aldrei undur honum. Svo virðist með Mclaren ökuþóranna séu miklir fagmenn og íþróttamenn. Ég var á Montreal keppninni og horfði á allar æfingar. Lewis elti Alonso á öllum æfingum eins og hann væri að stúdera allt sem Alonso gerði. Nei ég held að Ferrari verði að kippa inn góðum ökuþór og láta annan fara ef þeir eiga eftir að halda við Mclaren en eins og Todt segir þá eru 11 mót eftir og allt getur gerst, sem gerir formúluna skemmtilega.

Takk fyrir gott blogg

Óli Sveinbjörnss, 12.6.2007 kl. 14:37

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Sæll Óli

Fróðlegt innlegg varðandi ökuþórana.

Svo þú varst í hinni fögru Montreal. Hvernig var stemmningin í stúkunum við Kubica-slysið?

Þótt maður sé ýmsu vanur um dagana þá var maður hálf lamaður að sjá þessi ósköp. Og enn furðulegra að menn skuli standa upp úr braki nær ómeiddir eftir slík högg.

Ágúst Ásgeirsson, 12.6.2007 kl. 16:42

3 Smámynd: Óli Sveinbjörnss

Sæll Ásgeir,

það var skrítin upplifun þegar Kubica lenti í árekstrinum, þó alveg eðlileg. Það voru mikill fagnaðarlæti vegna samhliða akstri hans og Trulli og svo þegar hann rakst á í fyrra skiptið þá þyngdist hljóðið í öllum og við seinna höggið þá veinuðu allir í angist og það virtist eins og allir voru í sama tóninum allan tíman. Síðan var löng þögn og menn fóru að spyrja hvorn annan hvort hann væri á lífi, stilla útvörpin og leita upplýsinga. Þegar kom í ljós að Kubica væri á lífi þá braust út mikill fagnaðarlæti og tók ég eftir að mikill virðing er borinn fyrir þessum ökumanni. Ég hef farið á nokkrar keppnir og þar á meðal keppnina þegar Hakkinen tók slingshottið á Spa en þetta var sú besta og mesta stemming sem ég hef upplifað enda stöðugt eitthvað í gangi. Við stöðum örrugglega svona 100 sinnum upp úr sætunum. Það var einnig svaka stemming hjá áhorfendum á milli atriða þar sem stór áhangendahópur Alonso var á svæðinu þar á meðal einir 6 nautabanar og senjorítur og hópurinn var með 4 metra fánastangir, 10stk, og sáust allstaðar að og voru syngjandi og trallandi allan tíman. Alvöru aðdáendur. Svo voru Brasilíu menn í öllum litum. Þannig að það var nóg af myndefni og bara gaman allan tíman. Þannig að ég og strákurinn minn(á sinni fyrstu keppni) erum allveg í skýjunum með þessa keppni. Ég var soldið hissa að rekast ekki íslendinga þarna þar sem það er orðið beint flug á Montreal en ég mæli með að fara á keppni þarna. Mjög vel skipulagt allt saman og frábær borg.

Óli Sveinbjörnss, 13.6.2007 kl. 03:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband