Fín byrjun í formúlunni

Ferskur blær með HamiltonÞrjú mót, þrír mismunandi sigurvegarar og þrír jafnir í keppninni um heimsmeistaratititl ökuþóra. Formúluvertíðin byrjar einstaklega vel! Getur það verið betra? Er hægt að biðja um meira?  Er brottför Michaels Schumacher blessun?

 

Síðustu spurningunni svara ég með annarri; man einhver eftir Scuhmacher? Jú, það sakna hans örugglega einhverjir sem fylgt hafa honum gegnum súrt og sætt undanfarin ár. En hann er farinn, það er lífið, og verður hvorki kennt um né þakkað að keppnin í formúlunni hefur eitthvað yfir sér sem hana hefur vantað um árabil.

 

Vissulega hefur mótssigur í mótunum þremur unnist með yfirburðum en keppnin um öll sæti þar á eftir verið mikil. Sviptingar hafa verið miklar og hefur það skilað sér nokkuð vel á sjónvarpsskjána. Eftir mótið í Barein gengur ekki lengur að segja að erfitt sé að taka fram úr! Séu ökuþórar nógu hungraðir, og nægir þá aðeins að nefna Heidfeld, Rosberg, Trulli, að ekki sé talað um öldunginn Coulthard, þá sést að vogun vinnur.

 

Ferskleikinn sem Lewis Hamilton hefur komið með sér er ánægjulegur og langt verður að leita til að finna fordæmi álíka rimmu og þeir Felipe Massa háðu í Sepang. Minnti helst á glímur Alain Prost og Ayrton Senna forðum. Þar við bætist að liðsskipti Kimi Räikkönen og Felipe Massa hafa og skapað nýja stemmningu.

 

Þetta og ýmislegt fleira gerir formúluna eitthvað öðru vísi og jafnvel ánægjulegri með að fylgjast í ár.

 

Annars finnst mér miður að sjá hversu fáir mæta á vettvang í Barein til að fylgjast með keppninni. Reyndar var uppselt á keppnina sjálfa en stúkur og stæði vallarins taka aðeins 34.000 manns. Er það boðlegt? Hvað segði Bernie Ecclestone ef fleiri kæmust ekki inn í Silverstone? Stúkurnar virtust æði tómlegar aðra daga en mótshaldarar segja samt, að með æfingum á föstudag hafi 22.000 manns fylgst, 6.000 fleiri en í fyrra, og á laugardag 26.000. Samtals dagana þrjá 82.000 manns sem er færra en á einum degi í t.a.m. Silverstone; gömlu, lúnu brautinni þar sem stemmning er þó alltaf frábær á vallarsvæðinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þór Bjarnason

Já ég er sammála þér Gústi, þetta byrjar mjög hressilega og allt stefnir í jöfnustu keppni í áraraðir. Maður er alveg að venjast vitlausum mönnum í vitlausum bílum og er eiginlega við það að detta í gamla gírinn :)

Jón Þór Bjarnason, 16.4.2007 kl. 23:26

2 Smámynd: Rúnar Haukur Ingimarsson

Alveg mögnuð byrjun, vonandi heldur gamanið áfram allt tímabilið

Rúnar Haukur Ingimarsson, 18.4.2007 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband