Sunnudagur, 10. júní 2007
Kovalainen hvíldur?
Heikki Kovalainen hefur staðið langt undir væntingum hjá Renault. Tvær ákeyrslur á öryggisveggi í Montreal í gær og fyrradag benda til að hann ráði ekki við pressuna sem er á ökuþórum í formúlu-1. Er frammistaða hans allt önnur og lakari en til dæmis tveggja gamalla keppinauta hans úr öðrum mótaflokkum, Lewis Hamilton og Nico Rosberg.
Miklar væntingar voru gerðar til Kovalainen og Renault hafði hann í sérstakri starfsþjálfun allt síðastliðið ár sem tilraunaökuþór. Alveg sömu aðferð beitt og við Fernando Alonso á sínum tíma, árið áður en hann var gerður að keppnisþór. Og í sömu skólun er nú tilraunaþórinn Nelson Piquet yngri.
Það skyldi þó aldrei verða að Piquet fá tækifæri að spreyta sig, þ.e.a.s. ef Heikki hífir ekki upp um sig árangursbuxurnar?
Ef til vill er pressan að ná tökum á Kovalainen og hann að reyna að sækja full mikið við að standa sig. Hann gerir sér örugglega betur grein fyrir því en margir að frammistaðan til þessa er ekki gott vegarnesti upp á framtíðina í formúlu-1. Sjöunda sæti á mark er besti árangur hans í fyrstu fimm mótunum.
Litlar líkur eru á að hann geri betur í Montreal í dag. Mér segir svo hugur um að liðsstjórinn Flavio Briatore sé eigi alls kostar ánægður með finnska ökuþórinn því Renault er ekki með í keppninni til að dóla í miðjum hóp eða aftar. Forstjóri franska bílafyrirtækisins, Carlos Ghosn, sagði fyrir skömmu að fjórða sæti eða aftar væri óviðunandi og Renault yrði ekki lengi með í formúlunni ef það gerði ekki betur.
Þetta er reyndar einn helsti veikleiki formúlunnar sem lagt hefur sig í framkróka um að púkka upp á bílafyrirtæki í stað keppnislið einyrkja - sem við höfum séð hverfa úr formúlunni eitt af öðru á undanförnum árum. Bílafyrirtækin líta á formúluna sem auglýsingaglugga - en ekki íþrótt fyrst og fremst - og þegar árangurinn þjónar ekki hagsmunum þeirra, eða jafnvel skaðar þá, hverfa þau á brott, ef þeim sýnist.
Nýlegt dæmi um það er Ford og fróðlegt verður að sjá hversu lengi Honda og Toyota tolla í formúlunni. Bæði fyrirtæki eyða milljörðum á ári án þess að uppskera nokkurn skapaðan hlut.
Athugasemdir
Heill og sæll Ágúst.
Ég er mikill áhugamaður um formúluna. þetta blogg þitt er frábært að geta skrifað um formúluna með faglegum hætti. Enn og aftur ég mun benda mönnum á þitt blogg. Kærar þakkir.
Jóhann Páll Símonarson.
Jóhann Páll Símonarson, 10.6.2007 kl. 10:48
Þakka þér vinsamleg ummæli Jóhann Páll, þau eru hvetjandi.
Ágúst Ásgeirsson, 10.6.2007 kl. 15:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.