Sunnudagur, 25. júlí 2010
Heldur Ferrari að fólk sé fífl?
Halda stjórnendur Ferrariliðsins, með fíflalátum sínum í dag, að fólk sé fífl? Hafa þeir engan lærdóm dregið af skandalnum í Austurríki 2002. Eru þeir svo barnalega einfaldir að halda að þeir sleppi með atvikið í Hockenheim í dag, þegar Felipe Massa var skipað að hleypa Fernando Alonso fram úr?
Að reyna að halda því fram - eins og þeir rembast þó við sem rjúpa við staur - að það hafi ekki verið liðsfyrirmæli þegar Massa var skipað, segjum beðinn, að hleypa Alonso fram úr er hrein og klár móðgun. Móðgun við íþróttina, móðgun við unnendur hennar og áhorfendur. Fíflalæti.
Ég held þeir hafi ekkert haft að óttast. Alonso hafði ekki burði til að komast fram úr Massa við eðlilega keppni og ekki virtist Sebastian Vettel hjá Red Bull það nærri að hann ógnaði sigri Ferrari. Fyrst hefði hann þurft að komast fram úr Alonso, sem hefði ekki verið neinn leikur, áður en svo reyndi við Massa.
Nei, Red Bull bílarnir höfðu einfaldlega ekkert í Ferrari að gera í dag. Ég held þegar öllu er á botninn hvolft að fyrirmælunum hafi einungis verið beitt til að styrkja stöðu Alonso í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna. Með öðrum orðum, úrslitunum var hagrætt sem er andstætt öllu íþróttasiðferði. Alonso fékk gefins 5 stig með þessu. Og Ferrari getur ekki úr þessu haldið því fram að jafnræði sé með ökuþórunum. Ætli hafi nokkurn tíma svo verið.
Svei mér þá, ég hélt Ferrari hafi lært lexíu í Austurríki 2002. Er Rubens Barrichello var á leið til öruggs sigurs en var síðan skipað að víkja svo Schumacher gæti sigrað og styrkt stöðu sína í titilkeppninni. Það dæmi þótti svo brútalt á miðri keppnistíð, ekki síst vegna yfirburðastöðu Schmacher í stigakeppninni þá, að Ferrari var hart refsað. Liðið þótti sekt af því að hafa komið óorði á formúlu-1 með framferði sínu 2002. Vegna þess voru settar reglur er banna liðsfyrirmæli.
Alonso er uppáhalds ökuþór minn og því þykir mér leitt hvaða leik hann lék í dag. Það er blettur á sigri hans, blettur á ferlinum. Hann á aðild að málinu því hermt er að mikil ltalstöðvarsamskipti hafi átt sér stað milli bílanna og stjórnborðsins í nokkra hringi áður en Massa vék. Þau verða væntanlega birt þegar málið verður frekar krufið hjá íþróttaráði FIA.
Það er líka afar leitt þegar atburðir af þessu tagi eiga sér stað. Vaskekta unnendur og áhugamenn formúlunnar eins og ég fá næstum fyrir hjartað! Það þarf að taka hart á svona fíflalátum. Fróðlegt verður að sjá hvað íþróttaráðið gerir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.