Fimmtudagur, 11. maí 2006
Sagan um samningamál Schumacher orðin leiðinleg
Sagan endalausa stendur undir nafni. Sagan um það hvenær Michael Schumacher ákveður hvort hann hættir keppni í vertíðarlok eða heldur áfram. Virðist hann eiga erfitt með að ákveða sig því í dag sagðist hann allt eins þurfa tíma út vertíðina til að hugsa málið.
Fjölmiðlar og er formúluvefur mbl.is ekki þar undan skilinn hafa flutt marga fréttina af málinu allt frá í fyrra. Bæði hann og umboðsmaður hans, Willi Weber, hafa verið loðnir í svörum og nefnt hina og þessa tíma um það hvenær ákvörðun myndi liggja fyrir.
Síðast í gær tjáði Weber sig og sagðist gera ráð fyrir fregnum af fyrirætlunum Schumacher í júlí. Áður hafði hann nefnt júní, þar áður maí og svo framvegis. Þá sagði Ferraristjórinn Luca di Montezemolo í viðtali við ítalska íþróttadagblaðið Gazzetta dello Sport í apríl að hann vænti svars frá Schumacher í maí þessum mánuði um það hvort hann héldi áfram eða hætti.Svo gefur Schumacher til kynna í dag að þurfi fimm mánuði til viðbótar til að velta málinu fyrir sér. Gott og vel. Hann veit best sjálfur hvaða tíma hann þarf til að hugsa málið og skoða. En hvað sem öðru líður þá er ég eiginlega búinn að fá hundleið á þessu máli. Það er löngu orðið svo farsakennt. Auðvitað vil ég að Schumacher haldi áfram. Hann er í fullu fjöri og tvímælalaust einn þriggja toppmanna formúlunnar í dag. Og næstu ára, ef hann vill. Ég hef haft á tilfinningunni að hann sé tilbúinn í eitt ár enn, en Ferrariliðið vill fá hann til tveggja ára. Það segir Montezemolo að honum hafi verið boðið, hann þurfi bara að segja já eða nei. Kannski var Schumacher að gera grín að öllu fárinu er hann sagði í Barcelona í dag, að hugsanlega yrði löng bið í niðurstöðu sína. Ferrari er alveg ánægt þótt það þurfi að bíða til vertíðarloka, sagði hann.
Athugasemdir
Er kallinn ekki bara að sjá til hvort hann nær tittlinum eða ekki. Hann greinilega veit þá ekki hvort hann hefur gaman af því að keppa. Skrítið því hann heldur því alltaf framm að þetta sé bara svo gaman. Ég er orðinn hundleiður á þessu máli.
Ómar (IP-tala skráð) 13.5.2006 kl. 10:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.