Viktor Þór þroskast vel

Það var ánægjulegt að fylgjast með upphafi keppnistíðar Palmer Audi formúlunnar í Bretlandi. Viktor Þór Jensen - sem keppir í nafni Íslands - sýndi þar og sannaði að hann hefur þroskast vel og dafnað í þessari grein kappaksturs. Í upphafi þriðja keppnisársins er þessi 18 ára unglingur orðinn drottnandi ökuþór í keppni við sér mun eldri og reyndari ökuþóra. Og það við mjög erfiðar aðstæður vegna rigningar. Eftir þessu verður tekið og líkur aukast á að hann eigi eftir að fá tækifæri í stærri greinum.

Áhugamenn vita flestir að Viktor Þór á íslenska móður og enskan föður. Hann hefur ræktað tengslin við Ísland og talar móðurmálið. Í umfjöllun í Bretlandi er hann kynntur sem íslenski ökuþórinn þótt einnig vilji Englendingar að sjálfsögðu eiga sína hlutdeild í honum. Rétt eins og menn segja stoltir frá sínum eignarhlut í virðulegu fyrirtæki.

Og það er einmitt það sem kappakstur er. Hann er nokkurs konar fyrirtæki. Rekstarkostnaðurinn er mikill. Hann brúa menn með hjálp styrktaraðila. Viktor Þór hefur undanfarin tvö ár notið tilstyrks íslenskra fyrirtækja en ekki er að sjá á bíl hans í ár að svo sé. Er það miður því glæsilegur árangur hans vekur athygli í Bretlandi - og víðar. Sigur í tveimur mótum um helgina mun stórauka athygli þá sem þessi ungi og efnilegi ökuþór hlýtur. Bæði meðal áhorfenda, áhugafólks og síðast en ekki síst forsvarsmanna stórliða. Rétt eins og efnilegur fótboltamaður.

Eiður Guðjohnsen hefur gert garðinn frægan og borið hróður Íslands undanfarin ár í Englandi. Hann á mikið eftir en ætli röðin sé ekki að koma að Viktor Þór í þessum efnum. Hann ekur stoltur með íslenska fánann á bíl sínum. Og á keppnishjálminum. Er ekki komin röðin að íslenskum fyrirtækjum að skjóta styrkum stoðum undir rekstur hans svo hann megi eflast enn frekar og komast í hóp þeirra stóru? 

Algent er að allt þar til menn komast að í formúlu-1 þurfi ökuþórar að færa liðum sínum styrktarfé. Það er metnaðarmál margra fyrirtækja og eftirsóknarvert að tengjast formúlunni. Og þar komast færri að en vilja, svo einfalt er það. Ávinningurinn er gagnkvæmur. Ef vel gengur hefur styrkurinn komið viðkomandi liði vel og styrktaraðilinn notar tengslin í þágu eigin kynningar. Tvö íslensk fyrirtæki styðja lið í formúlu-1, Baugur lið Williams gegnum verslanakeðjuna Hamleys og Glitnir banki styrkir rússneska liðið Midland F1 gegnum dótturbanka sinn í Lúxemborg. Það er vel en mér sýnist vera laust auglýsingapláss á bíl Viktors Þórs, jafnvel það besta, á sjálfum afturvængnum.

Á ég að trúa því að íslensk útrásarfyrirtæki hafi ekki séð þámöguleika sem í því felst að tengjast hinum íslenska ökuþór sem er á hraðferð upp á við sem kappakstursmaður? Maðurinn sem í gær vann tvöfaldan sigur í hinni sögufrægu Brands Hatch-braut austan Lundúna? Það hlýtur að eiga eftir að breytast.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, þú segir nokkuð.

Nóg er um útrás íslenskra fyrirtækja erlendis með þeim tilgangi að moka að sér fleiri seðlum en fyrri daginn og koma sínum hagnaði á framfæri í blöðum hérlendis og utan.
Það er svo mjög gott og blessað fyrir alla sem að því koma.

En ef fyrirtækin myndu hafa vilja og drifkraft til að styðja meira við bakið á Viktori þá myndu kannski fleiri íslenskir sem og erlendir akstursíþrótta áhuga- og atvinnumenn taka eftir árangri hans og þar af leiðandi myndi útrás íslenskra aksturíþrótta manna aukast til muna.

Því að ef athyglin er til staðar, þá er auðveldara að komast í styrk og stuðning.

Um daginn var akstuskeppnin Gumball 2006 haldin og tóku þar þátt nokkrir minna og meira þekktir íslendingar sem vildu ekki koma fram undir nafni, enda ekki skrítið þar sem keppnin átti sér stað á götum borga og bæja, en ekki lokuðum brautum.
En löngun þessara einstaklinga til að taka þátt í aksturskeppni er mikil og er það mjög gott, sérstaklega vegna þess að þessir einstaklingar hafa fjármuni til að stofna heilt lið og það yði gott lið, vegna þess að hér á landi er að finna mjög góða ökumenn sem eru sólgnir í það að fá að keppa á brautum, en fá ekki tækifæri til þess.

Viktor Þór er frumkvöðull í formúlu kappakstri fyrir hönd íslendinga og fyrir þá íslendinga sem eru tilbúnir að taka þátt, þá er ekkert annað að gera en að hvetja íslensk fyrirtæki til að rífa sig upp úr þessu staðlaða auglýsinga umhverfi og vera agalega flott á því með því að styðja meira við bakið á verðandi F1 keppanda og fleirum sem vilja taka þátt.

Höskuldur Goði (IP-tala skráð) 24.5.2006 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband