Kaupir kappakstursbrautir fyrir stóru sneiðina sem hann tók sjálfum sér

Spáð í spilinBernie Ecclestone, sem ég hef löngum kosið að kalla alráð formúlunnar, er ekki á flæðiskeri staddur. Kaupir kappakstursbrautir eins og ekkert sé til að ávaxta pundið sitt. Allt í lagi með það og bara hægt að samgleðjast honum. Nema hvað til fjárfestingarinnar notar hann  líklega fjármuni sem hann hefur tekið út úr formúlunni í eigin vasa í stað þess að gefa liðunum meira í aðra hönd af gróðanum af sölu sjónvarpsréttinda og alls kyns sölustarfsemi tengdri íþróttinni. 

Nú mega menn ekki misskilja mig og halda að ég líti á karlinn sem arðræningja. Alls ekki og liðin geta þakkað honum fyrir að gera formúluna að því viðskiptaveldi sem hún hefur orðið undir hans stjórn; fyrir áhuga hans, hugmyndaauðgi og útsjónarsemi.

Auðvitað eiga menn að selja hlutina sem dýrast til að hámarka hagnaðinn, ekki standa í einhverjum 25 aura bissness. [Þetta er þó eitthvað sem mér hefur aldrei hugkvæmst að beita í mína eigin þágu!].

En á sama tíma og peningastaflarnir hafa hrúgast upp í fjárhvelfingum Ecclestone [maður sér fyrir sér teiknisögur af Jóakim frænda úr Andrésarblöðunum] hefur hvert keppnisliðið á fætur öðru hrökklast úr íþróttinni vegna fjárskorts. Maður sér á eftir frumkvöðlaliðum á borð við Arrows, Prost, Minardi, Jordan, Stewart og Sauber sem öll voru með í keppni í byrjun aldarinnar.

Fjögur af þessum sex liðum eru raunar áfram við lýði en undir merkjum stórra viðskiptasamsteypa sem eru ekki með í formúlunni á "ungmennafélagsandanum" einum, heldur eru þau fyrst og fremst markaðstæki núverandi eigenda sinna; notuð til að auglýsa m.a. orkudrykki! 

Mér finnst sem sagt, að kaup Ecclestone á kappakstursbrautinni í Istanbúl fyrir um 12 milljarða króna og Paul Ricard-brautinni nálægt suðurströnd Frakklands dæmi um að hann hafi haldið einum  of stórum skerf af formúlukökunni hjá sér. Fyrir utan þetta á hann miklar og dýrar fasteignir í miðborg London og víðar.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Þetta er ótrúleg lesning. Þú gerir lítið úr því starfi sem allir aðrir vinn við Formúluna. Þú vanvirðir FIA með þessum orðum og það er ekki í fyrsta sinn. Hverjir semja reglurnar? Og það er ekki hægt að misskilja þig, þú lítur augljóslega á hann sem arðræningja og hefur alltaf gert. Þitt álit fer ekki á milli mála. Fyrir bragðið er sjaldnast að marka skrif þín um íþróttina.

Birgir Þór Bragason, 26.4.2007 kl. 05:39

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Hressileg lesning hjá þér og menn eru frjálsir að skoðunum sínum. En þú slærð fram fullyrðingum án þess að rökstyða þær frekar. Hvernig geri ég t.d. lítið úr starfi annarra með því að fjalla um Ecclestone? Hvernig vanvirði ég FIA? Því er ekki um neitt að kenna, nema kannski að hafa fyrir par árum afhent Ecclestone öll viðskiptaréttindi formúlunnar til 100 ára. Nei, ég lít ekki á Ecclestone sem arðræningja, þá hefði hann haldið enn meiru eftir. Og ég hélt það hefði komið fram hjá mér að það er fyrst og fremst honum og útsjónarsemi hans að þakka hversu stöndug formúlan er! Mér finnst bara ekki sæmandi að hann haldi alltaf þriðjungi af öllum tekjum eftir hjá sér. Að öðru leyti ber ég mikla virðingu fyrir Ecclestone. Það sem þú segir um meinta fjandsemi í hans garð er útúrsnúningur.

Það er leitt ef þér finnst ekkert að marka skrif mín um íþróttina, en ég get lifað við það.

Ágúst Ásgeirsson, 29.4.2007 kl. 11:07

3 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Þú segir -fyrir stóru sneiðina sem hann tók sjálfum sér- og stuttu síðar -fjármuni sem hann hefur tekið út úr formúlunni í eigin vasa-

Það er ekki hægt að skilja þessi orð á annan hátt að hann hafi TEKIÐ fjármuni, að þínu mati. Og hvað gera arðræningjar taka þeir ekki fjármuni? Þú kallar hann alráðan en ég held að þú vitir betur, samt heldur þú áfram að kalla hann alráðan. Með því að segja að hann ráði öllu þá ertu að segja að aðrir ráði ekki neinu. Er það þannig? Ég held að þú vitir betur. Og afhverju heldur þú þá áfram að kalla hann alráðan. Mér finnst þú gera lítið úr verkum annarra með því, vanvirðir þá þar með.

ps getur verið að kaup á þessum brautum gagnist formúlunni?

Birgir Þór Bragason, 1.5.2007 kl. 07:10

4 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Þú heldur áfram að teygja lopann! Bernie ákveður sjálfur sinn skerf af þeirri upphæð sem hann selur sjónvarpsréttindi á og allan annan seljanlegan nýtingarétt. Það er honum algjörlega frjálst, hann á umboðsfyrirtækið þar til hin síðustu ár er það komst í eigu fleiri aðila. Það er orðhengilsháttur hjá þér að tönnlast á orðnotkun minni. Ég er ekki að væna hann um þjófnað og ekki að saka hann um arðrán - heldur finnst mér hann hafa ákveðið sér of stóra sneið. Ég er kapitalisti sjálfur og hlynntur athafnafrelsi einstaklings. Spurningin er hins vegar um hóf og óhóf í þessum efnum sem öðrum.

Hvers vegna er þér í nöp við að ég kalli Ecclestone "alráð"? Mér finnst þetta skemmtilegt orð og lýsandi um áhrif hans. Hann möndlar hlutina, leysir vanda manna og reynir að miðla málum til sátta. Um það eru mörg dæmi, hið nýjasta er þrætan um bíla Toro Rosso og Super Aguri. Auðvitað þarf svo FIA að leggja blessun sína yfir niðurstöðuna í því efni sem mörgu öðru. 

Í því felst viss adáun hjá mér á Ecclestone að kalla hann alráðan. Engin spurning, ég hef mikið dálæti á honum, en hlýt samt að hafa leyfi til að gagnrýna hann. 

Þú hefur ekki enn útskýrt hvernig ég er að gera lítið úr verkum annarra? Bloggið gekk út á viðskiptahlið formúlumálanna og ekkert annað.

Ágúst Ásgeirsson, 1.5.2007 kl. 08:18

5 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Ég biðst velvirðingar. Ég hef aldrei skilið skrif þín um alráð á þann hátt sem þú segir hér að ofan. Aldrei hefur það hvarflað að mér að það væri í aðdáun sem þú beitir þessu orði. Ég mun lesa það sem þú skrifar með örðu hugarfari héðan í frá. Það er gott að einhver alráður hefur haft vit á að safa féi til þess að nota í þeim tilgangi sem nú hefur verið gert, kaupa þessar tvær brautir. Ég held að það komi Formúlunni vel. Ég held líka að menn verði ekki ríkir eins og Ecclestone nema vera sparsamir og geta þá notað það sem sparað hefur verið til þess að vinna áfram að því sem hann hefur unnið svo vel að undanfarna áratugi. Ég held að hann sé líka misskilinn, held að ungmennafélagsandinn sé til staðar og hann vill veg allra sem taka þátt í Formúlunni sem mestan og bestan. En menn verða þá að standa sig. Það er nefnilega hægt að draga ungmennafélagshugsjónina niður í svaðið ef of margir lúserar eru með.

Birgir Þór Bragason, 2.5.2007 kl. 05:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband