Aðeins eitt stig í titil

Vel var tekið á móti Vettel í Suzuka.

Sebastian Vettel hjá Red Bull þarf aðeins eitt stig úr síðustu fimm mótunum sem eftir eru til að verða heimsmeistari ökumanna í ár. Erfitt er að ímynda sér að það gerist ekki í Suzuka í Japan á sunnudaginn kemur. Í pottinum eru enn samtals 175 stig fyrir sigur í mótunum fimm.  

Það yrði annar titill Vettels í röð og þar með verður hann yngsti ökumaðurinn í sögu formúlu-1 til að verða tvöfaldur heimsmeistari. Hann verður og níundi ökumaðurinn til að vinna titil tvö ár í röð.

Í sögu sinni hefur Red Bull unnið 24 mót sem er lítið í samanburði við stórliðin sögufrægu. Þannig hefur Ferrari unnið sigur 216 sinnum og McLaren 173 sinnum og Williams 113 sinnum.

Enginn ökuþór í sögunni hefur unnið kappakstur í formúlu-1 jafn oft og
Michael Schumacher hjá Mercedes sem staðið hefur á efsta þrepi verðlaunapalls 91 sinni. Af núverandi keppendum hefur Fernando Alonso hjá Ferrari komist 27 sinnum upp á það þrep. Í sögu formúlunnar hefur skoski ökuþórinn Jackie Stewart staðið þar jafn oft en aðeins fimm ökumenn hafa oftar unnið kappakstur en þeir tveir.

Vettel hefur unnið 19 mót, Lewis Hamilton hjá McLaren 16 og 11 kappakstra hafa Rubens Barrichello hjá Williams, Jenson Button hjá McLaren og Felipe Massa hjá Ferrari unnið.

Vettel hefur unnið níu mót á árinu af þeim 14 sem lokið er og af síðustu 18 mótum í röð hefur hann unnið 12. Schumacher hefur unnið flest mót á einni og sömu vertíðinni eða 13 sem liðsmaður Ferrari árið 2004.

Schumacher  er eini ökumaður sögunnar sem unnið hefur 10 mót eða meira á einni og sömu keppnistíðinni. Hann vann einnig 11 sinnum árið 2002.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þetta var alveg gríðarlega flott samantekt en það sem var einna merkilegast, að mínu áliti, er árangur Jackie Stewart en eins og allir vita var tími hans í "formúlunni" MJÖG STUTTUR og þá fara menn ósjálfrátt að hugsa um það hver árangurinn hefði orðið ef hann hefði haft lengri tíma.

Jóhann Elíasson, 6.10.2011 kl. 10:57

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Laukrétt Jóhann og ég er alveg sammála. Þá voru líka bara örfá mót á vertíð miðað við nú. Þú er naskur á hlutina og hittir alltaf naglann á höfuðið. 

Ágúst Ásgeirsson, 6.10.2011 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband