Ætti Renault að hvíla Fisichella?

Stjórnendur Renaultliðsins virðast stundum hafa ástæðu til að ergjast út í Giancarlo Fisichella. Mér finnst reyndar að þeir ættu að hvíla hann og gefa tilraunaþór sínum,  finnska ökuþórnum Heikki Kovalainen, tækifæri í staðinn. Já, eða einhverjum frönskum ökuþórum, nóg er af þeim góðum, t.d. í GP2- og A1-mótunum.

Það er ekki bara að gengi Fisichella sé skrykkjótt frá einu móti til annars. Að maður tali ekki um skapgerð hans, eins og hún braust út gagnvart Jacquese Villeneuve í tímatökunum í Nürburgring.

Nei, hraði Fisichella í keppni á það til að vera skrykkjóttur einnig. Furðugóðir hringir inn á milli en hægagangur þess utan. Og oft er eins og hann finni ekki rétta tempóið fyrr en undir lok kappaksturs.

Í fyrra setti hann til að mynda hraðasta hring Spánarkappakstursins í Barcelona á síðasta hring! En var samt mínútu á eftir sigurvegaranum, Kimi Räikkönen hjá McLaren, á mark.

Skrykkjótt ók hann einnig í Nürburgring um helgina. Yfirleitt ók hann hringinn á rúmlega 1:35 mínútum en svo batnaði tíminn allt í einu um sekúndu á 22. hring. Og án þess að hafa farið neðar kom allt í einu 1:32,964 mín. hringur hjá Fisichella á 46. hring. Alveg eins og þruma úr heiðskíru lofti! Og svo datt hraðinn niður aftur. Hann varð þó altjent sjötti á mark og því í fjórða mótinu í röð í stigasæti. Það hafði hann ekki afrekað frá árinu 2004.

Með hraðasta hring sínum sýndi Fisichella samskonar sprett og Michael Schumacher, Fernando Alonso og Kimi Räikkönen. Engir aðrir komust undir 1:33 mínútur. Munurinn á honum og þeim er að hraði þeirra var mun stöðugri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skipta kallinum út hið snarasta. Árið í ár gat hann notað til að koma sér vel fyrir hjá Renault því Alonso er á förum. En hvað gerist? Alonso ekur eins og engill á meðan Fisi gengur allt á afturfótunum. SKipta honum út hið snarasta, það er til nóg af góðum ökumönnum

Björn (IP-tala skráð) 10.5.2006 kl. 10:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband