Föstudagur, 5. maí 2006
Räikkönen þarf að losna úr álögum
Kimi Räikkönen bíður erfitt hlutskipti í Nürburgring á sunnudag, eigi hann að vinna fyrsta sigur McLaren á árinu á þessum heimavellil mótorsmiða liðsins, Mercedes. Til þess þarf hann eiginlega að losna úr álögum.
Já, það er eins og einhver álög hafi marað á Räikkönen í keppni í Þýskalandi. Hann hefur ekki komist á mark í Nürburgring þrjú ár í röð. Þá hefur hann ekki lokið þýska kappakstrinum í Hockenheim undanfarin fimm ár.
Tíu sinnum hefur Räikkönen hafið kappakstur í Formúlu-1 í Nürburgring og Hockenheim. Aðeins einu sinni hefur hann lokið keppni í stigasæti. Það var á fyrsta ári hans með McLaren, í Evrópukappakstrinum í Nürburgring árið 2002.
Þetta eru ótrúleg álög og fróðlegt verður að sjá hvort ísmaðurinn brýtur hlekki fortíðar af sér á sunnudag og sigri. Útlitið er ekki alltof gott ef eitthvað er að marka æfingarnar í dag. Räikkönen var þar frekar aftarlega á meri. Þó ber ætíð að taka niðurstöðum föstudagsæfinganna með fyrirvara þar sem einstakir ökuþórar geta verið að prófa sig áfram með mjög ólíka þætti.
Vísbendingar ættu hins vegar að fást í tímatökunum á morgun hvernig liðin virðast standa fyrir helgina.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.