Mánudagur, 15. maí 2006
Kimi lélegur langhlaupari
Mér finnst Kimi Räikkönen full fljótur til uppgjafar í formúlunni. Finnar eru þekktir fyrir góða langhlaupara og keppnin um heimsmeistaratitil ökuþóra er eins og hvert annað langhlaup. Engu hlaupi er lokið fyrr en á mark er komið. Hann er ekki í þeirri stöðu að hafa sprengt sig á fyrsta hring. Þess vegna er yfirlýsing hans um að hann sé úr leik fallinn í titilslagnum óskiljanleg.
Maður freistast til að leita skýringa í eigin hugarfylgsni. Upp spretta spurningar. Vissulega hefur hann kvartað undan hraðaleysi McLarenbílsins en jafnharðan segir stjórinn Ron Dennis að engar áhyggjur þurfi að hafa af hraða silfurörvanna! Räikkönen hefur nú spyrnt við fótum all hressilega og nánast með berum orðum gefið frat í síðasta sköpunarverk Adrians Newey.
Er hann ekki líka með þessu að segja blákalt skilið við McLaren. Bílar liðsins hafa verið einstaklega mistækir undanfarin ár og hann segist ætla að keppa fyrir lið sem getur sigrað á næstu árum. Segir þar aðeins Renault og Ferrari koma til greina auk McLaren.
Þessum mikla keppnismanni hlýtur að hafa liðið illa í Barcelona í gær - það er niðurdrepandi sjón að horfa á eftir keppinautum sínum hverfa sér sjónum. Räikkönen hefur ítrekað verið bendlaður við Ferrari. Og víst er að liðið þarf að reiða fram fúlgur fjár til að næla í hann. Ekki síst vegna þess að nú er Renault búið að bjóða honum 20 milljónir evra á ári fyrir að koma til sín! Það eru aðeins 1805 milljónir króna á gengi dagsins. Með öðrum orðum 150 milljónir á mánuði - sem er samasem fimm milljónir krónur hvern dag!
Þetta mun vera margfalt hærri upphæð en Renault hefur verið að borga Alonso. Einkennilegt hlutskipti að vera heimsmeistari á lúsarlaunum á meðan uppgjafa ökuþór eru boðnar svimandi upphæðir úr mörgum áttum! Öðru vísi mér áður brá, ég segi bara ekki annað.
Athugasemdir
Sammála síðasta ræðumanni, allt of fljótur að gefast upp. Það er samt skrítið hvað "silly season" kemur snemma í ár í rauninni áður en tímabilið byrjaði. Þetta fyrirbæri hefur ekki byrjað fyrr en eftir Monoko kappaskturinn í fyrsta lagi. Það sem kom þessu af stað þegar Alonso gaf það út að hann ætlaði að fara til McLaren, sem er jafn undarlegt og geimvera labbaði niður laugaveginn. Nú er harðasti Finninn sem hefur sést undir stýri á kappakstursbíll að gefast upp. Þetta er eitthvað skrítið. Sparkaði Renault ekki bara Alonso og voru búnir að semja við Finnann fyrir löngu. Renault getur nagað á sér handarbökin, "við spörkum bara Alonso og Fischetella verður heimsmeistari". Það er kappasktur ökumaður sem stendur aldrei undir pressu, gerir bara mistök. Það á einnig við um finnann hann gerir allt of mörg mistök og verður aldrei heimsmeistari að mínu mati. Ef sagan er skoðuð þá verða heimsmeistarar þeir sem ekki gara mistök eins og Alonso, Schumager, Senna, Prost osvfr. Ég er mjög ánægður með þetta blogg hjá þér Ágúst og sakna þess að sjá þig ekki í sjónvarpinu eins og í forðum.
Takk fyrir.
Irvine
Irvine (IP-tala skráð) 16.5.2006 kl. 03:58
Athyglisverð spurning sem þú veltir fram um hvort Renault sé fyrir löngu búið að semja við Räikkönen. Lygilegt ef satt væri vegna þess að ég held að það væri útilokað að halda slíku leyndu - ekki síst vegna allrar umræðunnar sem skipti Alonso fengu. Þetta hlyti að hafa lekið út þá ef satt væri.
Annars held ég að Alonso hljóti að vera farinn að naga sig í handarbökin yfir ákvörðun sinni að fara til McLaren. Hann viðurkennir slíkt ekki og er stöðugt að vara menn við því að afskrifa enska liðið. Hvað getur hann annað? Takist honum að koma McLaren á sigurbraut - sem við skulum alla vega vona - þá er hann algjör töframaður. Í klassa með Michael Schumacher.
formula (IP-tala skráð) 17.5.2006 kl. 08:51
Mér finnst að Schumacher sé eini alvörunni heimsmeistari ásamt Senna en Alonso hafi bara unnið í fyrra út af því að hann var lukkunar pamfíll enda finnst mér hann ekki vera nærri því nógu reyndur eins og Schumacher er núna enda þarf máður að viðurkenna að hann er orðinn aðeins of gamall fyrir svona harðan kappakstur eins og Formúluna.A.m.k finnst mér það
????? (IP-tala skráð) 17.5.2006 kl. 17:29
Ég hef aldrei skilið almennilega þá persónudýrkun sem svo margir formúluaðdáendur hafa komið sér upp gagnvart Räikkonen. Það er eins og að allir hafi trúað því að þarna væri Hakkinen endurfæddur. dýrkunin hefur meira að segja gengið svo langt að menn eru tilbúnir að loka augunum fyrir öllum mistökunum sem Kimi hefur gert á síðustu vertíðum og kenna bílnum og öður um. Ég vona svo sannarlega að Renault komi ekki til með að ráða Kimi til starfa, nema þá kannski sem þróunarökumann. Ef Íslendingar vilja standa með finnskum ökumanni í keppninni þá gefst þeim tækifæri til þess á næsta ári þegar Kovalainen fer að keyra fyrir besta formúluliðið, það er RENAULT.
Varðandi Alonso, þá held ég að hann geti hjálpað McLaren verulega við að komast aftur í fremstu röð þó að ég voni að sjálfsögðu að ökuþórar Renault komi til með að sjá við honum.
Mér finnst í þessum athugasemdum hér að framan vegið heldur illa að Fisichella. Hann er feykilega góður ökumaður þó að hann standi ekki jafnfætis Alonso. þeir sem fylgdust með Monaco kappakstrinum geta ekki annað en samþykkt þetta, en hann sýndi þar frábæra takta og var einn af fáum ökumönnum sem hafði getu og þor til að taka framúr í brautinni. Því miður varð svo öryggisbíllinn til þess að árangur hans þurrkaðist að mestu út. Ég veit að einhverjir Schumacher aðdáendur koma til með að benda á þá staðreynd að hann hafi ræst aftastur og endað í fimmta sæti og ekið framúr á leið sinni þangað, en hverjum ók hann framúr? er það mikið afrek að fara framúr Super Aquri og Midland bílunum í brautinni? svo til öll önnur sæti tók hann á þjónustuáætluninni og óhöppum annarra
Þorsteinn T. Broddason (IP-tala skráð) 29.5.2006 kl. 08:50
Ef þú Ágúst heldur því fram að Kimi sé uppgjafa ökumaður ert þú ekki trúverðugur og hefur sannast sagna lítið vit á þessari íþrótt.
Andrés Viðarsson (IP-tala skráð) 11.6.2006 kl. 14:58
Ef þú heldur því fram Ágúst að Kimi sé uppgjafa ökuþór ert þú ekki trúverðugur og sannast sagna tel ég að þú hafir afskaplega lítið vit á þessari íþrótt.
Andrés Viðarsson (IP-tala skráð) 11.6.2006 kl. 15:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.