Kjósið eins og mér þóknast ellegar fáið þið ekki kappakstur!

Glaðbætt í ValensíuBernie Ecclestone, sem ræður öllu því í formúlu-1 sem hann vill ráða, hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér um dagana. Þrátt fyrir þá aðdáun vík ég mér ekki undan því að gagnrýna hann ef svo ber undir. Margt gott hefur hann gert. Og aðra hluti umdeilda, en þar hlýtur að ná hámarki hans afskipti af spænskri pólitík!

Ecclestone samdi í vikunni um mótshald í Valensíu á Spáni til sjö ára frá og með næsta ári. Tilkynnti þó með pomp og prakt að samkomulagið væri skilyrt; héraðshöfðingi appelsínuhéraðsins Valensíu skyldi ná endurkjöri í kosningum eftir hálfan mánuð. Hann hefði jú lofað að borga Ecclestone 26 milljónir evra á ári fyrir mótið, um 2300 milljónir króna. Því yrði ekki skrifað undir samninginn fyrr en eftir kosningar og þá því aðeins að úrslitin í kosningunum yrðu "rétt".

Það er skiljanlegt að þetta skuli hafa leitt til pólískrar ólgu á Spáni. Og skiljanlegt að því sé haldið fram að hér sé verið að reyna að kúga kjósendur. Og vægast sagt undarleg hegðan af hálfu Bernie. Af hverju beið hann ekki með málið þar til eftir kosningar og lét það þá niður falla ef úrslitin yrðu ekki eins og honum þóknaðist? Og af hverju skrifaði hann ekki strax undir því kjörnir fulltrúar hljóta hafa fullt umboð til þess þótt kosningar séu í nánd? Ef úrslitin yrðu honum ekki þóknanleg gæti hann látið á málið reyna, og vildu nýir valdhafar ekki virða samkomulagið þá yrði samningum rift og málið félli niður. Heimamenn sætu þá líklega uppi með skaðabætur. Eitt mót til eða frá á næsta ári skipti ekki máli og nógir eru þeir sem vilja fá að halda kappakstur í formúlu-1 þótt fyrirvarinn sé e.t.v. of lítill til að fylla skarð Valensíu þegar á næsta ári.

Allavega, Bernie Ecclestone hefur komið á óvart eina ferðina enn. Ætli kallinn hafi nokkuð verið að blanda sér í spænska pólitík visvítandi? Ég hallast að því að svo hafi ekki verið. Hann hefur  einfaldlega talað óvarfærnislega og ekki hugsað út í afleiðingarnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Hann neitar þessu nú, kallinn. Get ekki betur séð að hér sé verið að mistúlka orð, og það í pólitískum tilgangi. En hvursu oft sjáum við það ekki, líka hér á Íslandi.

CNN með frétt um málið.

http://edition.cnn.com/2007/SPORT/05/11/spain.ecclestone.reut/index.html

Birgir Þór Bragason, 16.5.2007 kl. 06:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband