Mánudagur, 11. júní 2007
Sloppinn fyrir horn?
Ég vildi geta sagt að Heikki Kovalainen hafi lesið bloggið mitt síðasta og tekið pistilinn sem áhrínisorð. Það verður að segjast um kappaksturinn í Montreal að þar var allt annar Heikki á ferð en fram að því. Hóf keppni 22. og síðastur en keppti í lokin um sæti á verðlaunapalli.
Auðvitað hafði Kovalainen heppnina með sér þar sem öryggisbíllinn kom fimm sinnum út í brautina vegna óhappa. Á því græddu þeir mest sem lögðu upp með það að stoppa aðeins einu sinni til að taka bensín og skipta um dekk. Þeir eru ekki alltaf svona heppnir og allt í lagi að minni menn fái stundum að skína, eins og Alexander Wurz hjá Williams sem ók úr 19. sæti í það þriðja.
Þetta sýnir að kappakstri er aldrei lokið fyrr en flaggið fellur. Skemmtilegt fyrir Wurz þar sem hann hóf keppnisferilinn í formúlu-1 í Montreal 10 árum áður.
Aftur að Kovalainen til að veita honum uppreisn æru fyrir gagnrýnina. Auk heppni verður að skrifa árangur hans líka á góða keppnisáætlun Renault og góðan og algjörlega mistakalausan akstur hans.
Kovalainen stóð sig mjög vel þegar mest á reyndi, á síðustu 10-15 hringjunum. Varðist þá fimlega pressu frá bæði Kimi Räikkönen og Fernando Alonso og hélt sínu örugglega. Og gerði meir að segja tilraunir til að komast fram úr Wurz, en var aldrei nógsamlega nærri honum til að eiga möguleika.
Með því sýndi hann líka skynsamlega sókn en ekki fífldjarfa, eins og freistandi kann að hafa verið með verðlaunapall í augsýn. Kovalainen náði ekki bara sínum besta árangri í formúlu-1, heldur jafnaði besta árangur Giancarlo Fisichella, sem varð fjórði í Mónakó.
Um leið og Renault gleðst yfir kröftugum Kovalainen grætur það refsingu Fisichella sem dæmdur var úr leik fyrir að aka út í brautina úr bílskúrareininni gegn rauðu ljósi. Fisichella var í toppslagnum fram að því og sýndi að Renaultinn er orðinn jafngóður Ferrarinum. Kvaðst hann ekki hafa séð rauða ljósið er hann ók úr reininni í keppni við aðra bíla sem hann sagðist hafa haft augu á.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.