Sunnudagur, 2. apríl 2006
Ánægjubros Brawn átakanlegt
Mér fannst heldur átakanlegt ánægjubrosið sem færðist yfir andlit Ross Brawn tæknistjóra Ferrari er hann sá Juan Pablo Montoya snúa bíl sínum í lok upphitunarhringsins í Melbourne. Hvernig ætli honum hafi svo liðið þegar báðir ökuþórarnir hans voru búnir að eyðileggja bíla sína fyrir hrein akstursmistök áður en keppnin var hálfnuð?
Eins og fleiri hefur Brawn líklega talið að Montoya væri fallinn úr leik eða yrði að byrja aftastur og hagur Ferrari í keppninni við enska liðið væri þar með orðinn betri. Eðlilegt er að mönnum í hans stöðu létti við hvert atvik er bætir stöðu eigin liðs en að það hlakki í þeim jafn opinberlega í viðurvist sjónvarpsáhorfenda um heim allan er fyrst og síðast niðurlægjandi fyrir Brawn sjálfan. Það finnst mér alla vega.
Betur hefði hann sagt "yes" í hljóði og hvatt sína menn í talstöðinni til að bíta nú á jaxlinn vegna ófara Montoya! Yfir því hefði verið meiri reisn.
Athugasemdir
Ég held að hið "átakanlega" ánægjubros Ross Brawn megi fyrst og fremst rekja til hinnar miklu niðurlægingar sem íþróttin hefur mátt þola síðustu árin. Eða frá því að byrjað var að reyna að stjórna árangri liðanna með síbreytilegum reglugerðum. Einnig held ég að þegar menn eins og Montoya, Sato og Villeneuve gera mistök sem færa þá aftar í rásröðina þá létti mörgum því þessir menn eru stórhættulegir klaufar sem ættu ekki að koma nálægt kappakstursbraut.
Kveðja
Hans
Hans Gunnarsson (IP-tala skráð) 2.4.2006 kl. 08:15
Athyglisverð athugasemd þetta og gott ef menn eru ekki alveg sammála. En varðandi „klaufakap“ manna eins og Montoya, þá gerði hann nákvæmlega sömu mistök og Michael Schumacher og á nákvæmlega sama stað í brautinni. En hvor þeirra vann sig betur út úr þeim og eyðilagði bílinn sinn ekki?
Ágúst Ásgeirsson, 2.4.2006 kl. 10:08
Að lesa þetta þvaður í Birni er alveg ótrúlegt. Schumacher hefur verið talinn til þeirra ökumanna sem er einna hættuminnstur ef svo má komast að orði. Þú ert að þylja upp einhver 2 atvik sem gerðust á síðustu öld og með atvikið þar sem Schumi krossaði þvert yfir Hakkinen þá var hann í fullum rétti á að gera það í þetta skipti. En allt þetta þvaður um hver er hættulegur og ekki hættulegur er bara barnaskapur því að það skiptir akkúrat engu máli. Ég get þulið upp mörg atvik þar sem aðrir af YKKAR uppáhaldsökumönnum gerðu slíkt hið sama.
En þetta með að það hlakkaði yfir andlit Ross Brawn finnst mér nú bara eðlilegt og gott mál. Ég skil nú ekki ef menn mega ekki sýna sýnar tilfinningar eins og allir aðrir. Þessir menn leggja miklu meira í þetta en við sem sitjum heima á rassinum og stökkvum upp og öskrum þegar eitthvað kemur fyrir. Að tæknistjóri Ferrari setji upp "ánægjubros" finnst mér fullkomlega réttlætanlegt og hefur maður nú séð aðra gera svipað. Er þá ekki leyfilegt þegar viðgerðarliðið eða "pitcrew" liðið hoppi upp, klappi, brosi, öskri og fleira þegar þeirra maður gerir eitthvað gott og eitthvað slæmt kemur fyrir aðra? Hvað með pabba Button sem brosir og klappar eins og vitleysingur þegar eitthvað gott kemur fyrir Button og eitthvað slæmt fyrir aðra fyrir framan hann? Er það ekki leyfilegt heldur?
Ef menn sem koma að þessum kappakstri eiga að hugsa um hvernig þeir bregðast við þegar eitthvað kemur fyrir hjá öðrum eða hjá þeirra mönnum þá ertu að tala um hálfgerða ritskoðun á tilfinningum og viðbrögðum manna sem er bara kjánalegt. Hvar myndi slík vitleysa enda?
Eðvarð Þ G (IP-tala skráð) 2.4.2006 kl. 14:08
Eitt í viðbót, ef þú Ágúst hefur lesið eitthvað um þessa keppni í stað þess að koma með ósannar staðhæfingar um Ferrari þá hefðir þú kannski séð það að aðeins 1 Ferrari bíll datt út vegna akstursmistaka. Það var Schumacher, það var ekki Massa að kenna að hann fór út úr keppninni. Christian Klien snerti bílinn hjá honum og ýtti Massa úr jafnvægi sem gerði það að verkum að hann snérist með þeim afleiðingum sem þú sjálfur sást. Það var ekki Massa að kenna.
Eðvarð Þ G (IP-tala skráð) 2.4.2006 kl. 14:19
OK, ég horfði á sjónvarpið franska sem margendurtók áreksturinn og sennilega hefur hin sama mynd verið sýnd heima. Ég bloggaði strax eftir útsendinguna meðan þetta var lifandi í huga manns. Þess vegna er ekki um neitt sannað að ræða, heldur það sem maður sér eða sýnist. Það má vel vera að þetta sé full djúpt í árinni tekið hjá mér með akstursmistök. Skal leiðrétta það ef rétt reynist. Verð bara að rannsaka það. Hins vegar er það nú svo að ökuþórarnir, alveg í sama hvaða liði eru, sjá allt með sýnu nefi í þessum efnum!
Það kemur sér vel að hafa tekið keppnina upp á dvd. Ég verð að yfirfara diskinn og skoða hægt og rólega hvað hæft er í þessu. En það er fullt af myndum af óhappinu á formúluvef mbl.is (http://www.mbl.is/mm/sport/formula/myndasyrpa.html?album=273) og á þeim fæ ég ekki betur séð en það sé Massa sem komi aftan á bæði Rosberg og Klien.
Annars finnst mér gamli góði Schumacher bestur í dag. Segist hafa gert fíflaleg mistök er hann klessti. Ég hef fulla samúð með honum því hann var þó að sækja mjög grimmt eins og við höfum svo oft séð til hans. Því miður galt hann þess að sækja aðeins of djarft!
Ágúst Ásgeirsson, 2.4.2006 kl. 19:16
Bíðum hægir, Þegar ég minntist á Schuma sem hættulegan ökumann þá var það til að svara þessum Hans sem telur td Montoya, og Sato til hættulegra ökumanna, það er óþarfi að fara á límingunum þó Schumacher sé gagnrýndur af og til.
Það má vel vera að Schumi hafi verið í "rétti" þegar hann krossaði fyrir Hakkinen en siðlaust var það. Í dag gera menn miklu minna af þessu, hreinlega gefa sig ef bíll er að fara framúr, einmitt vegna hættunnar sem af þessu hlýst. En atvikið í Jerez var náttúrulega skólabókardæmi um hverjir eru hættulegir í F1
bjorn (IP-tala skráð) 2.4.2006 kl. 20:23
:-)
Eiginlega langaði mig bara til að sjá umræðu á þessu Bloggi því þetta var allt svo rólegt hér. Hins vegar hef ég fylgst með keppnum síðustu 10 ára á erlendum sjónvarpsstöðvum þannig að ég byggi mínar athugasemdir kannski að einhverju leiti á öðrum forsendum en þið. En ég fer ekki ofan af því að síendurteknar breytingar á reglunum, sérstaklega síðustu 3 árin hafi skaðað þessa íþrótt illilega. Síðan sagði ég ekki að þessir þrír sem ég nefndi væru hættulegir ökumenn. Heldur sagði ég að þeir væru stórhættulegir klaufar.
Er samt sammála því að hættulegum svíningum hefur fækkað síðustu árin.
Kveðja
Hans
Hans Gunnarsson (IP-tala skráð) 3.4.2006 kl. 09:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.