Tímabær sigur Alonso á heimavelli

Sigur Fernando Alonso í Barcelona var tímabær. Draumur sérhvers ökuþórs er að vinna á heimavelli en bið hefur verið á því í tilfelli Alonso. Tvisvar hefur hann orðið annar en í dag gat ekkert nema bilun í bílnum komið í veg fyrir sigur. Kominn heim til keppni sem heimsmeistari var hann greinilega frá upphafi staðráðinn í að láta draum sinn og landa sinna um sigur fyrsta spænska ökuþórsins í Spánarkappakstrinum rætast.

Það var ekki amalegt að hafa sjálfan þjóðhöfðingjann Jóhann Karl sér til fulltingis. Annars er konungur mikill áhugamaður um íþróttir. Leggur sig fram um að styðja landa sína með nærveru sinni og hefur um langan aldur verið viðstaddur kappaksturinn í Barcelona. Honum hefur ekki leiðst að afhenda verðlaunin í dag.

Alonso sneri dæminu úr tveimur síðustu mótum við og lagði Mihcael Schumacher örugglega að velli - og það á herfræðinni. Fyrir viku var Schumacher með yfirhöndina og vann glæsilegan sigur í Nürburgring, sérstaklega þó með góðri keppnisáætlun því Ferraribíllinn virðist að öðru leyti orðinn nokkuð jafn Renaultinum að getu.

Rétt eins og Schumacher naut aðstoðar liðsfélaga síns Massa í keppninni í Imola fyrir þremur vikum hafði Alonso stuðning af Giancarlo Fisichella framan af keppninni í dag. Var hann tilbúinn að tefja fyrir Schumacher. Eftir á að hyggja og í ljósi þess hversu miklu meira bensín Schumacher var með í sínum bíl uppskar Fisichella ekkert nema tapa öðru sætinu til Schumachers.

Oftast hefur mér fundist lítið varið í Spánarkappaksturinn. Nánast eins og prósessía frá upphafi til enda og lítil sem engin keppni um sæti. Það vantaði mjög á slíkar viðureignir í dag en samt var stemmningin öðru vísi og mikil spenna í loftinu í Barcelona. Þar kemur Alonso til sögunnar. Pressan á honum var mikil. Stemmningin stórjókst eftir sigur hans í keppninni um ráspólinn. Og í ljósi þess hvernig fyrri mót hafa þróast var erfitt að segja til um hvernig færi í dag fyrr en að loknum seinni þjónustustoppunum. Þá gerði Schumacher sér ljóst að hann næði ekki Alonso og sparaði mótor sinn eftir það en hann þarf hann að nota í næsta móti, í Mónakó. Þar verður Alonso hins vegar með nýjan mótor þar sem mótorinn í dag var einnig í bíl hans í Nürburgring.

Ef Barcelonakappaksturinn er fjörlítill þá er Mónakókappaksturinn enn verri - örugglega jafnleiðinlegasta mót ársins. Eina vonin um að röðin breytist eftir að rásmerki er gefið er að bílar skelli utan í vegriðum eða hlekkist á með einhverjum öðrum hætti. Framúrakstur heyrir þar til undantekninga. Meira fjör ætti hins vegar að verða þegar í breska kappaksturinn í Silverstone kemur 11. júní og í mótunum í framhaldi af því. Ég hlakka meira til þeirra móta en þess næsta.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef nú bent á að best væri að sleppa brautum úr keppnisdagatalinu sem æft er á á undirbúningstímabilinu. Ökumenn þekkja hvern flöt á brautinni og tækniliðið veit allt sem þurfa þykir um brautina.

Svo er nú Barcelona sér í lagi leiðinleg með það að þar eru hraðar beygjur og beinu kaflarnir nýtast illa til framúrakstra þar sem ekki er um nein sérstök bremsusvæði að ræða.

Svo þarf að fara að losna við þessa hundfúlu vélarreglu ... hún gerir ekkert annað en að skemma fyrir alvöru kappakstri.

Kveðja af stöðinni

Örvar Már Kristinsson(Essó stöðin) (IP-tala skráð) 15.5.2006 kl. 09:50

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Tek alveg undir hugmynd þína um að sleppa æfingabrautum af keppnisskránni. Það væri sennilega skynsamlegt að fara með vetraræfingarnar frá Barcelona og breyta brautinni og fækka hröðu beygjunum sem þú nefnir. Gera hana sem sagt keppnisvænni með tilliti til áhorfenda.

Ágúst Ásgeirsson, 15.5.2006 kl. 18:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband